19. janúar 2023

Endurvinnsla veiðarfæra – allir leggjast á árarnar

Mörg fyrirtæki innan vébanda Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafa á undanförnum árum undirritað stefnu sjávarútvegs um samfélagsábyrgð. Stefnan grundvallast á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og tekur til ófjárhagslegra þátta í starfsemi fyrirtækjanna, meðal annars áhrifa á umhverfi og loftslag. Meðal þess sem fyrirtækin undirgangast með stefnunni er að efla fræðslu um endurvinnslu veiðarfæra og sjá sjálf til þess að úrelt veiðarfæri séu hreinsuð, flokkuð og send til endurvinnslu. Sem liður í samfélagsstefnu hafa samtökin, í samstarfi við íslenskar veiðarfæragerðir, tekið í notkun nýtt og endurbætt skilakerfi veiðarfæra.

Hringrás veiðarfæra og ábyrgð sjávarútvegs

Samkvæmt lögum um úrvinnslugjald er lagt á innflutning og framleiðslu veiðarfæra svokallað úrvinnslugjald. Gjaldinu er ætlað skapa skilyrði fyrir endurnotkun og endurnýtingu veiðarfæra­úrgangs í þeim tilgangi að draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar. Í lögum um úrvinnslugjald er þó að finna heimild fyrir fyrirtæki og atvinnugreinar til að semja við Úrvinnslusjóð um ráðstafanir til að tryggja úrvinnslu veiðarfæraúrgangs gegn því að veiðarfæri verði þá undanþegin úrvinnslugjaldi. Með öðrum orðum tekur atvinnugreinin þá sjálf ábyrgð á og fjármagnar móttöku og úrvinnslu veiðarfæraúrgangs. Þetta fyrirkomulag hentar ekki endilega öllum úrgangsflokkum sem falla undir úrvinnslugjald. Það hentar hins vegar vel þegar kemur að veiðarfærum, sem oft eru stór og krefjast sérstaks búnaðar og þekkingar til viðeigandi meðhöndlunar.

Forveri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Landssamband íslenskra útvegsmanna, gerði á þessum grundvelli samning við Úrvinnslusjóð í ágúst 2005 um úrvinnslu veiðarfæraúrgangs. Með samningnum skuldbundu samtökin sig til að reka eða semja við þriðja aðila um rekstur á viðurkenndri móttökustöð fyrir endurnýtanlegan veiðarfæraúrgang og koma honum til endanlegrar úrvinnslu. Við gildistöku samningsins árið 2006 var mörkuð sú stefna að minnst 45% af áætluðum 1.100 tonnum af veiðarfæraúrgangi sem félli til á landsvísu árlega færi í endurvinnslu, á árinu 2007 minnst 50% og frá á árinu 2008 minnst 60%. Þessi áform hafa gengið eftir og gott betur þar sem markmiðinu hefur verið náð á ári hverju, að árinu 2020 undanskildu en þá setti m.a. kórónuveirufaraldurinn strik í reikninginn. Þrátt fyrir að framkvæmd samningsins hafi að þessu leyti gengið vel á undanförnum árum er engu að síður ljóst að á þeim 17 árum sem samningurinn hefur verið í gildi hafa áherslur á umhverfis- og samfélagsábyrgð aukist töluvert. Það má því segja að endurskoðun kerfisins hafi verið orðin tímabær og það fært til nútímans.

Hvernig virkar skilakerfi veiðarfæra?

Samkvæmt fyrri framkvæmd samdi SFS við eina móttökustöð, sem staðsett var í Reykjavík. Nú hafa hins vegar stærstu veiðarfæragerðir landsins, ásamt nokkrum netaverkstæðum útgerða, gengið til liðs við skilakerfið. Þetta hefur í för með sér umfangsmikla fjölgun móttökustöðva um land allt, en alls hafa 14 nýjar móttökustöðvar opnað við helstu fiskihafnir um land allt. Móttökustöðvar eru því í mikilli nálægð við meginþorra handhafa veiðarfæraúrgangs, sem stuðlar að auknum skilum og endurvinnslu.

Önnur nýmæli nýja skilakerfisins eru aukin fræðsla og forvarnir, aðgerðir sem miða að því að sporna við plastmengun í hafi og á ströndum, metnaðarfull markmið um söfnun, endurvinnslu og endurnýtingu veiðarfæraúrgangs og skýr og reglubundin upplýsingagjöf og eftirlit.

Aukum enn frekar endurvinnslu

Samtökunum er umhugað um að kynna nýja kerfið vel fyrir öllum handhöfum veiðarfæra­úrgangs, bæði innan sem utan samtakanna. Í því skyni hafa SFS haldið opna fundi um land allt og rætt við fyrirsvarsmenn sveitarfélaga og hafna. Áframhaldandi kynningarstarf er fyrirhugað þar sem samtökin hafa m.a. óskað eftir góðu samstarfi við Hafnasamband Íslands við að vísa efnum á viðeigandi móttökustöðvar um land allt.

Samtökin hafa, í samstarfi við Eimskip og veiðarfæragerðir, einnig unnið að því að hreinsa upp munaðarlaus veiðarfæri um allt land. Þá hafa SFS kallað eftir upplýsingum frá Hafnasambandi Íslands um hvar slík veiðarfæri megi  finna og hreinsun er nú þegar hafin á hlutaðeigandi stöðum.

Veiðarfæraúrgangur frá Íslandi er nú aðallega fluttur til endurvinnslu í Litháen, Danmörku og Hollandi. Góður árangur hefur náðst í endurvinnslu og afurðir fara m.a. í raf- og bílaiðnað, húsgögn og hátískuiðnað, svo fátt eitt sé nefnt. Ekki eru öll veiðarfæri endurvinnanleg en unnið hefur verið að því síðustu misseri að stórauka möguleika til endurvinnslu veiðarfæra og bættust nýjar leiðir fyrir endurvinnslu inn í kerfið í lok síðasta árs.

Það er von samtakanna að vel takist til í samstarfi allra þeirra aðila sem hagsmuna hafa að gæta við meðhöndlun og endurvinnslu veiðarfæra. Endurvinnsla veiðarfæra er mikilvægur liður í því að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar og góða umgengni við hafið.

Birtist í morgunblaðinu 19. janúar.