5. október 2021

Í upphafi skyldi endinn skoða

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eiga allt undir því að standast samkeppni á kröfuhörðum alþjóðlegum markaði. Því ber að skoða stöðu íslensku fyrirtækjanna á þeim vettvangi og spyrja; hver er hún? Svarið er; þau verða seint talin til risa á alþjóðlegan mælikvarða.

Málefni sjávarútvegs bar talsvert á góma í aðdraganda kosninga. Það er gömul saga og ný. Vissulega er nauðsynlegt að staða sjávarútvegs sé rædd á þeim vettvangi og eðlilega eru skoðanir skiptar, enda er sjávarútvegur ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs. En þá er brýnt að menn viti hvert þeir eru að stefna og hvaða markmiði þeir ætla að ná. Það þarf alltaf að hafa heildarmyndina í huga. Miðað við mikilvægi sjávarútvegs hér á landi, er annað óráð en að reka hann á eins hagkvæman hátt og kostur er, svo hann skili sem mestum þjóðhagslegum ábata.  

Af orðum sumra stjórnmálamanna mátti ráða að mörg sjávarútvegsfyrirtæki séu orðin allt of stór og það hamli samkeppni. Því beri að leggja á þau viðbótar álögur eða jafnvel að slíta í sundur virðiskeðjuna með því að setja allan fisk á markað. Allt í nafni aukinnar samkeppni. Þarna virðast menn gleyma þeirri staðreynd að íslensk fyrirtæki eru í alþjóðlegri samkeppni um að selja fisk, en ekki innlendri. Til að undirstrika þá staðreynd má benda á að um 98% af íslensku sjávarfangi eru seld á alþjóðlegum markaði. Þar er víglínan dregin. Staðreyndin er jafnframt sú að sjávarútvegsfyrirtæki eru að öllu leyti markaðsdrifin þar sem kröfur neytenda ráða ferðinni. Því skiptir órofin virðiskeðja sköpum, en hún nær allt frá skipulagi veiða til lokasölu. Það þarf að hafa yfirsýn yfir allt ferlið og þar má ekkert bresta ef hámarka á verðmætin. Virðiskeðjan tryggir líka nauðsynlegan sveigjanleika í síbreytilegu umhverfi, eins og sýndi sig vel í COVID-19 ástandinu. Það ætti því að gefa auga leið, að það er ekki samtímis hægt að hindra myndun arðs í greininni, eins og með því að rjúfa virðiskeðjuna, og hámarka þau verðmæti sem þjóðin fær af auðlindinni. Og þar með er ekki hægt að auka tekjur ríkissjóðs af sjávarútvegi, sem eru langt því frá að koma frá veiðigjaldinu einu saman.

Stór heima, en bara heima

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eiga allt undir því að standast samkeppni á kröfuhörðum alþjóðlegum markaði. Því ber að skoða stöðu íslensku fyrirtækjanna á þeim vettvangi og spyrja; hver er hún? Svarið er; þau verða seint talin til risa á alþjóðlegan mælikvarða. Til þess að líta á það nánar er ágætt að glugga í skýrslu frá Undercurrent News (UCN) sem tekur árlega saman tekjur 100 stærstu sjávarútvegsfyrirtækja heims. UCN tekur mið af tekjum fyrirtækja af fiskeldi, fiskveiðum, fiskvinnslu, viðskiptum með sjávarfang (inn- og/eða útflutning) og heildsölu eða dreifingu á sjávarafurðum. Samkvæmt nýjustu skýrslu UCN sem kom út í fyrra, og tekur mið af tekjum á árinu 2019, náðu tvö íslensk fyrirtæki inn á hann. Þau eru annars vegar Samherji, sem var í 38. sæti, og hins vegar sölufyrirtækið Iceland Seafood International, sem var í  67. sæti. Hér ber að taka með í reikninginn að stór hluti af starfsemi beggja fyrirtækja er á erlendri grundu. Þrátt fyrir að þessi tvö íslensku fyrirtæki séu stór í augum okkar Íslendinga, blikna þau í samanburði við stærstu sjávarútvegsfyrirtæki heims.

Stærsta sjávarútvegsfyrirtæki heims á árinu 2019 var Japanska fyrirtækið Maruha Nichiro Corporation. Árstekjur fyrirtækisins á árinu 2019 námu rúmum 917 milljörðum króna miðað við gengi Bandaríkjadals sama ár. Til þess að setja þessa stærð í samhengi, þá voru útflutningsverðmæti Íslendinga af sjávarafurðum og eldi á árinu 2019 um 285 milljarðar króna. Það þýðir að tekjur þessa eina japanska fyrirtækis voru rúmlega þrisvar sinnum hærri en samanlagðar útflutningstekjur allra sjávarútvegs og eldisfyrirtækja á Íslandi. Jafnframt má geta þess að ef öll íslensku fyrirtækin væru sameinuð í eitt fyrirtæki og útflutningsverðmæti þeirra endurspeglaði tekjur þess, þá myndi það einungis skila sér í 11. sæti á lista yfir 100 stærstu sjávarútvegsfyrirtæki heims.

Þessi 100 stærstu sjávarútvegsfyrirtæki heims eru í 27 löndum. Japönsk fyrirtæki eru fyrirferðamest á listanum, bæði hvað varðar fjölda og tekjur. Alls er 21 japanskt fyrirtæki á listanum og samanlagðar tekjur þeirra um þriðjungur af heildartekjum 100 stærstu fyrirtækjanna. Miðað við tekjur er Noregur í öðru sæti með hlutdeild upp á 12%, en samtals eru 9 norsk fyrirtæki á listanum. Eins og áður segir þá er Ísland með tvö fyrirtæki á listanum, en samanlagðar tekjur þeirra eru um 1,2% af heildartekjum þessara 100 stærstu fyrirtækja. Þetta má nánar sjá á myndinni hér að neðan.

Með hliðsjón af hinni raunverulegu samkeppni sem íslensku sjávarútvegsfyrirtækin standa í mætti ætla að almenn ánægja væri með þann árangur sem fyrirtækin hafa náð. Jafnframt mætti ætla að mönnum dytti síst í hug að umbylta fiskveiðistjórnunarkerfinu sem skilar þjóðinni meiri tekjum af sjávarauðlindinni en nokkurt annað kerfi. Það er kerfið sjálft sem hefur verið undirstaða þess að íslenskur sjávarútvegur hefur staðist samkeppni á sama tíma og opinberar álögur og önnur gjöld á hann heima fyrir eru umfram það sem samkeppnisfyrirtæki í öðrum löndum bera. Það væri gagnlegt fyrir umræðuna um samkeppni og samkeppnishæfni að oftar væri hugað að þessari heildarmynd. Það er líka óskandi að pólitískri óvissu verði létt af sjávarútvegi og umræða um hann verði málefnalegri. Það er allra hagur að vel gangi að selja íslenskar sjávarafurðir á hátt borgandi mörkuðum á erlendri grundu.