Skýrsla Ríkisendurskoðanda um sjókvíaeldi

Skýrsla Ríkisendurskoðand...

Í febrúar 2022 óskaði matvælaráðuneytið eftir að ríkisendurskoðandi gerði úttekt á stjórnsýslu fiskeldis. Ríkisendurskoðun ákvað að afmarka úttekt sína fyrst og fremst við framkvæmd laga nr. 71/2008 um fiskeldi hvað snéri að stjórnsýslu, eftirliti og annarri framkvæmd varðandi sjókvíaeldi á tímabilinu 2014-2021. Skýrslan var birt 6. febrúar 2023. Hér má kynna sér efni skýrslunnar.

Úttektin leiddi í ljós að „stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi hafi reynst veikburða og brotakennd og vart í stakk búin til að takast á við aukin umsvif í greininni á undanförnum árum. Breytingum á lögum um fiskeldi sem var ætlað að stuðla að vexti og viðgangi greinarinnar var ekki fylgt eftir með því að styrkja stjórnsýslu og eftirlit þeirra stofnana sem mest hefur mætt á.“ (Skýrsla Ríkisendurskoðanda, bls. 11)

Gerðar eru 23 ábendingar um ýmsar úrbætur til ráðuneyta og stofnana. Ábendingarnar eru margþátta og lúta m.a. að leyfisveitingum og umhverfismati, lagaramma í kringum eldissvæði, reglum um burðarþolsmat, áhættumat erfðablöndunar og endurskoðun þess, fyrirkomulag endurskoðunar og uppfærslu leyfa ásamt eftirliti og beitingu þvingunarúrræða.

Matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, boðaði viðbrögð við ábendingum ríkisendurskoðanda. (Frétt RÚV 06.02.23)