9. júní 2023

Hámarksafli þorsks eykst um 1%

Hafrannsóknastofnun birti í morgun ráðgjöf fyrir komandi fiskveiðiár 2023/2024. Ráðlagður þorskafli stendur nánast í stað. Í samræmi við aflareglu stjórnvalda er lagt til að hámarksafli þorsks á næsta fiskveiðiári verði alls 211.309 tonn, en á yfirstandandi fiskveiðiári er hann tæplega 208.828 tonn. Aukning á milli fiskveiðiára er því 1%. Væntingar stóðu til þess að aukningin yrði meiri í ráðlögðum þorskafla en samdráttur síðustu ára hefur verið töluverður og haft mikil áhrif á afkomu greinarinnar.  Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) mælast til þess að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar verði fylgt.

Veiðar hafa verið stundaðar með sjálfbærum hætti undanfarin ár, sem hefur skilað sér í uppbyggingu þorskstofnsins. Þetta sést vel þegar niðurstöður togararallsins frá því í mars síðastliðnum eru skoðaðar en þar kom í ljós að lengd þorska er langt yfir meðaltali í mörgum lengdarflokkum. Þá hefur vísitala í þyngd þorska hækkað frá því í fyrra. Þorskinn má nú finna allt í kringum landið og er hann því með mun jafnari dreifingu um miðin en oft áður, sem er mjög jákvætt fyrir stofninn.

Hafrannsóknastofnun leggur til 62% aukningu í ráðlögðum afla gullkarfa frá fyrra fiskveiðiári. Þessa aukningu má rekja til þess að stofnvísitala í þyngd var hærri í ár en í fyrra. Ástæður þess eru meðal annars að nýliðun jókst ásamt því stofnmatsaðferð og viðmiðunarpunktum í ráðgjöf var breytt eftir rýnifund með Alþjóða hafrannsóknaráðinu. Enginn ráðlagður heildarafli er áætlaður í djúpkarfa sem er breyting frá fyrri árum. Þá er ráðlögð 23% aukning í ýsuafla og 40% aukning í síldarafla sem er ánægjulegt og í samræmi við upplifun greinarinnar.

Þolinmæði og þrautseigja

Þegar litið er til ráðgjafarinnar í heild sinni, má álykta að okkur miði í rétta átt. Þorkstofninn er firnasterkur og til þess verðum við að líta þegar ráðlagður afli í þeirri tegund hækkar aðeins um 1% frá fyrra fiskveiðiári. Við vorum því miður að binda vonir við meiri aukningu í ráðlögðum þorskafla, þó ljóst væri að hún yrði aldrei mikil þar sem enn hafa ekki komið inn þessir stóru árgangar sem sáust á níunda áratug síðustu aldar. Enn um sinn þurfum við því að sýna þolinmæði og þrautseigju við þorskveiðar – og um leið binda vonir við hin jákvæðu teikn skili sér í aukningu í ráðlögðum afla á komandi árum. Þá er mjög ánægjulegt að sjá góðar fréttir af ýsu, gullkarfa og síld“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.

Félagsmenn SFS áttu góðan fund með Þorsteini Sigurðssyni, forstjóra Hafrannsóknastofnunar og Bjarka Þór Elvarssyni, fagstjóra ráðgjafar hjá Hafrannsóknastofnun í dag þar sem tækifæri gafst til að spyrja nánar út í ráðgjöf stofnunarinnar.

Efla þarf hafrannsóknir

Vandaðar og öflugar hafrannsóknir eru forsenda þess að nýta megi fiskveiðiauðlindina á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Fiskveiðistjórnunarkerfi þjóðarinnar hvílir á vísindalegri nálgun og því þarf að tryggja að stoðir hafrannsókna séu sterkar og upplýsingar og ráðgjöf til greinarinnar þannig með besta móti. Allur sparnaður þegar kemur að hafrannsóknum eykur óvissu, dregur úr verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið og leiðir til varkárari nýtingar en ella væri hægt að viðhafa. SFS hefur löngum lýst áhyggjum af stöðu hafrannsókna hér á landi og er ekki að sjá annað en að þeirri baráttu verði áfram haldið ef litið er til stefnu stjórnvalda hvað þetta varðar og birtist í fjármálaáætlun til næstu fimm ára.

Áhrif af samdrætti í veiðum síðustu ára hefur áfram áhrif á fyrirtæki í sjávarútvegi en von er til þess að sú aukning sem nú má sjá í hámarksafla sé boðberi betri tíðar til næstu ára. Langtímahagsmunir atvinnugreinarinnar eru að stundaðar séu sjálfbærar fiskveiðar hér við land og því skynsamlegast að fylgja ráðgjöf vísindanna.

Þróunin í veiðiráðgjöf Hafró varðandi hámarksafla þorsks í gegnum árin.

Þróunin í veiðiráðgjöf Hafró varðandi hámarksafla ýsu, gullkarfa og sumargotssíld.