8. september 2021

Auknar álögur, minni tekjur

Opinberar álögur á sjávarútveg eru nú þegar margfalt hærri en tíðkast í öðrum löndum heims.

Að vanda ber sjávarútveg nú talsvert á góma í aðdraganda kosninga. Alls konar útgáfur eru á lofti um breytingar, misgóðar eins og gengur og gerist. Í umræðu um sjávarútveg er mikilvægt að hafa í huga að sjávarútvegur á Íslandi nýtur sérstöðu á alþjóðavettvangi, enda nýtur hann engra opinberra styrkja eða niðurgreiðslna eins og sjávarútvegur í flestum öðrum löndum heims.

Umræðan hér á landi snýst um þá öfundsverðu staðreynd að sjávarútvegurinn greiðir í opinbera sjóði hlutfallslega umfram annan atvinnurekstur hér á landi og nánast allan sjávarútveg um víða veröld. Veiðigjaldið ber gjarnan á góma. Í þeirri umræðu mætti ætla að tekjur ríkissjóðs af sjávarútvegi komi einungis frá veiðigjaldi, einu og sér, en skattspor greinarinnar er vitanlega miklu stærra. Árið 2018 er áætlað að skattspor sjávarútvegs hafið numið rúmum 77 milljörðum króna, sem gerir um 86 milljarðar króna sé tekið mið af verðlagi dagsins í dag. Þegar vel gengur stækkar sporið, en þegar gefur á bátinn minnkar það, eðli máls samkvæmt. Með hliðsjón af hagsmunum heildarinnar, ætti það því undantekningarlaust að vera markmið að tryggja samkeppnishæfni greinnarinnar, þannig að vel gangi og sporið stækki.

Veiðigjald er auðlindaskattur sem sjávarútvegur greiðir umfram aðrar atvinnugreinar hér á landi, þrátt fyrir að mörg önnur fyrirtæki nýti sér auðlindir Íslands í rekstri sínum. Rétt er að geta þess að sjávarútvegsfyrirtæki greiða 33% af afkomu fiskveiða í veiðigjald. Það má deila um hversu há prósentan á að vera, en þriðjungur af afkomu er líklega æði mikið í hugum flestra. Og þessi þriðjungur bætist við öll önnur gjöld og skatta.

Opinberar álögur á sjávarútveg eru nú þegar margfalt hærri en tíðkast í öðrum löndum heims. Afar fáar þjóðir hafa tekið upp sérstakt auðlindagjald á sjávarútveg og í mörgum löndum er sjávarútvegur jafnframt undanþeginn ýmsum hefðbundnum gjöldum sem aðrar atvinnugreinar þurfa að standa skil á. Þegar kemur að launatengdu gjöldunum, er Ísland í efsta sæti þegar kemur að samanburði við þær þjóðir sem við helst keppum við í sjávarútvegi.

Margir kunna að spyrja sig af hverju þetta skiptir máli? Svarið er að um 98% af íslensku sjávarfangi eru flutt úr landi og seld á kröfuhörðum mörkuðum erlendis. Sjávarútvegur er útflutningsgrein, sem þýðir að greinin getur ekki skellt kostnaðarhækkun, sem bundin er við Ísland, út í verð afurða sinna. Auknar álögur á sjávarútveg, þar sem einblínt er á að auka tekjur ríkisins til skemmri tíma, geta því gengið þvert á markmiðið um auknar tekjur til lengri tíma. Auknar álögur skerða samkeppnisstöðu sjávarútvegs og draga úr fjárhagslegu svigrúmi fyrirtækja til þess að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar. Blómlegar fjárfestingar á umliðnum árum hafa verið ráðandi þáttur í því að tryggja samkeppnishæfni greinarinnar, auka verðmætasköpun og treysta áframhaldandi atvinnu hér á landi. Það eru þessi atriði sem auka tekjur ríkissjóðs af sjávarútvegi en ekki auknar opinberar álögur. Oft og tíðum er umræða um sjávarútveg á þann veg, að auðsýnt er að fólk sér ekki skóginn fyrir trjánum. Það getur vonandi breyst með fordómlausri og upplýsandi umræðu.

Höfundur

Heiðrún Lind Marteinsdóttir

Framkvæmdastjóri