19. mars 2023
Að standa sig í samkeppni
Stundum er látið eins og það sé ekkert sérlega flókið að reka sjávarútveg á Íslandi – að það sé nærri gefið að sjávarútvegur nái að standa undir sér og skili raunverulegum tekjum til samfélagsins.
Fyrir upptöku aflamarkskerfisins var sjávarútvegur rekinn með miklu tapi, þrátt fyrir mun meiri afla. Offjárfesting var að sliga greinina og skipulag veiða gerði það að verkum að mikil verðmæti töpuðust. Það er vissulega mikil fjárfesting í sjávarútvegi í dag en hún er mun skynsamlegri og til þess fallin að auka verðmæti. Með betra skipulagi hefur verið hægt að tryggja nægt framboð af íslenskum fiski allt árið og ekki síður, halda uppi atvinnu allan ársins hring allt í kringum landið.
Það er gott að skoða hvernig aðrar þjóðir gera þetta. Fiskvinnsla í Noregi er ekki heilsársstarf, þrátt fyrir að Norðmenn veiði mun meira af þorski en við. Að hluta til er það vegna þess að rúmlega 60% þorskafla þeirra kemur á land á þriggja mánaða tímabili í upphafi árs. Mest af þeirra þorski er síðan fluttur til Póllands og Kína til vinnslu áður en hann er fluttur á markaði.
Laun í fiskvinnslu í Póllandi eru um það bil fimmfalt lægri en laun fiskvinnslufólks á Íslandi og margfalt lægri en það í Kína. Eigi að síður hefur íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum vel tekist að halda sínu á erlendum mörkuðum.
Samkeppni er góð. Hún heldur okkur á tánum og ýtir okkur lengra á þeirri leið að gera góða vöru enn betri. En það er ekki sjálfsagt að ná þessum árangri. Að baki liggur mikil vinna, fjármagn, hugkvæmni, þróun og endalaus leit að betri hugmyndum og lausnum. Aldrei má kvika frá því markmiði að halda íslenska þorsknum sem besta þorski í heimi.
Birtist í Viðskiptablaðinu 16. mars 2023