2. janúar 2024

Augun á boltanum

Ég hef verið að berjast við það að læra golf síðustu misseri. Ég get ekki sagt að það gangi neitt sérstaklega vel en mér finnst þetta gaman.

Eitt hef ég lært í þessum kennslustundum sem ég hef sótt: Maður verður að horfa á boltann. Ég hef reynt það á eigin skinni að það er auðvelt að gleyma sér og ef ég tek augun af honum er engin trygging fyrir því að ég sjái hann aftur. Eða það sem er verra: Hann er enn á sama stað.

Það er margt í íþróttum sem á líka við í daglegu lífi. Þetta er eitt af því. Við verðum að vera með grundvallaratriðin á hreinu ef við ætlum að ná árangri.

Árangur okkar sem samfélag er ekki mældur í höggum heldur lífskjörum. Ef við gleymum undirstöðuatriðum þá verðum við undir í samkeppni. Við verðum að hafa í huga að við erum í samkeppni við aðrar þjóðir í nánast öllu sem við tökum okkur fyrir hendur. Jafnvel þjóðir sem eru ekki jafn uppteknar og við af styttingu vinnuvikunnar, grænum skrefum og þriðju vaktinni.

Ef við ætlum að viðhalda lífskjörum okkar, þá verðum við að framleiða meira til útflutnings í dag en í gær. Útflutningsatvinnuvegir okkar skipta hér öllu máli og þeir þurfa réttan jarðveg til að vaxa og dafna. Ef það tekst, þá njótum við öll góðs af því. Góður jarðvegur er í grunninn ekki flókinn. Það þarf trausta innviði, aukna endurnýjanlega orku, öflugan mannauð og almennt góð rekstrarskilyrði.

En það er með þennan jarðveg eins og með boltann: Það er auðvelt að gleyma sér og láta augu reika annað. Það fer hins vegar alltaf illa, og jafnvel verr en í golfinu. Í samkeppni þjóðanna er nefnilega ekki í boði að taka boltann upp og fara á næstu holu.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 25. desember 2023.