6. maí 2024

Ársfundur SFS 2024 í myndum

Ársfundur SFS 2024 fór fram í Hörpu 3. maí undir yfirskriftinni Best í heimi? Vel yfir 200 gestir sóttu fundinn en hann var einnig aðgengilegur í beinu streymi. Hér að neðan má nálgast upptöku af fundinum ásamt myndum sem Birgir Ísleifur Gunnarsson tók.

Ólafur Marteinsson, formaður SFS, opnaði fundinn. Hann kom meðal annars inn á mikilvægi þess að íslenskur sjávarútvegur væri samkeppnisfær í alþjóðlegu tilliti og stjórnmálamenn þyrftu að hafa það í huga þegar verið væri að setja lög eða skapa starfsumhverfi fyrir atvinnugreinina. Þá hafi íslenskur sjávarútvegur varðað leiðina til árangurs í umhverfismálum á Íslandi og árangur sjávarútvegsins við endurvinnslu veiðarfæra ætti sér engan líkan í heiminum.

Birna Einarsdóttir, stjórnarformaður Iceland Seafood International, sá um fundastjórn.

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, ávarpaði fundinn í myndbandi og taldi ljóst að þegar öllu væri á botninn hvolft væri íslenskur sjávarútvegur í raun bestur í heimi. Hvergi hafi tekst jafn vel að stýra greininni með langtímahugsun að leiðarljósi og arðbærum hætti. Ekkert ríki standi okkur framar við að nýta gæði hafsins til fulls, en nýting þorskafurða er þegar yfir 90% og tegundum afurða fjölgar stöðugt.

Ekkert gerist að sjálfu sér og standa þurfi vaktina til að gæta að umhverfi íslensks sjávarútvegs, til dæmis þurfi að efla bæði rannsóknir og vísindastarf.

Því næst  tóku Leo A Grünfeld, meðeigandi Menon Economics og Oddbjørn Grønvik, yfirhagfræðingur hjá Menon Economics til máls og fjölluðu um skattlagningu fiskeldis í sjó og samkeppnishæfni greinarinnar í alþjóðlegu tilliti. Áður höfðu þeir unnið ítarega greiningu fyrir SFS á bæði undirstöðuatriðum nýrra tillagna um gjaldtöku í fiskeldi á Íslandi og mögulegum áhrifum hennar. Nálgast má skýrslurnar á vef sfs.is.

Niðurstaða greiningar þeirra leiddi m.a. í ljós að þær gjaldatillögur sem nú liggja fyrir gætu haft neikvæð áhrif á vaxtahorfur greinarinnar – kerfið henti ekki íslensku fiskeldi í þeim farvegi sem það er þessa stundina.

Þá fjallaði Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur, um orkukerfið – sóun í nafni umhverfisverndar. Sagði hann meðal annars að ekkert svæði í heiminum skáki Íslandi í sjálfbærni; að ganga vel um auðlindir sínar.

Heiðar sagði einnig að Ísland muni ekki ná orkuskiptum né standa við alþjóðlegar skuldbindingar og muni auka notkun jarðefnaeldsneytis vegna þeirra öfugu orkuskipa sem eru að eiga sér stað. Lausnin væri ekki fólgin í sólarorkuverum eða vindorkuverum því þau kalli aðeins á gasorkuver til að búa til jöfnunarorku. Lausnin felist fyrst og fremst í virkjun fallvatna og jarðvarmavirkjunum ásamt einföldun regluverks. Þannig mætti raunverulega framleiða græna orku á ábyrgan og skilvirkan hátt.

Hvatningarverðlaun SFS voru veitt að vanda og hlaut Blái herinn verðlaunin í ár. Blái herinn eru umhverfisverndarsamtök sem leggja áherslu á baráttuna við plastmengun í hafinu með hreinsunarstörfum, hvatningu og vitundarvakningu. Tómas J. Knútsson, stofnandi samtakanna, tók á móti verðlaununum.

Snorri Másson, fjölmiðlamaður, leiddi svo umræður um það hvernig stjórnmálin geta aukið verðmætasköpun? Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra, sátu fyrir svörum. Umræðurnar voru að vonum líflegar.

Heilt yfir voru pallborðsgestir sammála um að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið væri gott og þarfnaðist ekki breytinga. Sátt væri um kerfið. Umræðan snérist einnig um veiðigjöld og að eðlilegt væri að fjalla um það hvað íslenskur sjávarútvegur greiddi til samfélagsins á hverjum tíma og hvort og hvernig það stæði undir þeirri innviðauppbyggingu sem ráðast þarf í til að auka megi enn frekari verðmætasköpun í sjávarútvegi. Þá var ágætis samhljómur um gæta að fyrirsjáanleika í umhverfi fiskeldis á Íslandi.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, lokaði fundinum með áhugaverðu erindi undir yfirskriftinni, 4-4-2. Er það vísun í liðsskipulag í fótboltaleik en íslenskur sjávarútvegur og stjórnvöld þurfa að vera með liðsheildina í lagi til að geta skorað mörkin þegar kemur að verðmætasköpun fyrir íslenska þjóð.