24. ágúst 2021

Að ganga í takt

Oft má túlka umræðu í tengslum við kjaraviðræður á íslenskum vinnumarkaði sem svo að hagsmunir fyrirtækja og launafólks fari ekki saman.

Oft má túlka umræðu í tengslum við kjaraviðræður á íslenskum vinnumarkaði sem svo að hagsmunir fyrirtækja og launafólks fari ekki saman. Eðlilega er það meðal annars markmið fyrirtækja að auka hagnað og virði þeirra. Á sama hátt berst launafólk fyrir bættum kjörum; hækkun launa, styttri vinnutíma og betri aðbúnaði, svo fátt eitt sé nefnt. En geta hagsmunir fyrirtækja og launafólks með einhverjum hætti farið saman? Því má blessunarlega svara játandi.

Með samkeppnishæfni að leiðarljósi
Sjálfbærar launahækkanir sem draga ekki úr samkeppnishæfni fyrirtækja eru lykillinn að bættum hag, bæði launafólks og fyrirtækja. Ósjálfbærar launahækkanir munu, til lengri tíma, bæði koma niður á fyrirtæki og launafólki. Útflutningsgreinum sem starfa á alþjóðlegum markaði er þrengri stakkur sniðinn þegar launahækkanir eru úr hófi fram heima fyrir og umfram það sem samræmist framleiðni þeirra, enda geta þær ekki velt þeim hækkunum út í verð afurða sinna og þjónustu. Sjávarútvegur er útflutningsgrein, en um 98% af íslensku sjávarfangi eru flutt úr landi og seld á kröfuhörðum mörkuðum erlendis. Þar eru íslensku sjávarútvegsfyrirtækin peð á hinu stóra taflborði og etja kappi við fyrirtæki sem mörg hver njóta ríkisstyrkja eða niðurgreiðslna í heimalandi sínu. Þegar markmiðið er að bæta kjör þeirra sem starfa í sjávarútvegi, er því lykilatriði að hafa samkeppnishæfni greinarinnar að leiðarljósi. Það er allra hagur.

Hálaunalandið Ísland
Ísland er hálaunaland í alþjóðlegum samanburði. Það þýðir að launakostnaður fyrirtækja sem hér starfa er almennt hærri en í flestum öðrum ríkjum. Þetta má sjá í gögnum frá Hagstofu Evrópusambandsins um launakostnað fyrirtækja á hverja klukkustund, sem samanstendur af launum og tengdum gjöldum. Þar skipar Ísland fjórða sætið af þeim 30 löndum sem eru hér til samanburðar. Útflutningsgreinar eiga vissulega á brattann að sækja í löndum þar sem launakostnaður er hár og launahækkanir jafnvel umfram það sem tíðkast annars staðar, ár eftir ár. Þetta er, og hefur verið, hinn íslenski veruleiki. Vitaskuld er launakostnaður mishár eftir atvinnugreinum innanlands, en hátt almennt launastig í landinu smitar út frá sér. Fyrirtæki verða að geta boðið samkeppnishæf laun innanlands til þess að fá fólk til starfa. Verðlag í landinu fer einnig eftir því. Fyrirtækin þurfa því oft og tíðum að grípa til hagræðingaraðgerða til þess að draga úr kostnaði. Annað hvort með því að fækka fólki með aukinni tæknivæðingu eða flytja störf, sem ekki eru staðbundin, úr landi.

Samþætting veiða og vinnslu er atvinnuskapandi
Launakostnaður er hæstur í Noregi, sem er ein okkar helsta samkeppnisþjóð í sölu á fiskafurðum. Það ætti því ekki að koma á óvart hversu mikið Norðmenn flytja út af óunnum fiski til vinnslu í öðru landi. Með þessu móti flytja Norðmenn stóran hluta af verðmætasköpuninni og þar með störf úr landi. Í Noregi er grundvallarreglan sú að veiðar og vinnsla verða að vera aðskilin, ólíkt því sem tíðkast hér.

Til þess að tryggja samkeppnishæfni hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ráðist í verulegar og jafnframt nauðsynlegar fjárfestingar í hátæknibúnaði í fiskvinnslu. Í raun hefur slík fjárfesting aldrei verið meiri í íslenskum sjávarútvegi en á undanförnum árum. Þannig helst stærstur hluti framleiðslunnar og verðmætasköpunar innanlands. Afleiðingin er vissulega sú að ákveðnum störfum í vinnslu fækkar, en þau haldast þó áfram hér á landi. Þetta eru þó ekki einu áhrifin af auknum fjárfestingum, því sá búnaður sem fyrirtækin kaupa er að langmestu leyti íslenskur. Því eru afleidd áhrif þessara fjárfestinga afar jákvæð fyrir íslenskt efnahagslíf, þar sem aragrúi af nýjum störfum verða til í þjónustu og þekkingariðnaði í tengslum við sjávarútveg, með tilheyrandi verðmætasköpun. Þarna stöndum við Norðmönnum langtum framar.

