4. mars 2022

Skyggni lítið

Óvissa er um áhrif stríðs í Úkraínu á sölu sjávarafurða, bæði til skemmri og lengri tíma. Þetta á reyndar ekki bara við um viðskipti með sjávarafurðir, alþjóðaviðskipti eru í uppnámi. Hræðileg áhrif á líf fólks á þeim svæðum sem í hlut eiga, eru hins vegar engum vafa undirorpin – þau eru sláandi og áþreifanleg. Frelsi til viðskipta á allt undir því að friður ríki í heiminum og að alþjóðalög og mannréttindi séu virt. Viðskiptalegir hagsmunir verða hjóm eitt þegar stríð geisar. Þar liggur afstaða íslensks sjávarútvegs. Íslenskur sjávarútvegur og einstök fyrirtæki innan hans munu fást við þær áskoranir sem þessar aðstæður leiða af sér af festu og ábyrgð. Fyrirtækin munu nú, sem fyrr, stíga ölduna og kappkosta við að tryggja áfram verðmæti og störf.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eiga verulegra hagsmuna að gæta í Úkraínu og löndunum í kring, líkt og rakið er í grein á Radarnum. Stærsti hluti útflutningstekna Íslendinga af viðskiptum við Úkraínu, Litáen, Hvíta Rússland og Rússland er vegna sjávarafurða, líkt og sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Þar að auki hafa viðskipti íslenskra tæknifyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti aukist umtalsvert á undanförnum árum í Rússlandi, sem er ein stærsta fiskveiðiþjóð heims. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem og önnur fyrirtæki standa því frammi fyrir verulegum áskorunum.