23. september 2021

Samfélagslegur styrkur sjávarútvegs

Grundvallarspurningunni er þó látið ósvarað, hvernig á að útfæra breytingar á kerfinu þannig að til bóta sé fyrir land og þjóð.

Af umræðum í aðdraganda kosninga gætu ókunnugir fengið það á tilfinninguna að svo mikið sé að í íslenskum sjávarútvegi að það verði að ráðast í róttækar breytingar. Kannski ekki einhverjar ákveðnar, en einhverjar. Grundvallarspurningunni er þó látið ósvarað, hvernig á að útfæra breytingar á kerfinu þannig að til bóta sé fyrir land og þjóð. Eitt er víst, alltaf má gera betur í sjávarútvegi á Íslandi, en það verður ekki gert með kollsteypu kerfisins, heldur þróun. Það er öruggt. En þrátt fyrir að einhverjir kunni að hafa það á tilfinningunni, að eitthvað sé í ólagi, þá er rétt að fara yfir nokkra mikilvæga þætti, sem eru í stakasta lagi.

Sjálfbærni
Íslenskur sjávarútvegur er sjálfbær og með aflamarkskerfinu hefur almennt tekist vel við endurreisn fiskistofna, frá því að þeir voru við það að hrynja og sumir hrundu. Fækkun báta, skipa og útgerða hefur gerst á forsendum markaðarins og er nú svo komið að ísenskur sjávarútvegur leggur hlutfallslega mest til þjóðarbúsins meðal allra fiskveiðiþjóða heims. Sjávarútvegur á Íslandi er ekki ríkisstyrktur, ólíkt því sem víða gerist. Sjávarútvegurinn var, er, og mun verða ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs. Hann mun raunar verða enn sterkari ef honum er leyft að þróast á eðlilegum forsendum.

Árangur í loftslagsmálum
Íslenskur sjávarútvegur hefur nú þegar náð markverðum árangri í loftslagsmálum. Á undanförnum árum hefur sjávarútvegur notað helmingi minna af olíu en hann gerði á tíunda áratug síðustu aldar. Í samanburði við olíunotkun greinarinnar á fyrsta áratug þessarar aldar, nemur samdrátturinn 40%. Vissulega er olíunotkun háð framleiðslu á hverjum tíma, en almennt stækkar kolefnisspor atvinnugreina með auknum umsvifum. Sjávarútvegi hefur á hinn bóginn tekist að draga úr olíunotkun og minnka kolefnisspor sitt án þess að það komi niður á framleiðslu og gott betur. Lykilþáttur í þessari þróun er afgerandi, en hann felst í fiskveiðistjórnunarkerfinu sem sjávarútvegurinn byggist á.

Virðisaukning hér á landi
Um 98% af íslensku sjávarfangi eru seld á kröfuhörðum alþjóðlegum markaði. Til þess að standast þá samkeppni þarf sífellt að fjárfesta í nýjustu tækni og búnaði. Hjá sumum öðrum þjóðum fer virðisaukning í sjávarfangi að langmestu leyti fram í láglaunalöndum, þangað sem aflinn er seldur óunninn til vinnslu og hann svo aftur fluttur á markað, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á umhverfið. Virðisaukning vegna vinnslu á fiski af Íslandsmiðum fer að langmestu leyti fram á Íslandi og svo mun verða meðan samkeppnisstaðan er tryggð. Hina miklu áherslu á fullvinnslu hér heima má glögglega sjá í mikilli fjárfestingu sjávarútvegsfyrirtækja í hátæknivinnslum víða um land. Þess þarf hins vegar að gæta að opinber gjöld úr hófi á heimavígstöðunum verði vinnslunni ekki fjötur um fót.

Fjárfestingar og margfeldisáhrif
Fjárfestingar eru forsenda framfara á öllum sviðum. Það á einnig við í sjávarútvegi. Fjölmörg íslensk tækni-, hugvits- og iðnfyrirtæki hafa átt í góðu samstarfi við íslenskan sjávarútveg, þar sem til hafa orðið lausnir sem nú eru fluttar út fyrir tugi milljarða á ári hverju. Forsvarsmenn þessara fyrirtækja segja að samvinna við sjávarútveginn hafi skipt sköpum við þróun og hönnun. Og sjávarútvegsfyrirtækin hafa verið viljug að fjárfesta. Með því að vinna sífellt að því að finna leiðir til þess að bæta gæði afurðanna og mæta þörfum markaða, hefur sjávarútvegur tryggt samkeppnihæfni atvinnugreinarinnar og stutt um leið við aukinn útflutning tengdra fyrirtækja.

Nýsköpun
Undanfarin tíu ár hafa Nýsköpunarverðlaun Íslands fallið sex sinnum í hlut fyrirtækja sem tengjast með einhverjum hætti sjávarútvegi. Það er ekki tilviljun því sjávarútvegsfyrirtæki reyna hvað þau geta til þess að styðja við nýsköpun sem kemur öllum til góða. Þar undir búa ekki síst væntingar um að gera megi verðmæti úr öllum fiskinum, en ekki bara flakinu einu saman.

Þarf að stefna áframhaldandi árangri í tvísýnu?
Það sem hér hefur verið upp talið byggist á því, að sjávarútvegsfyrirtæki hafa haft fyrirsjáanleika og trygga úthlutun aflaheimilda. Væri ekki svo, myndu fyrirtækin ekki fjárfesta til langframa, enda væri með því mjög óvarlega farið. Fyrirtæki fjárfesta ekki þegar sú hætta vofir yfir að stórfelldar breytingar verði gerðar á rekstrarumhverfinu. Það segir sig sjálft. Ef sjávarútvegur hættir að fjárfesta mun ekki aðeins draga úr samkeppnishæfni, heldur munu mörg önnur fyrirtæki, starfsmenn þeirra og landshlutar, ekki fara varhluta af því.

Fólk getur haft hvert sína skoðun á sjávarútvegi, en fæstir leggja sig þó eftir því að horfa á heildarmyndina. Sé það gert kemur í ljós að sjávarútvegur á Íslandi er miklu meira en það að sækja sjóinn, flaka og frysta. Íslenskur sjávarútvegur er einn sá fremsti í heimi og fjöldamörg önnur íslensk fyrirtæki reiða sig á styrkleika hans. Til að svo megi áfram verða, þurfa þau sem hyggjast umbylta íslenska kerfinu að svara þeirri spurningu; af hverju að fórna þessari stöðu og fyrir hvað er verið að fórna henni? Það veltur mikið á íslenskum sjávarútvegi, oftast miklu meira en auganu mætir við fyrstu sýn.

Ólafur Marteinsson, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.