Markaðsmál

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi standa á bak við markaðsverkefni sem hefur þann tilgang að auka sýnileika og efla ímynd íslensks sjávarútvegs bæði á innlendri og erlendri grundu. Samtökin leggja áherslu á markaðsgreiningar til að fylgjast með þróun á markaðsaðstæðum og er það grundvöllur fyrir vel heppnaða markaðssókn. Að neðan er gerð betri grein fyrir helstu markaðsverkefnum sem samtökin standa að.  

Fisk í matinn

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi létu gera könnun haustið 2019 þar sem spurst var fyrir um fiskneyslu. Helstu niðurstöður voru þær að Íslendingar vilja borða meira af fiski, en svo virðist sem fólki detti hreinlega ekki í hug að kaupa fisk. Sérstaklega á þetta við um yngri neytendur. Í framhaldinu var ákveðið að hrinda af stað verkefni þar sem landsmenn væru hvattir til að auka neyslu á fiski, einkum ungt fólk. Auglýsingastofan Brandenburg var fengin til samstarfs og þaðan kom hugmyndin að því að kalla átakið einfaldlega: Fisk í matinn. Því þegar spurt er, hvað eigum við að hafa í matinn, þá blasir svarið við!

Herferðinn byggist á orðaleik sem á að koma þeim skilaboðum á framfæri að hægt sé að breyta nánast hvaða uppskrift sem er í fiskrétt. Orðaleikurinn felst í því að setja bókstafinn „F“ fyrir framan heiti á ýmsum þekktum réttum. Til dæmis að hafa fisk á pítsu og þá er komin fizza, það sama á við um lasanja, sem verður þá fasagna og fiskur í tacos verður facos, svo ekki sé minnst á hið margrómaða fnitzel!

Nánar um verkefnið.

Seafood from Iceland

Seafood from Iceland er upprunamerki og vettvangur fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki til að vinna saman að markaðssetningu á íslenskum sjávarafurðum á erlendum markaði. Helsta markmiðið er að auka virði og útflutningsverðmæti, með því að auka vitund og bæta viðhorf ákveðins markhóps gagnvart Íslenskum sjávarafurðum. Verkefnið er unnið í samstarfi við Íslandsstofu sem sér um framkvæmd þess. Þátttaka í því er valfrjáls fyrir fyrirtæki en rúmlega 30 fyrirtæki standa að  baki verkefninu á fyrsta starfsári þess.

Helsti ávinningur fyrir fyrirtæki með þátttöku í Seafood from Iceland er:

  • Réttur fyrirtækis og viðskiptavina til þess að nota upprunamerkið Seafood from Iceland á umbúðir samkvæmt notkunarreglum
  • Þátttaka í marksstarfi Seafood from Iceland
  • Slagkraftur sem ekki næst með öðru móti og er ætlað að skilar sér í auknum áhuga á íslenskum sjávarafurðum til lengri tíma
  • Aðgangur að markaðsrannsóknum og greiningum fyrir valinn markaðssvæði
  • Aðgangur að markaðsefni sem framleitt er fyrir verkefnið
  • Aðgangur að birtingarplönum verkefnisins
  • Fjölmiðlapakkar sem dreift er til erlendra blaðamanna og áhrifavalda sem koma til landsins
  • Boð á viðburði á vegum Seafood from Iceland

Tvær markaðsherferðir eru í gangi undir hatti Seafood from Iceland; Fishmas og Bacalao de Islandia.

Fishmas

Fishmas er fyrsta markaðsherferðin sem gerð var fyrir Seafood from Iceland og var ýtt úr vör haustið 2020. Í fyrstu atrennu var herferðinni eingöngu beint að Bretlandi en gert er ráð fyrir að bæta Frakklandi við fyrir haustið 2021. Hugmyndin með Fishmas er að skapa sögusvið í ævintýraljóma þar sem fiskurinn er í aðalhlutverki. Húmorinn er ekki langt undan og Egill Ólafsson leikur Father Fishmas, en hann gætir þess að allir þættir virðiskeðjunnar séu í fullkomnu lagi. Helstu áhersluatriði í fyrstu skrefum herferðarinnar miðast að því að fanga athygli neytenda í skilgreindum markhópi og beina að hópnum skilaboðum um gæði íslenska fisksins.

Sjón er sögu ríkari: 

Sjá nánar um verkefnið á Fishmas.com  

Bacalao de Islandia

Íslenskur saltfiskur hefur lengi notið vinsælda í Suður-Evrópu og Bacalao de Islandia er markaðsverkefni sem hefur fest sig þar í sessi. Íslandsstofa og Íslenskir saltfiskframleiðendur (ÍSF) hrintu verkefninu úr vör árið 2013, en tilgangurinn er að kynna saltaðar þorskafurðir á Spáni, Ítalíu og í Portúgal. Vel hefur gengið og frá og með árinu 2019 hefur verkefnið verið hluti af Seafood from Iceland.

Ávinningur af þessu markaðssamstarfi felst einkum í meiri slagkrafti í kynningu og samhæfingu aðila á kröfuhörðum alþjóðlegum markaði.