Hreinleiki lands og sjávar skiptir höfuðmáli við nýtingu verðmæta sem hafið hefur að geyma. Góð umgengni um hafið og fiskveiðar í sátt og samlyndi við náttúruna eru forsenda þess að fiskistofnar við Ísland verði nýttir um alla framtíð. Losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi hefur minnkað um nær helming frá árinu 1990. Hér verður þó ekki látið staðar numið. Við ætlum að gera enn betur!

Samfélagsstefna sjávarútvegs

Íslenskur sjávarútvegur tekur hlutverk sitt alvarlega sem framleiðandi matvæla og ein af burðarstoðum efnahagslegrar hagsældar þjóðarinnar. Fyrirtæki innan vébanda Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafa markað sér stefnu í samfélagsábyrgð sem grundvallast á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Nánari upplýsingar um samfélagsstefnuna og gagnsæi í ófjárhagslegum upplýsingum sjávarútvegs og þau sjávarútvegsfyrirtæki sem hafa undirritað stefnuna má finna hér.

Grunngildin í samfélagsstefnu sjávarútvegs eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 14 (Líf í hafi) og 9 (Nýsköpun og uppbygging). Í stefnunni er einnig fjallað um önnur undirmarkmið sem eru ekki síður mikilvæg.

Samstarf SFS og stjórnvalda í loftslagsmálum

Stefnt er að því að draga úr losun frá sjávarútvegi og auka eftirspurn eftir heilnæmum íslenskum fiski með samstarfi stjórnvalda og atvinnugreinarinnar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu um hvata til að draga úr kolefnisspori íslensks sjávarútvegs sem undirrituð var við ráðherrabústaðinn 3. júlí 2020. Með yfirlýsingunni er lagður grundvöllur að formlegu samstarfi stjórnvalda og sjávarútvegsins til að tryggja að markmiðum Íslands í loftslagsmálum verði náð.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra skrifuðu fyrir hönd stjórnvalda undir samstarfsyfirlýsingu. Fyrir hönd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi skrifuðu undir Ólafur Marteinsson, formaður SFS og Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri samtakanna.

Samstarfsyfirlýsingu má finna hér.

Enduvinnsla veiðarfæra

SFS og veiðarfæragerðir hafa tekið á sig framleiðendaábyrgð vegna veiðarfæra og sinna móttöku á veiðarfæraúrgangi á íslandi. Upplýsingar um endurvinnslukerfi fyrir veiðarfæraúrgang má finna hér.

Samtal í sjávarútvegi

Til þess að grafast fyrir um hvað má gera betur í sjávarútvegi og auka skilning og traust héldu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fjóra fundi um málefni sjávarútvegs síðari hluta vetrar. Efni fundanna var: gagnsæi, umhverfismál, samfélagslegur ábati og nýsköpun. Sjá nánar um fundina hér.