23. ágúst 2023

Að líta sér nær

Samband manns og náttúru getur verið flókið. Þegar nýta á gæði náttúrunnar þarf líka að huga að því að halda jafnvægi. Ef gengið er of langt hefur það afleiðingar í för með sér sem munu, fyrr eða síðar, gera það að verkum að náttúran nær ekki að fylgja eftir. Þegar kemur að fiskveiðum höfum við mörg dæmi í sögunni um ofveiði og rányrkju sem hefur eytt heilu stofnunum. Þess vegna höfum við Íslendingar lagt mikla áherslu á að treysta vísindum og ganga ekki of nærri stofnum okkar, svo næstu kynslóðir fái þeirra notið.

Okkur hefur fundist áhugavert að fylgjast með umræðu meðal veiðiréttarhafa í íslenskum laxveiðiám og svokölluðum dýraverndarsamtökum sem tala máli þeirra. Þar hefur ítrekað verið rætt um hnignun villta íslenska laxins. Það sem kemur á óvart þar er að sökudólgurinn virðist alltaf vera sá sami – sjókvíaeldi. Lausn þeirra er hreinlega að banna eldi í sjó.

Sjókvíaeldi er aðeins stundað á tveimur svæðum við Ísland, Vestfjörðum og Austfjörðum. Að öðru leyti er stór hluti strandlengju og fjarða Íslands friðaður fyrir eldi í sjókvíum. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að alinn lax blandist saman við þann villta og valdi versnandi hæfni stofngerðar þess villta í stærstu laxveiðiám landsins. Síðustu niðurstöður segja okkur að þetta verkefni hafi tekist nokkuð vel. Alinn fiskur, sem örugglega má rekja til íslensks eldis, hefur helst fundist í ám sem hafa aldrei verið skilgreindar sem laxveiðiár og fóstra ekki sjálfbæra laxastofna. Þess utan er alinn lax talinn minna hæfur en sá villti til að lifa af í náttúrunni.

En getur verið að vandamál villta íslenska laxastofnsins sé af öðrum toga? Í allri þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um stofninn, og hnignun hans, hefur sjaldan verið tæpt á því sem er oftsinnis ástæðan þegar kemur að fiskistofnum í vanda: Ofveiði.

Talsmenn verndarsamtaka hafa sagt að villti íslenski stofninn sé um 50 þúsund laxar og fari minnkandi. Í því samhengi er áhugavert að líta á tölur sem koma fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um lax- og silungsveiði síðasta sumars. Þar segir að 46 þúsund laxar hafi komið á land í fyrra. Sem myndi almennt þýða að 92% laxa í íslenska stofninum hefðu verið veidd síðasta sumar.

Einhver gæti sagt að þetta háa hlutfall veiða skipti ekki miklu máli í ljósi þess að reglan sé að sleppa löxum. En það er greinilega fjarri því að vera reglan. Samkvæmt niðurstöðu Hafrannsóknastofnunar á það aðeins við um rúmlega helming þeirra laxa sem koma á land. Með öðrum orðum: Af laxastofninum, sem talinn er vera um 50 þúsund laxar, voru hátt í 23 þúsund laxar drepnir. Þú þarft ekki að vera fiskifræðingur til að átta þig á því að það getur ekki farið vel með nokkurn stofn. Við það bætist svo að rannsóknir hafa sýnt að hluti laxa sem er sleppt á sér ekki lífsvon og drepst fljótlega, enda eyðileggja krækjur hæglega færni þeirra til fæðuöflunar, auk þess sem fjöldi laxa verður örmagna eftir langa baráttu við veiðimann og myndatökur fyrir samfélagsmiðla.

Það er þó ekki eins og þetta sé að gerast í fyrsta skipti. Árið 2015 voru veiddir tæplega 78 þúsund laxar á Íslandi og 50 þúsund þeirra var slátrað. Það var þó rólegt miðað við 2008 þegar 93 þúsund löxum var landað á Íslandi og 76 þúsund þeirra drepnir.

Líklega koma þessar tölur einhverjum á óvart og til eru þeir sem gætu mögulega efast um þær í ljósi umræðunnar. En þetta eru einfaldlega tölur frá veiðimönnunum sjálfum. Ólíkt öðrum fiskveiðum er þeim treyst til að skrá þetta samviskusamlega sjálfum.

Kannski er pæling að velta þessum málum aðeins betur fyrir sér og líta sér nær í stað þess að krefjast að hætt verði við heila atvinnugrein – grein sem skapar miklar tekjur fyrir þjóðarbúið og skapar fjölda vel launaðra starfa á svæðum sem sárlega þurfa á þeim að halda.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir

Greinin birtist fyrst í Viðskiptamogganum 23. ágúst 2023.