27. júní 2022

Að fylgja ráðgjöf við fiskveiðar – eða ekki

Allir sem fylgst hafa með íslenskum sjávarútvegi undanfarna áratugi hafa orðið þess áskynja að Hafrannsóknastofnun er boðberi margra tíðinda. Góðra og slæmra. Ber þar hæst árleg ráðgjöf hennar til stjórnvalda um ástand nytjastofna í hafinu í kringum Ísland. Á mannamáli; hvað verður kvótinn stór á næsta fiskveiðiári? Mjög mörg hafa skoðun á ráðgjöfinni, en vafalítið eru eitthvað færri tilbúin að axla ábyrgð á henni. Þetta hlutverk hefur Hafrannsóknastofnun með höndum og starfsfólk þar gerir sitt besta, miðað við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar, að leiðbeina stjórnvöldum við sínar ákvarðanir.

Stjórnvöld hafa blessunarlega í seinni tíð fylgt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Ráðgjöfin hefur þó ekki alltaf verið í samræmi við tilfinningu þeirra sem sækja sjóinn. Tilfinning þessi gengur oftast út á að það megi veiða meira en lagt er til. Sumir hafa gengið svo langt að krefjast þess að Hafrannsóknastofnun sanni að það sé ekki óhætt að veiða meira!

Ástæðulaust er að gera lítið úr tilfinningu reynslumikilla manna fyrir ástandinu í sjónum. Það er þó ekki hægt að grundvalla veiði á henni, en sjálfsagt að hafa hana til hliðsjónar. Reyndin er raunar sú að upplýsingar frá sjómönnum eru hluti af þeim upplýsingum sem Hafrannsóknastofnun nýtir þegar ráðgjöf stofnunarinnar er samin.

Það hefur lengi verið skoðun Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi að fara beri eftir ráðum vísindamanna. Til þess að hafa aðgang að best borgandi alþjóðlegum mörkuðum fyrir fisk þá þarf að styðjast við ýmsa mælikvarða. Veiðar þurfa að vera sjálfbærar og stundaðar með forsvaranlegum hætti, annars  vill markaðurinn ekkert með fiskinn hafa. Vilji fólk víkja af þessari leið verður sölu á fiski sjálfhætt á alþjóðlegum markaði. Höfum í huga að um 98% af íslensku sjávarfangi eru seld þar. Ákvörðun um veiði sem byggist á vísindum er því í rauninni algjört grundvallaratriði fyrir afkomu sjávarútvegs á Íslandi.

Ábyrg afstaða stjórnvalda fellur ekki öllum í geð. Nú heyrast þær raddir að auka skuli við kvótann því sumir sjómenn séu að fiska sem aldrei fyrr. Það minnir svolítið á sandinn í stundaglasinu sem rann í stríðum straumi, þar til allt í einu var ekki meiri sandur. Það er ábyrgðaleysi að tala með þeim hætti að treysta beri á augnabliks aflabrögð til þess að auka veiðiheimildir, þvert á ráðleggingar vísindamanna. Engin þeirra sem þess krefst mun taka það að sér að útskýra hvað gerðist ef þorskstofninn gefur meira eftir.

Íslenskur sjávarútvegur hefur í samstarfi við stjórnvöld komist í fremstu röð í heiminum. Á Íslandi er sjávarútvegur sjálfbær og arðsemi er með því mesta sem finnst í heiminum. Sú staða er ekki tilkomin vegna þess að heildarkvóti var ákveðinn frá einum mánuði til hins næsta í takti við tilfinningu þeirra sem sækja sjóinn. Það væri bragur að því að allir sem vilja íslenskum sjávarútvegi vel styðji Hafrannsóknastofnun í hennar snúna hlutverki. Ekki með meðvirkni heldur málefnalegri og uppbyggilegri gagnrýni. Aðeins þannig eflum við hinn vísindalega grunn og þar með verðmætasköpun til framtíðar.

Það er stjórnvalda að tryggja að Hafrannsóknastofnun hafi mannauð og fjármuni sem hún þarf til þess að geta sinnt hlutverki sínu. Þar hafa stjórnvöld því miður brugðist. Öflugar og vandaðar hafrannsóknir eru grunnforsenda þess að unnt sé að skapa verðmæti úr fiskveiðiauðlind. Um langa hríð hafa SFS lýst áhyggjum af stöðu hafrannsókna hér á landi. Breytt umhverfisskilyrði í hafi og auknar kröfur á mörkuðum hafa síst dregið úr þessum áhyggjum. Sá mikli niðurskurður sem orðið hefur á vöktun nytjastofna á undanförnum árum er jafnframt umhugsunarefni. Hann getur leitt til aukinnar óvissu um afrakstursgetu stofna og þar með varkárari nýtingar en ella væri hægt að viðhafa. Nýkynnt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir komandi fiskveiðiár er því miður vísbending um að áhyggjur SFS hafi verið réttmætar og brýnt er að bæta úr. 

Höfundur

Heiðrún Lind Marteinsdóttir

framkvæmdastjóri