29. nóvember 2023

Ísland framúrskarandi í endurvinnslu veiðarfæra

„Við sjáum sjálf um að úrelt veiðarfæri séu hreinsuð, flokkuð og send til endurvinnslu,“ segir í samfélagsstefnu sjávarútvegs sem sett var árið 2020 og fyrirtæki í sjávarútvegi sammæltust um að fylgja eftir.

Á grundvelli þessarar stefnu og laga um hringrásarhagkerfið var nýju endurvinnslukerfi komið á laggirnar. Markmið kerfisins er að hámarka hringrás veiðarfæra og forða þeim frá því að enda í opnum hafnargámum og í urðun. Leitað er leiða til að auka skil, örva og hvetja til endurnýtingar og endurvinnslu þar sem það er unnt og draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar. Í þessu skyni eru sett fram töluleg markmið um 80% söfnunarhlutfall og þar af 80% endurvinnsluhlutfall.

Fyrsta heila árið sem nýja kerfið var nýtt var í fyrra, 2022 og góður árangur þess leynir sér ekki ef tölurnar eru skoðaðar. Ísland tvöfaldaði útflutning á veðarfærum til endurvinnslu og sendi um 1.700 tonn, sem er 600 tonnum yfir söfnunarmarkmiði. Allt er þetta gert í samstarfi við Eimskip, Hampiðjuna, Ísfell, Egersund, GRUN, Skinney Þinganes og Veiðarfæragerðinni hjá Þorbirni.

Þetta sýnir glögglega að kerfið er að virka og fyrirtækin eru að nýta sér kerfið í stað þess að urða veiðarfæri.

Ísland í öðru sæti

Nofir, norskt fyrirtæki sem er umsvifamikið í meðhöndlun á gömlum og slitnum veiðarfærum, heimsótti Ísland í síðustu viku og hélt erindi á alþjóðlegu plastráðstefnunni í Hörpu. Fyrirtækið sá ástæðu til að þakka Íslendingum sérstaklega fyrir sitt framlag enda er Ísland í 2. sæti, á eftir Noregi, á lista yfir þær þjóðir sem skila mestu til endurvinnslu veiðarfæra í heiminum.

Þegar hafa komið 938 tonn frá Íslandi á þessu ári til Nofir og því ljóst að Ísland stendur fremst á meðal þjóða í endurvinnslu veiðarfæra. Nefna má að Nofir er einungis eitt af fjórum fyrirtækjum sem taka á móti veiðarfærum frá Íslandi en veiðarfæraúrgangur frá Íslandi er nú að mestu fluttur til endurvinnslu í Litháen, Danmörku og Hollandi.

Nofir birti eftirfarandi mynd á Facebook-síðu sinni á dögunum.

Auðvelt að koma notuðum og úr sér gengnum veiðarfærum til móttökustöðva víðsvegar um landið. Móttökustöðvarnar sjá um að pakka og setja veiðarfærin í gám og senda til endurvinnslu. Ekkert gjald er greitt fyrir að skila flokkuðum veiðarfærum á móttökustöð hjá Hampiðjunni, Ísfelli, Egersund, Veiðarfæragerð Skinneyar-Þinganess, Netaverkstæði G.Run eða Veiðarfæraþjónustunnar í Grindavík.