23. nóvember 2021

Grunnt kolefnisspor í fiskeldi

Baráttan gegn hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum hefur stundum verið nefnt mikilvægasta verkefni samtímans. Leiðtogar heimsins ræða þessi mál á fundum sínum, heimsráðstefnur haldnar og þetta stóra mál er fyrirferðarmikið í stefnuskrám stjórnmálaflokkanna, hérlendis og um víða veröld.

Viðfangsefnið í eðli sínu hnattrænt og brýnt úrlausnarefni fyrir framtíð mannkyns, hvorki meira né minna. Einn þáttur þess er matvælaframleiðslan. Samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) má rekja 30% kolefnisfótsporsins og 80% af notkun neysluvatns jarðar til matvælaframleiðslu.

Áskoranirnar framundan

Prótínneysla í heiminum jókst um 40% frá árinu 2000 til 2018 og talið er að hún muni aukast um 27% til ársins 2025. Aukningin er drifin áfram af auknum fólksfjölda, meiri velmegun og þéttbýlismyndun. Frá aldamótum hefur íbúum jarðarinnar fjölgað um 90 milljónir á ári. Því er spáð að fjölga muni í svo nefndum neysluhópi að jafnaði um 290 milljónir á á ári í næstu framtíð. Þetta er sá hópur sem hefur fjárráð til að kaupa matvöru á borð við þær sem viðteknar eru í vestrænum ríkjum.

Til samanburðar má nefna að í ríkjum Evrópusambandsins búa um 500 milljónir manna og um 325 milljónir í Bandaríkjunum. Árleg fjölgun í „neysluhópnum“ er því nálægt heildarmannfjölda í Bandaríkjunum.

Laxeldi á óverulegan þátt í kolefnissporinu

Þessi þróun dýpkar kolefnissporið en mismikið þó eftir framleiðslugreinum. Ljóst er líka að hinni auknu eftirspurn eftir fæðu verður ekki mætt nema með eldisaðferðum, svo sem fiskeldi af margvíslegum toga.

Fiskeldi í sjó skilur eftir sig lítið og grunnt kolefnisspor í samanburði við flesta aðra fæðuöflun. Það er ofur skiljanlegt. Fiskurinn er alinn í sjó, án þess að það kalli á orkunotkun sem nokkru nemur. Þetta kemur vel fram í fræðilegri úttekt sem fyrirtækið Environice (nóv. 2018) vann á sínum tíma um kolefnisspor íslensks laxeldis og aðgerðir til að minnka það. Meginniðurstaða skýrslunnar var að laxeldi ætti óverulegan þátt í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og ennfremur að losunin í fiskeldi ætti að lang mestu leyti rætur sínar að rekja til framleiðslu og flutninga á fóðri. - Þar er því verk að vinna.

Mikil tækifæri í fóðurframleiðslunni

Þess verður skammt að bíða að fóðurframleiðslan flytjist í auknum mæli inn í landið með vaxandi fiskeldisframleiðslu. Í fiskafóðrinu er m.a að finna fiskafurðir sem ekki hafa hentað til manneldis. Þetta hlutfall hefur þó farið mjög lækkandi. Öll helstu fóðurfyrirtækin framleiða einvörðungu fóður fyrir laxeldi sem er umhverfisvottað af alþjóðlega viðurkenndum vottunarstofum.

Byltingarkennd þróun á sér stað við fóðurgerð vegna fiskeldis. Nefna má stórmerkilegar rannsóknir á borð við þær sem unnið er að  hér á landi þar sem saman fer íslenskt hugvit og þekking og einstæðar aðstæður. Ljóst er því að í nálægðri framtíð verður unnt að draga mjög úr kolefnisspori fiskeldisins, sem er þó mjög lágt fyrir.

Íslenskt hugvit skapar nýja möguleika

Flutningur á ferskum matvælum til útflutnings er krefjandi verkefni. Við þekkjum það hér á landi að fiskur er fluttur heimsálfa á milli í flugi ( þess vegna hefur orðið til sér-íslensk merking hugtaksins «flugfiskur» !!). Þessi flutningsmáti skilur eftir sig kolefnisspor, sem mun þó væntanlega grynnka með sparneytnari flugvélum.

Útflutningur á ferskum og ísuðum fiski með skipum er hins vegar alvanalegur hér á landi og á mikla framtíð fyrir sér með auknu framboði á flutningsmöguleikum. Enn eru að opnast mikil tækifæri á þessum sviðum. Ný tækni, ofurkæling, sem fyrirtækið Skaginn 3X hefur þróað með MATÍS og íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum, er að opna alveg nýjar leiðir sem auka innlenda verðmætasköpun og draga úr kolefnissporinu. Íslensk laxeldisfyrirtæki nýta m.a þessa tækni til þess að flytja út ferskan lax með skipum vestur um haf til Bandaríkjanna. Þannig  brjóta þau sér leið inn á nýjar markaðslendur og draga um leið úr kolefnissporinu sem fylgja óhjákvæmilega flutningum um langan veg.

Neytendurnir velja með buddunni

Með aukinni umhverfisvitund verður þetta æ mikilvægara; ekki bara fyrir umhverfið heldur líka viðskiptin. Í vaxandi mæli spyrja neytendur og kaupendur um umhverfisþátinn og eru tilbúnir að greiða hærra verð fyrir matvæli með grunnu kolefnisspori. Svo ótrúlega sem það kann að hljóma, þá er kolefnisspor íslensks lax úr sjókvíaeldi, sem fluttur er ofurkældur með skipi til Bandaríkjanna, jafnvel lægra en frá laxeldi í landeldi þar ytra, þar sem orkan kemur frá brennslu jarðefna.  Þannig getur umhverfisvæn íslensk framleiðsla orðið þýðingarmikið framlag okkar til loftlagsmála.

Laxfiskaeldi hér á landi,með aðgang að grænni raforku og jarðvarma jafnt í landeldi sem seiðaeldi og í köldum sjó til áframeldis, skilur eftir sig grunnt kolefnisspor í samanburði við marga aðra matvælaframleiðslu. Enn má þó gera betur og þarf að gera betur. Þar liggja mikil tækifæri fyrir Íslendinga.

Einar K. Guðfinnsson, starfar að fiskeldismálum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi