Umgengni um auðlindina

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Félag skipstjórnarmanna, Sjómannasamband Íslands og Félag vélstjóra og málmtæknimanna hafa sameinast um gerð fræðsluefnis um brottkast. Fræðsluefnið er á veggspjaldi og í smáforriti fyrir síma. Þar er farið í nokkrum orðum um brottkast, reglur, undanþágur og úrræði.

BROTTKAST

Á undanförnum árum hafa sjónir manna í auknum mæli beinst að umgengni við hafið og hvernig auðlindir þess eru nýttar. Eitt af því sem þar kemur til skoðunar er brottkast á fiski, en meginreglan samkvæmt íslenskum lögum er sú að það er óheimilt. 

Ætíð ber að stuðla að því að fiskistofnar séu nýttir með sjálfbærum hætti til að tryggja þjóðinni hámarksafrakstur til lengri tíma. Ýmsar leiðir eru útfærðar í lögum til þess að koma í veg fyrir brottkast og tryggja rétta skráningu og vigtun á sjávarafla.

Í þeirri viðleitni gegna sjómenn, starfsfólk og stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja lykilhlutverki.

HVAÐA AFLA SKAL KOMA MEÐ AÐ LANDI?

Meginreglan er sú að skylt er að hirða og koma með að landi allan afla sem kemur í veiðarfæri. 

Sjá 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

UNDANTEKNINGAR

Þrátt fyrir meginregluna um allan afla að landi gilda fáeinar undantekningar

Fyrsta undantekning: Heimilt er að sleppa ákveðnum tegundum sem eru lífvænlegar.

Lúða: Sleppa skal lífvænlegri lúðu.

Sjá nánar reglugerð um veiðar á lúðu.

Hlýri: Heimilt er að sleppa lífvænlegum hlýra.

Sjá nánar reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða. 

Tindaskata: Heimilt er að sleppa lífvænlegri tindaskötu.

Grásleppa: Á skipum sem stunda netaveiðar, aðrar en grásleppuveiðar, er skylt að sleppa grásleppu sem er lifandi í netum.

Sjá nánar reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða.

Háfur, hámeri og beinhákarl: Umsvifalaust skal sleppa lífvænlegum háfi, hámeri og beinhákarli.

Sjá nánar reglugerð um bann við veiðum á háfi, hámeri og beinhákarli.

Önnur undantekning: Heimilt er að varpa fyrir borð þeim fisktegundum sem ekki eru háðar takmörkun á leyfilegum heildarafla, enda verði þær ekki taldar hafa verðgildi.

Ef markaður er fyrir fisktegund til manneldis, er litið svo á að hún hafi verðgildi að mati Fiskistofu og því skal koma með hana að landi. Einnig telur Fiskistofa tegund hafa verðgildi ef tíma- eða svæðisbundinn markaður er fyrir hana.

SKEMMDUR, SÝKTUR EÐA SELBITINN AFLI

Komi afli í veiðarfæri sem er sýktur, selbitinn eða skemmdur á annan hátt er ráðherra heimilt að ákveða að hann reiknist ekki til aflamarks skips.

Skylt er að koma með slíkan fisk í land og hann reiknast ekki til aflamarks fiskiskips, enda verði hann einungis nýttur til bræðslu.

Selbitinn og/eða skemmdan afla skal koma með að landi.

Sjá 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og

reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða.

INNYFLI, HAUSAR OG FLEIRA

Fyrir öll skip, ísfisktogara, línuskip og frystitogara gildir:

  • Skylt er að hirða og koma með að landi öll þorsk- og ufsahrogn.

Fyrir önnur skip en þau sem vinna afla um borð, til dæmis ísfisktogara og línuskip, sem ekki frysta um borð, gildir:

  • Skylt er að koma með að landi alla þorsk-, ufsa-, löngu-, keilu- og skötuselslifur.

Fyrir skip sem vinna afla um borð gilda ákveðin skilyrði, til dæmis frystitogara:

  • Grálúðuhausar: Skylt er að hirða og koma með að landi alla grálúðuhausa.
  • Þorskhausar: Skipum sem vinna afla um borð og eru með nýtanlegt lestarrúmmál (effective space) 600-800 m³ er skylt að hirða og koma með að landi að lágmarki 30% af þorskhausum sem til falla við veiðar á hverju fiskveiðiári. Skipum sem eru með meira en 800 m³ nýtanlegt lestarrúmmál er skylt að hirða og koma með að landi að lágmarki 40% af þorskhausum sem til falla við veiðar á hverju fiskveiðiári. Í stað hausa er þessum skipum heimilt að koma með að landi samsvarandi magn af gellum, kinnum og/eða fésum, einnig af öðrum afurðum sem unnar eru úr hausum um borð.
  • Afskurður: Skylt er að hirða og koma með að landi allan afskurð sem til fellur við snyrtingu á þorsk-, ýsu-, karfa- og ufsaflökum um borð í skipum sem vinna afla um borð. Lestarrúmmál skipa samkvæmt þessum lið skal staðfest af Siglingastofnun Íslands.

Sjá nánar reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða.

ÚRRÆÐI TIL AÐ DRAGA ÚR BROTTKASTI

Í fiskveiðistjórnunarkerfinu er að finna ákveðin úrræði sem ætlað er að draga úr hvata til brottkasts. Meginúrræðið er þó að tryggja að alltaf sé skráð aflamark á skip fyrir þeim afla sem ætla má að veiðist hverju sinni.

VS-afli: Heimilt er að landa lágu hlutfalli af afla án þess að hann dragist frá aflamarki skips. Þessi heimild skiptist í fjögur þriggja mánaða tímabil á fiskveiðiárinu og ekki má flytja ónýttar heimildir milli tímabila. Heimildin takmarkast við 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla sem skip veiðir á hverju tímabili. VS-afla skal halda aðskildum frá öðrum afla og hann veginn sérstaklega. VS-afli er boðinn upp á markaði og rennur stærsti hluti af andvirðinu í Verkefnasjóð sjávarútvegsins (VS).

Sjá nánar 11. gr. laga um stjórn fiskveiða og reglugerð um veiðar í atvinnuskyni.

Undirmálsafli: Undirmálsfiskur, það er fiskur sem er landað og er undir tiltekinni stærð, reiknast einungis að hálfu til aflamarks skips. Heimildin gildir aðeins um þorsk, ýsu, ufsa og gull- og djúpkarfa. Magn undirmálsafla má ekki fara yfir 10% af viðkomandi tegund í veiðiferð. Undirmálsafla skal haldið aðskildum frá öðrum afla og hann veginn sérstaklega.

Til undirmálsfisks telst:

  • þorskur < 50 cm (27 cm hausaður),
  • ýsa < 45 cm (26,5 cm hausuð),
  • ufsi < 50 cm (31 cm hausaður)
  • gull- og djúpkarfi < 33 cm.

Sjá nánar 11. gr. laga um stjórn fiskveiða og reglugerð um veiðar í atvinnuskyni.

Tegundatilfærsla: Felur í sér heimild til að nota aflamark í einni botnfisktegund vegna umframveiða á annarri botnfisktegund og skerðist þá aflamarkið hlutfallslega. Ekki er leyfilegt að nýta þessa heimild við þorskveiðar.

Heimild þessi takmarkast við 5% af heildarverðmæti botnfisksaflamarks en umframafli í hverri botnfisktegund má ekki vera meiri en sem nemur 1,5% af heildarverðmæti botnfisksaflamarks. Tilfærsla úr einstakri botnfisktegund má ekki fara yfir 30% af aflamarki skips í viðkomandi tegund.

Sjá nánar 11. gr. laga um stjórn fiskveiða.

Aflamarksframsal: Ef veiði skips fer umfram aflamark í einhverri tegund getur útgerð nýtt framsalsheimild til að auka við aflamark skipsins í viðkomandi tegund. Slíkt þarf að gerast innan þriggja daga frá því að veiðiferð lýkur.

Sjá nánar 14. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar og í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni.

Umframafli: Heimilt er að veiða takmarkað magn umfram aflamark í botnfisktegundum, síld, skel og rækju og er umframaflinn dreginn af aflamarki ársins á eftir.

Sjá nánar 11. gr. laga um stjórn fiskveiða og í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni.

EFTIRLIT

Fiskistofa hefur eftirlit með veiðum og vinnslu á sjávarafla á Íslandi. Þannig hefur stofnunin eftirlit með öllum skipum sem veiða í íslenskri lögsögu ásamt veiðum íslenskra skipa sem veiða utan lögsögu.

Eftirlit Fiskistofu með veiðum er þríþætt:

  • Eftirlitsmaður um borð.
  • Eftirlit með drónum á öllum miðum.
  • Eftirlit sem byggist á áhættumati ýmissa gagna sem stofnunin safnar.