29. ágúst 2023

Skýrsla matvælaráðherra - Aflamarkskerfið hefur aukið hagsæld

Matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, kynnti í dag skýrslu vegna stefnumótunar ráðuneytisins í sjávarútvegi. Í ljósi þess að sjávarútvegur er burðarstoð í íslensku efnahagslífi og hornsteinn hagsældar okkar Íslendinga var mikilvægt að vanda sérstaklega til verksins. Fjöldi fólks hefur verið kallaður til vinnu vegna þessa verkefnis og miklum fjármunum kostað til.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) telja miður að skýrslan víki ekki að því sem mestu máli skiptir; samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs og stöðu hans í keppni við fiskveiðar annarra þjóða. Þar liggur stærsta áskorunin nú og í framtíð. Hin títtnefnda sátt í sjávarútvegi verður varla til umræðu ef Íslendingar verða undir á erfiðum útivelli og engin verða þá verðmætin til skiptana.

SFS telja að öðru leyti ljóst, við fyrstu rýni skýrslunnar, að hún færir okkur fá ný tíðindi og skýrslur hafa áður verið skrifaðar um sama efni. Helst ber í því samhengi að nefna eftirgreint:

  • Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið, þar sem aflamarki er úthlutað til aðila með varanlegar og framseljanlegar veiðiheimildir, er að mati skýrsluhöfunda það kerfi sem best er talið og skilað hefur miklum verðmætum til íslensks samfélags.
  • Enn er á það minnt í skýrslunni að innköllun og uppboð aflaheimilda, sem oft er ranglega kallað markaðsleið, hafi í öllum meginatriðum mistekist í þeim ríkjum sem reynt hafa.
  • Ráðstöfun ríkisins á 5,3% aflaheimilda í ýmis konar verkefni, líkt og strandveiðar, byggðapotta og ívilnanir er í öllum verulegum atriðum, samkvæmt umfjöllun skýrslunnar, án ásættanlegs árangurs eða efnahagslegs ábata.

Í opinni kynningu ráðherra í dag skaut skökku við að ráðherra hyggst leggja fram frumvörp sem í tveimur tilvikum eru ekki í samræmi við efni og niðurstöður skýrslunnar. Annars vegar hyggst ráðherra leggja til hækkun á veiðigjaldi og hins vegar hyggst hún gera tilraunir með uppboð aflaheimilda. Hvorugt er lagt til af þeim sérfræðingum sem fóru fyrir vinnuhópum og rituðu um hlutaðeigandi efni í skýrslunni. Af þeim sökum má hafa efasemdir um að ráðherra hafi nokkurn tíma haft í hyggju að hlíta niðurstöðum í skýrslu sem ekki væru í samræmi við pólitíska sýn ráðherrans.