1. október 2023

Ef það er ekki bilað...

Það hafa allir heyrt: Ef það er ekki bilað - ekki reyna að gera við það. Það ætti varla að koma neinum á óvart að okkur finnst það oft eiga við þegar rætt er um íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið.

Kerfi sem hefur skilað þjóðinni hundruðum milljarða síðustu áratugi og tryggt myndarlegt framlag til góðra lífskjara hér á landi. Ekki bara með gjaldeyrisöflun og veiðigjaldi, heldur líka öðrum fyrirtækjasköttum og tekjuskatti af hálaunastörfum í greininni, sem okkur hefur tekist að viðhalda, ólíkt flestum þjóðum.

Í síðustu viku fengum við óvæntan stuðning frá prófessor í Háskóla Íslands, sem er reyndar líka varaformaður Viðreisnar. Hann sagði að það væri „grátlegt“ að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið væri ekki notað víðar um heiminn. Það hefði haft gríðarlega jákvæð áhrif á umhverfismál í sjávarútvegi og skipt sköpum í verulega minni losun íslenska flotans.

Það var bæði fallegt og skemmtilegt að heyra þetta. Og reyndar óvænt, þar sem flokkur hans vill fyrna og bjóða út aflaheimildir til tímabundinnar leigu. Það finnst okkur ekki góð hugmynd. Sú ráðstöfun takmarkar fyrirsjáanleika, sem aftur dregur úr skipulagi og fjárfestingu til lengri tíma. Vegferðin að enn minna kolefnisfótspori verður því lengri og torveldari.

“Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið er og verður eitt stærsta framlag Íslands til loftslagsmála á heimsvísu.”

Ef tryggja á sjálfbærni við nýtingu sjávarauðlindarinnar er sameiginleg langtímasýn hins opinbera og atvinnugreinarinnar grundvallarþáttur. Það hefur tekist hér á landi með varanleika aflaheimilda og frjálsu framsali þeirra. Í því felst einmitt galdurinn við íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið. Ráði tímabundnir hagsmunir för í ákvörðunum atvinnugreinarinnar fer illa. Það hafa margar þjóðir reynt.

Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið er og verður eitt stærsta framlag Íslands til loftslagsmála á heimsvísu. Þó sannanlega megi ávallt gera betur í dag en í gær, þá er einfaldlega ekkert stórvægilegt bilað í kerfinu, heldur þvert á móti. Við skulum því láta vera að reyna í sífellu að gera við það.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS

*Greinin birtist fyrst á vef Viðskiptablaðsins.