7. júlí 2023

Hlutaskiptakerfið – Sameiginlegir hagsmunir

Þann 9. febrúar á þessu ári dró til tíðinda í kjaraviðræðum stéttarfélaga sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) þegar Félag skiptstjórnarmanna, ásamt öðrum stéttarfélögum, skrifuðu undir tíu ára kjarasamning við SFS. Kjarasamningar höfðu verið lausir frá árslokum 2019 en með samþykki kjarasamninganna tryggðu skipstjórar sér bætt réttindi í formi aukinna lífeyrisréttinda til jafns við almenna vinnumarkaðinn ásamt fleiri kjarabótum. Nú bíður SFS og þeim stéttarfélögum sjómanna sem enn eru með lausa kjarasamninga verðugt verkefni, að gera aðra tilraun við gerð kjarasamninga því lengi skal manninn reyna.

Róum í sömu átt

Kjarasamningar sjómanna eru frábrugðnir öðrum kjarasamningum á vinnumarkaði. Laun sjómanna ákvarðast af hlutaskiptakerfi, þar sem útgerð og áhöfn skips skipta með sér verðmæti þess afla sem er veiddur. Þar með hafa bæði útgerðir og sjómenn sameiginlega hagsmuni af því að hámarka þau verðmæti sem dregin eru úr sjó. Því er það verkefni aðila beggja vegna borðsins að koma til móts við kröfur hvors annars þannig að þær styðji við samkeppnishæfni greinarinnar – báðum til hagsbóta.

Sjómenn á Íslandi njóta almennt góðra kjara og er markmið við gerð kjarasamninga að tryggja að svo verði áfram. Á síðasta ári fengu að jafnaði um 3.000 sjómenn greidd staðgreiðsluskyld laun. Hver sjómaður fékk að meðaltali ríflega 1,6 milljónir króna í staðgreiðsluskyldar launagreiðslur á mánuði. Því til viðbótar bætast við greiðslur úr lífeyrissjóðum eða aðrir liðir sem teljast ekki staðgreiðsluskyldar launagreiðslur. Vissulega er hér um meðaltal að ræða, sem endurspeglar ekki launagreiðslur hvers og einasta sjómanns. Þær eru eðlilega misháar á milli manna og fyrirtækja sem eru fjölmörg og ólík. Þær gefa þó sterklega til kynna að hagur þeirra langflestra hafi vænkast umtalsvert á árinu 2022. Sé litið á þróun þessa meðaltals hafa staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í fiskveiðum ekki verið hærri frá árinu 2008, sem er eins langt aftur og tölur Hagstofunnar ná til, hvort tveggja að nafnvirði og raunvirði.

Sjómenn sér á báti

Í samanburði við aðrar atvinnugreinar hér á landi eru staðgreiðsluskyldar launagreiðslur á mann háar í fiskveiðum. Á síðasta ári voru þær ríflega tvöfalt hærri en meðallaunagreiðslur allra í hagkerfinu og 60% umfram launagreiðslur þeirrar atvinnugreinar sem var númer tvö í röðinni. Þessi staða er þó engin nýlunda enda hafa launagreiðslur í fiskveiðum verið hæstar allra atvinnugreina á hverju einasta ári eins langt aftur og gögn Hagstofunnar ná. Þar með talið er árið 2017, þegar sjómannaverkfall var og gengi krónunnar náði sínu sterkasta gildi frá því í ágúst árið 2008. Þó ber að halda til haga að hér er einungis um samanburð á meðaltölum að ræða sem augljóslega hefur ýmsa vankanta. Ber hér fyrst að nefna að ekki er tekið tillit til fjölda vinnustunda, sem geta verið mismargar á milli atvinnugreina, auk þess sem hlutastörf eru misalgeng á milli greina. Þá eru fleiri þættir sem hafa áhrif á samanburð á launagreiðslum á milli atvinnugreina, eins og menntunarstig, hlutdeild faglærðra og/eða sérhæfðra starfa. Af þessum tölum má þó vera ljóst að launakjör sjómanna miðað við aðra launaþegahópa hér á landi eru góð, sem er afar ánægjuleg staðreynd.

Hærra afurðaverð – hærri laun

Þar sem launakerfi sjómanna byggist á hlutaskiptum aflaverðmætis á milli áhafnar og útgerðar haldast laun þeirra í hendur við tekjur sjávarútvegsfyrirtækja. Þau ráðast því af sömu þáttum, það er afurðaverði, nýtingu, aflamarki og gengi krónunnar. Kemur því ekki á óvart hversu mikið samræmi er á milli þróun verðvísitölu sjávarafurða, þar sem bæði afurðaverð og gengi krónunnar koma við sögu, og launagreiðslna í fiskveiðum, eins og myndin hér fyrir neðan ber með sér. Það þýðir að allar þær fjárfestingar sem ráðist hefur verið í, og tryggt hafa hærra verð á íslenskum sjávarafurðum, hafa skilað sér í bættum kjörum sjómanna. Hvað sem þessu líður er þessi staða sjómanna miðað við aðra launþegahópa afar ánægjuleg. Vissulega er það enn svo að sjómennska er oft erfið, vinnutíminn almennt langur og fjarvistir frá fjölskyldu töluverðar.Sú jákvæða þróun hefur þó orðið á umliðnum árum að úthaldsdögum skipverja hefur farið fækkandi þar sem tveir til þrír sjómenn skipta oft og tíðum með sér stöðu, með þeim afleiðingum að frítími og viðvera í landi er meiri.

Samkeppnishæfni sjávarútvegs og hagsæld sjómanna hvílir á blómlegri fjárfestingu

Rekstur sjávarútvegsfyrirtækja hér á landi hefur heilt yfir gengið vel á undanförnum árum, þó staðan sé að sönnu ólík á milli fyrirtækja. Verðmætin verða þó ekki til við það eitt að draga fisk úr sjó, það þarf að gera úr honum verðmæti og selja á mörkuðum erlendis, þar sem samkeppni er hörð og kröfurnar stöðugt að aukast. Á undanförnum árum hefur fjárfesting íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í nýjum skipum, búnaði um borð og hátæknivinnslum verið í sögulegum hæðum. Það eru þessar fjárfestingar sem hafa skipt sköpum fyrir samkeppnishæfni greinarinnar og gegnt lykilhlutverki við að skapa meiri verðmæti úr sjávarauðlindinni. Að sama skapi hafa þær verið ráðandi þáttur í að tryggja að sjávarútvegur sé í færum til að greiða góð laun og stuðlað að því að sjómenn eru hæst launaða stétt landsins. Sú staðreynd er einstök á heimsvísu og til marks um góðan árangur í sjávarútvegi og ágæti kjarasamninga fyrir sjómannastéttina. Sameiginlegir hagsmunir sjómanna og sjávarútvegsfyrirtækja liggja þess vegna áfram í því að tryggja samkeppnishæfni greinarinnar, þannig að tryggja megi áframhaldandi góð laun til lengri framtíðar.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.