Margir þættir hafa áhrif á laun
Opinber gögn um laun í sjávarútvegi, í samanburði við aðrar atvinnugreinar, hafa ekki verið auðfengin í gegnum tíðina, enda eru launin á margan hátt flóknari vegna hlutaskiptakerfis sjómanna. Þó er hægt að sjá hvernig staðgreiðsluskyldar launagreiðslur eru í sjávarútvegi miðað við aðrar greinar. Þau gögn hafa þó ýmsa vankanta, sem ber að hafa í huga við samanburð. Þau taka til að mynda ekki tillit til vinnustunda eða hefðbundinna launatengdra gjalda. Það er þó vitaskuld fleira sem hefur áhrif á launagreiðslur á milli atvinnugreina, eins og menntun og hlutdeild faglærðra eða sérhæfðra starfa innan greinanna.

Fjárfesting hefur fjölgað sérhæfðum störfum í vinnslu
Af þessum gögnum Hagstofunnar má ráða að sjávarútvegur er síst eftirbátur annarra atvinnugreina hér á landi þegar kemur að staðgreiðsluskyldum launum. Vissulega ber talsvert á milli greinanna tveggja innan sjávarútvegs, þar sem launagreiðslur í fiskveiðum tróna á toppnum en í fiskvinnslu eru þær rétt undir meðaltali í hagkerfinu. Munurinn á milli launagreiðslna í fiskvinnslu og meðaltalsins hefur þó minnkað verulega á undanförnum árum. Margir þættir koma hér við sögu. Ber fyrst að nefna mikla fjárfestingu fyrirtækja í tæknibúnaði í vinnslu, sem hefur leitt til þess að sérhæfðum og betur borgandi störfum innan fiskvinnslunnar hefur fjölgað. Vissulega gætir þó áhrifa aukinna umsvifa ferðaþjónustunnar í hagkerfinu á tímabilinu á meðaltal þessara launagreiðslna. Ósérhæfðum störfum þar hefur fjölgað og launin oft undir meðaltali. Engu að síður voru staðgreiðsluskyldar launagreiðslur á mann í fiskvinnslu um 127% hærri að jafnaði á fyrstu 4 mánuðum þessa árs en þær voru á árinu 2008. Það er þriðja mesta hækkun á launagreiðslum á tímabilinu af öllum atvinnugreinum hér á landi.

Eflaust sjaldséð, en afar ánægjulegt
Laun sjómanna eru frábrugðin launum hins hefðbundna launamanns. Laun þeirra ákvarðast í svokölluðu hlutaskiptakerfi, þar sem áhöfn skips skiptir með sér tilteknu hlutfalli af verðmæti þess afla sem skipið veiðir. Laun sjómanna eru því beintengd því verði sem fyrirtæki fá fyrir fiskafurðir erlendis og gengi íslensku krónunnar. Að þessu sögðu ætti að vera nokkuð ljóst að sjómenn eiga mikið undir samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs, þar sem fjárfesting sjávarútvegsfyrirtækja í tækni og nýsköpun skiptir sköpum. Verðmætin verða ekki til af sjálfu sér við það eitt að draga fisk úr sjó, það þarf að gera úr honum verðmæti og selja á mörkuðum erlendis, þar sem hörð samkeppni ríkir og kröfurnar eru stöðugt að aukast. Það er því öll virðiskeðjan, allt frá því að fiskur er veiddur þar til að hann kemur á disk neytenda, sem skiptir máli og þar þurfa allir hlekkir keðjunnar að halda.

Veruleg endurnýjun hefur verið á íslenska skipaflotanum undanfarin ár og hefur fjárfesting þar ekki verið meiri í fleiri áratugi. Það ætti, að öðru óbreyttu, að skila sér í hærra afurðaverði og bættri nýtingu. Að sama skapi hefur aðstaða áhafna orðið betri um borð. Sjómennskan er þó enn erfiðisvinna, vinnutíminn er almennt langur og fjarvist frá fjölskyldu meiri en tíðkast á meðal annarra starfsgreina. Það er því ánægjulegt að sjá að fiskveiðar tróna á toppnum í samanburði á staðgreiðsluskyldum launagreiðslum hér á landi. Sú staða er eflaust sjaldséð í öðrum löndum.

Sameiginlegir hagsmunir liggja í fjárfestingu
Það er ekkert launungarmál að rekstur sjávarútvegsfyrirtækja hefur heilt yfir gengið með ágætum á undanförnum árum. Þó er staðan misgóð frá einu fyrirtæki til annars, enda eru þau mörg og ólík. Árangur greinarinnar er þó ekki sjálfgefinn, hann er afrakstur þrotlausrar vinnu þar sem lítið má út af bregða. Í því samhengi verður ekki framhjá því horft, að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja á undanförnum árum hefur verið notaður til fjárfestinga. Fjárfesting hefur ekki verið meiri en á undanförnum árum ef skoðað er ríflega 30 ára tímabil, eða allt frá því að upphafleg lög um stjórn fiskveiða tóku gildi. Það eru þessar fjárfestingar sem hafa verið ráðandi þáttur í því að tryggja samkeppnishæfni greinarinnar og treysta áframhaldandi atvinnu. Þarna liggja sameiginlegir hagsmunir fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra og þessum lykilþætti má ekki gleyma þegar rætt er um kjör í sjávarútvegi.