26. apríl 2025

Betra er að vita en halda

Fólk sem býr á landsbyggðinni og á sína fasteign þar þarf að sjálfsögðu að greiða fasteignagjöld eins og lög gera ráð fyrir. Vafalítið þætti mörgum harla skrítið ef sveitarstjórn á tilteknu svæði myndi skyndilega ákveða að breyta útfærslu skattlagningar þannig að í stað þess að miða við raunverulegt fasteignamat, ætti að miða við fasteignamat sambærilegrar eignar á höfuðborgarsvæðinu - sem að jafnaði er ríflega tvöfalt hærra. Sveitarfélagið stæði þó fast á sínu og myndi halda því fram að því færi fjarri að verið væri að hækka skatta. Hús væri hús, hvar sem það væri niður komið á landinu, það væri einungis verið að miða við „rétt verð“. Í þeirra augum er húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu „rétt“ en verðið á landsbyggðinni „rangt“.

Það er hætt við að margir myndu reka upp stór augu við þessa útlistun. Þessi er þó nálgunin sem liggur að baki nýju frumvarpi Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um veiðigjald.

Eitt „rétt verð“ er ekki til

Lagt er til í frumvarpsdrögunum að veiðigjald verði ákvarðað út frá meðalverði á síld, makríl og kolmunna samkvæmt opinberum hagtölum í Noregi. Tölurnar byggjast á gögnum sem norsku sölusamtökin Norges Sildesalgslag, í eigu og undir stjórn norskra útgerða, safna og miðla til Fiskistofu Noregs. Það er hér sem fiskur og fasteignir tengjast, því að mati ráðherra er verð á uppsjávartegundunum þremur í Noregi „rétt“ en verð á Íslandi „rangt“. Það er einfaldlega rangt hjá ráðherra.  

Eftir að frumvarpsdrögin voru birt hefur ráðherra mætt í viðtal eftir viðtal til þess að skýra sitt sjónarmið: „Það þarf að skattleggja útgerðir miðað við heimsmarkaðsverð á fiski.“ Þetta hljómar eins og eðlileg krafa og virðist traustvekjandi, en það er bara einn hængur á: Það er ekkert til sem heitir heimsmarkaðsverð eða „eitt rétt verð“ á makríl, síld eða kolmunna – né neinum öðrum villtum fiskistofnum.

Fiskur er ekki hráolía sem dælt er úr jarðskorpunni - það er ekki skoðun, heldur staðreynd. Fiskur er lifandi hráefni og verð á honum ræðst af fjölmörgum þáttum; veiðisvæði, veiðarfærum, árstíma, siglingatíma, meðhöndlun, vinnslu, stærð og mörkuðum. Því getur verð á sömu fisktegund verið gjörólíkt í mismunandi löndum á sama tíma. Hið svokallaða „rétta verð“ er rétt á hverjum stað og tíma og veltur meðal annars á fyrrnefndum þáttum.

Að skattleggja það sem ekki næst

Verð á tiltekinni fisktegund getur þó einnig verið mismunandi á sama tíma á sama markaði í sama landi, þá sérstaklega ef hún er veidd af skipum frá mismunandi löndum. Nærtækt er að líta á opinberar tölur í Noregi um verð á makríl sem íslensk skip fá í samanburði við þau norsku. Þá kemur í ljós að á undanförum árum hafa norsk skip að jafnaði fengið um 54% til 143% hærra verð fyrir makríl en þau íslensku á uppboðsmarkaði í Noregi á sama tíma. Af hverju skyldi það vera?  

Þessi verðmunur er ekki tilviljun, heldur bein afleiðing ólíkra aðstæðna. Íslensk skip veiða makríl með flotvörpu, við krefjandi aðstæður langt frá landi, þar sem makríllinn er oft lausholda og fullur af átu, sem gerir vinnslu erfiðari og dregur úr verðmæti. Á sama tíma veiða norsk skip með hringnót eða snurpunót við betri skilyrði stutt frá landi. Þessir þættir skipta sköpum fyrir gæði og nýtingu hráefnis og þar með endanlegt verð. Um þetta má lesa nánar í umsögn SFS, þar sem rakið er að það er ekki aðeins óraunhæft að Íslendingar nái sömu verðmætum og Norðmenn fyrir makríl – það er útilokað.

Að tefla þjóðarhag í tvísýnu með einfaldri talnaleikfimi

Stjórnvöld verða að byggja stefnu sína á raunveruleikanum, en ekki á ímynduðum heimi sem reistur er á meðaltalsútreikningum, án greiningar eða samhengis. Mikil ábyrgð hvílir á þeim sem setja lög sem snerta einn mikilvægasta grunnatvinnuveg þjóðarinnar, því áhrifin eru ekki aðeins bundin við greinina sjálfa, heldur hafa þau keðjuverkandi áhrif á allt hagkerfið. Ábyrg stjórnvöld sem vilja stuðla að bættum þjóðarhag horfast í augu við staðreyndir áður en þau taka ákvarðanir – ekki eftir á.