5. júní 2023

Einfalt verður flókið

Það hljómar kannski undarlega en í raun eru veiðigjaldið frekar einfalt reikningsdæmi. Við, sem vinnum við þetta, höfum lengi vitað það og verðum stundum pínu hvumsa þegar fólk skilur ekki af hverju fjárhæð veiðigjalds hækkar og lækkar á víxl. Sérstaklega þegar slík umræða skilar sér í sal Alþingis. Okkur finnst það merkilegt í ljósi þess að þaðan eru þessi lög um veiðigjald komin.

Staðreyndin er sú þau hafa hvorki hækkað né lækkað á umliðnum árum. Hlutfallið hefur verið það sama og þau eru beintengd afkomu fiskveiða og því magni sem veitt er á ári hverju. Stundum er afkoma góð, stundum ekki, og veiddur afli tekur breytingum frá einu ári til annars, allt eftir ástandi fiskistofna og gæftum.

En hvernig er veiðigjald reiknað?

Einfalda svarið er að veiðigjald eru reiknað af tegundum í aflamarki. Það eru 33% af því sem eftir stendur þegar búið er að draga frá tekjum kostnaðinn við veiðar - laun, olíu, veiðarfæri og þess háttar.

Útreikningur á veiðigjaldi hefur verið einfaldaður til muna frá því sem áður var. Frá og með árinu 2019 hefur Skatturinn haft það hlutverk að koma með tillögu um fjárhæð veiðigjalds hverrar tegundar fyrir komandi ár. Skýr fyrirmæli eru í 5. gr. laga um veiðigjald hvernig gjaldstofninn skal reiknaður. Eftir fyrsta árið sem Skatturinn tók við þessu hlutverki var birt grein í fréttablaði embættisins, Tíund, þar sem gerð var stuttlega grein fyrir framkvæmd, útreikningnum og þeim gögnum sem byggt er á við ákvörðun veiðigjalds. Í niðurlagi greinarinnar sagði orðrétt:

„Það er mat þeirra starfsmanna RSK sem komið hafa að þessari nýju framkvæmd að vel hafi tekist til með alla þætti verkefnisins. Gögnin sem útreikningurinn byggir á eru eins tímanlega og rétt og kostur er og framteljendur virðast hafa vandað skil sín á upplýsingum. Framkvæmdin við áritun og söfnun upplýsinganna, sem og sjálfur útreikningurinn, hefur almennt gengið eins og best verður á kosið.“

Af þessu verður ekki annað ráðið en að greiðlega gangi að reikna og innheimta veiðigjald – og að engu leyti virðist það flóknara en framkvæmd annarrar skattheimtu.

Sé þetta enn flókið í huga einhverra, má taka dæmi. Á þessu ári er veiðigjald af þorski 19,17 krónur af hverju kílói sem skilar sér í land. Sú niðurstaða er fengin úr uppgjörum vegna veiða á árinu 2021. Þá skiluðu þorskveiðar að jafnaði 58,1 krónu í hagnað á hvert kíló uppúr sjó. Þriðjungur af því er einmitt 19,17 kr. Þannig getum við gengið út frá því sem vísu að af hverju kílói sem veitt er skili tæplega 20 krónur sér til ríkisins.

Engin er hins vegar meginregla án undantekninga. Löggjafinn ákvað að umbuna ætti smærri aðilum sérstaklega og lögfesti því afslátt af veiðigjaldi. Hver útgerð fær 40% afslátt af fyrstu 7,9 milljónunum sem hún ætti að greiða. Það þýðir að margar minni útgerðir fá fullan 40% afslátt en stærri útgerðir hlutfallslega minni afslátt.

Það getur líka gerst að einstakar tegundir bera ekkert veiðigjald stöku ár. Það gerðist til dæmis á loðnuvertíð í fyrra. Það kom til vegna þess að árið sem veiðigjald miðaðist við var loðnubrestur. Það var árið 2020. Þrátt fyrir enga veiði, þurftu sjávarútvegsfyrirtæki eðli máls samkvæmt að standa undir mikilli fjárfestingu án þess að fá nokkrar tekjur á móti. Slíkt getur gerst en er afar sjaldgæft. Á þessu ári liggur hins vegar fyrir að sjávarútvegsfyrirtæki greiða um 1.800 milljónir króna í veiðigjald af loðnuvertíð og það hefur aldrei verið hærra.

En eftir stendur að sjávarútvegur greiðir almennt 20% tekjuskatt af hagnaði, líkt og önnur fyrirtæki hér á landi, auk þess að greiða 33% í veiðigjald. Slík skattlagning á afkomu finnst hvergi annarstaðar. Engu skiptir hvort litið er á aðra starfsemi á Íslandi eða út í heimi. Gildir þá einu hvort auðlindir séu með í taflinu. Þannig er ekkert auðlindagjald af afkomu í atvinnugreinum á borð við landbúnað, laxveiðar eða ferðaþjónustu. Við sjáum auk þess engin áform um það í fjármálaáætlun, en þar er hinsvegar boðuð enn frekari hækkun á skattheimtu í sjávarútvegi og fiskeldi. Þar fylgir með að auka eigi skattheimtuna á stærri útgerðir en hækka enn frekar afslætti á þær minni. Það skýtur nokkuð skökku við, enda væri sú niðurstaða jafnvel flóknari en veiðigjaldið sjálft. Mikilvægi frekari einföldunar veiðigjaldsins, sem mörgum virðist kappsmál, virðist því aðeins í orði en ekki á borði.

 Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. maí