Fiskeldi

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eru heildarsamtök íslenskra fiskeldisfyrirtækja og málsvari þeirra út á við. Markmið samtakanna er að íslensku fiskeldi verði sköpuð bestu mögulegu skilyrði til uppbyggingar í átt að því að verða burðarstoð í verðmætasköpun hér á landi. Jafnframt vilja samtökin stuðla að ábyrgu fiskeldi í sátt við umhverfi og samfélag, þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis er höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna.

Friðunarsvæði fiskeldis

Til verndunar villtum laxastofnum er eldi laxfiska af eldisstofni í sjókvíum óheimilt á eftirtöldum svæðum við strendur landsins:

1.    Í Faxaflóa innan línu sem dregin er frá Garðskaga að Malarrifi á Snæfellsnesi.

2.    Í Breiðafirði innan línu sem dregin er frá Hellissandi að Látrabjargi.

3.    Í Húnaflóa og Skagafirði innan línu sem dregin er frá Geirólfsgnúp að Siglunesi.

4.    Við Skjálfanda innan línu sem dregin er frá Bjarnarfjalli að Tjörnesstá.

5.    Við Norðausturland innan línu sem dregin er frá Hraunhafnartanga að Fonti á Langanesi og frá Fonti að Glettinganesi.

Umhverfisvottanir

Umhverfisvottanir eru fiskeldi, líkt og öðrum matvælaframleiðslugreinum, mjög mikilvægar. Íslensk fiskeldisfyrirtæki starfa í nánu samspili við umhverfið og hafa það að markmiði sínu að lágmarka áhrif af starfsemi sinni á umhverfið. Á það bæði við um bein áhrif, s.s. af losun lífræns úrgangs eða frárennslisvatns, en ekki síst um almenna starfshætti og þá ímynd hreinleika sem Íslandi er samofin. Þannig geta farið saman fyrirmyndar starfshættir, öryggi umhverfisins og markaðssetning hreinleika í afurðum íslensks fiskeldis.

Helstu vottanir sem íslensk fiskeldisfyrirtæki starfa nú eftir eru:

ASC – Aquaculture Stewarship Council

IMO – International Marketing Organization   Vottar m.a. fyrir Whole Foods matvælakeðjuna

AquaGAP

BAP – Best Aquaculture Practice

Búnaðarstaðlar

Samkvæmt reglugerð nr. 540/2020 um fiskeldi skal allur sjókvíaeldisbúnaður uppfylla kröfur sem gerðar eru í staðlinum NS-9415:2009. Með innleiðingu staðalsins hér á landi er stigið stórt skref í þá átt að lágmarka hættu á óhöppum við sjókvíaeldi á Íslandi með ströngustu stöðum sem fyrirfinnast um fiskeldismannvirki í sjó. 

 

Heilbrigðismál

Ástand heilbrigðismála í íslensku fiskeldi er nú mjög gott. Ávallt er lögð mikil áhersla á forvarnir í víðu samhengi og allt gert til þess að lágmarka notkun lyfja í fiskeldi. Árangur hefur verið afar góður og árið 2020 var níunda árið í röð þar sem engin sýklalyf voru notuð, sem segja má að sé einsdæmi í fiskeldi á heimsvísu.

Matvælastofnun gefur árlega út ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma, með ítarlegri greiningu á stöðu fiskeldis á Íslandi m.t.t. heilbrigðis- og dýravelferðar í eldinu.  Skýrsluna fyrir 2020 er að finna hér.

 

Mælaborð fiskeldis

Í mælaborði fiskeldis á heimasíðu Matvælastofnunar er meðal annars að finna eftirfarandi upplýsingar:

  • Umfang lífmassa í sjókvíaeldi, umfang rekstrarleyfa, áhættumat, burðarþol, afföll og fjölda laxalúsa eftir landshlutum og fjörðum.
  • Kortasjá sem sýnir staðsetningar eldissvæða um landið og hvaða svæði eru í notkun, ásamt þróun lífmassa, fjölda laxalúsa og afföll (%) á hverju eldissvæði. Einnig er hægt að sjá uppruna og tegund þeirra fiska sem aldir eru á hverju svæði.
  • Eftirlitsskýrslur Matvælastofnunar vegna eftirlits með rekstri og búnaði fiskeldisstöðva eru birtar í mælaborðinu, ásamt rekstrarleyfum.
  • Mælaborðið má finna hér: https://www.mast.is/is/maelabord-fiskeldis

 

Fjölbreytt störf

Störf við fiskeldi krefjast fjölbreytts bakgrunns og reynslu. Fjölbreytnin hefur þann kost m.a. að greinin getur fullnægt þörfum bæði þeirra sem ekki hafa gengið langskólaveginn og þeirra sem það hafa gert. Þannig veitir fiskeldið t.d. þeim atvinnu sem starfa við slátrun og pökkun þar sem fiskvinnslumenntaðir starfsmenn fyrirtækjanna þjálfa óvana til þeirra vandasömu verka. Þá starfa einnig hjá fyrirtækjunum fiskeldisfræðingar, sjávarútvegsfræðingar, líffræðingar, skipstjórar, vélstjórar, sölu- og markaðsfræðingar auk iðnaðarmanna og viðskiptamenntaðra starfsmanna.

Fiskeldi fylgja einnig ýmiss afleidd störf. Meðal fyrirtækja og stofnana sem þjóna fiskeldisfyrirtækjunum eru fóðurfyrirtæki, flutningafyrirtæki í lofti, láði og legi, netagerðir, verkfræðistofur, tæknifyrirtæki, vél- og blikksmiðjur, ráðgjafafyrirtæki af ýmsu tagi, sölu- og markaðsfyrirtæki, eftirlitsstofnanir, dýralæknar auk sérfræðinga í háskólasamfélaginu.