4. febrúar 2022

Að skattleggja hugtök

Ritstjórn vefs Alþýðusambands Íslands stakk niður penna nýverið og greindi frá því að auðlindarenta í sjávarútvegi árið 2020 hefði hækkað um 1,4 milljarða króna frá fyrra ári og numið 51 milljarði króna. Á sama tíma hefði veiðigjaldið lækkað um rúma 2,0 milljarða króna. Auðlindarenta í sjávarútvegi væri afar mikil hér á landi og langstærsti hluti hennar rynni til útgerðarfyrirtækja.

Þetta eru virkilega áhugaverðar fréttir, ekki síst í ljósi þess að heildarhagnaður fiskveiða árið 2020, fyrir skatt, var 13,4 milljarðar króna. En af hverju ber svona mikið á milli ASÍ og rekstrartalna?

Fyrir það fyrsta er auðlindagjald af fiskveiðum, svokallað veiðigjald, 33% af reiknuðum hagnaði fiskveiða. Ekki sjávarútvegs í heild sinni. Önnur starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja á borð við vinnslu, pökkun í umbúðir fyrir kaupendur, sölustarfsemi og annað telst ekki auðlindanýting. Auk veiðigjaldsins greiða útgerðir tekjuskatt, líkt og önnur fyrirtæki í landinu.  

Í annan stað notast ASÍ við hugtakið auðlindarenta. Skilgreining á auðlindarentu er í grófum dráttum sú, að ef öll fyrirtæki í hagkerfi eru eins munu þær atvinnugreinar sem hafa aðgang að takmörkuðum auðlindum skila meiri hagnaði en þær sem hafa hann ekki. Þessi umfram hagnaður hefur verið kallaður auðlindarenta í hagfræði.

En hér vandast málið. Rentan skiptist í hefðbundinn hagnað af starfseminni annars vegar og auðlindarentu hins vegar. Hagnaðurinn þarf eðli máls samkvæmt að standa undir fjárfestingum og ávöxtunarkröfu á fé sem hluthafar hafa lagt til starfseminnar, sem endurspeglar þá áhættu sem þeir taka miðað við aðrar fjárfestingar sem bjóðast í hagkerfinu. Því er það ekki svo að hver einasta króna sem myndast í hagnað í útgerð sé tilkomin vegna nýtingar á auðlind. Því fer fjarri.

Auðlindarenta er fræðilegt hugtak og hversu mikið sem við óskum þess að hægt sé að skattleggja fræðileg hugtök, þá er það einfaldlega ekki hægt. Þess vegna miða skattyfirvöld við rekstrartölur. Ef auðlindarenta samkvæmt hagfræði ASÍ væri grundvöllur skattheimtu myndi hún nema rúmlega fjórföldum heildarhagnaði í fiskveiðum. Eða þriðjungi heildartekna. Það fær hvert mannsbarn séð að slíkt er ómögulegt. Og ólíklegt er að nokkur fengist til að veiða fiskinn miðað við þær forsendur.

Að lokum er ekki annað hægt en að staldra við boðskapinn í grein ASÍ. Há gjöld á útflutningsatvinnuveg skaða samkeppnishæfni hans og draga þannig úr þeim mikilvægu verðmætum sem skila sér til samfélagsins. Við svo búið verður ekki unnt að tryggja blómlegt atvinnulíf með fjölda starfa sem víðast um landið. Það yrði því allra tap.