15. október 2023

Íþróttin að ala á vantrausti

Matvælaráðherra ritar þessa dagana hverja greinina á fætur annarri um gagnsæi í sjávarútvegi. Telja verður að það sé ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að ráðherra og Samkeppniseftirlitið voru gerð afturreka með samning sín í milli um athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi. Þegar gefur á bátinn kann að vera gott að stýra umræðunni eitthvað annað, þá jafnan í lygnari sjó. Skýr úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála kvað nefnilega á um að í samkeppnislögum væri ekki gert ráð fyrir því að Samkeppniseftirlitið gæti gert samninga við stjórnvöld um einstakar athuganir, eða tilhögun þeirra, og skilað í kjölfarið sínum niðurstöðum í formi skýrslna gegn greiðslu. Raunar má segja að bæði ráðherra og forstjóri Samkeppniseftirlitsins hafi farið undan þeirri niðurstöðu í hálfgerðum flæmingi, þar sem algert gagnsæi skortir til dæmis gagnvart því hver átti frumkvæðið að þeim ólögmæta gjörningi. Þrátt fyrir allt skal samt áfram haldið. En nú án sérstakrar þóknunar til Samkeppniseftirlitsins frá ráðuneytinu fyrir verkið. Tilgangurinn skal þar helga meðalið, enda leggur ráðherra áherslu á að það sé „ríkur vilji þjóðarinnar til aukins gagnsæis“.

Að vera eða vera ekki tengdur

Umræðan um gagnsæi hverfist oftar en ekki um eignarhald í sjávarútvegi og tengda aðila. Eftirlit með reglum sem gilda um hámarkshlutdeild og tengda aðila er á hendi Fiskistofu. Við eftirlitið nýtir Fiskistofa upplýsingar frá fyrirtækjunum sjálfum og úr fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra, en þær upplýsingar eru öllum aðgengilegar. Hlutaðeigandi upplýsingar eru reyndar orðnar enn ítarlegri en áður eftir nýlegar lagabreytingar, sem kveða á um skyldu til að upplýsa um raunverulega eigendur fyrirtækja. Hið sama gildir um upplýsingar úr ársreikningaskrá. Þær eru sömuleiðis öllum aðgengilegar.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu frá árinu 2019 kemur fram að Fiskistofa telur sig hafa uppfyllt eftirlitsskyldu sína með samþjöppun aflaheimilda. Þá kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti (nú matvælaráðuneyti) taldi að „engin sérstök vandkvæði [væru] hjá Fiskistofu að sinna eftirliti með samþjöppun skv. 13. gr. laga um stjórn fiskveiða“. Ráðuneytið bætti síðan við og sagði það vera „annað mál að skilgreining á 13. gr. á tengdum aðilum orki í það minnsta tvímælis“. Það er einmitt mergur málsins og er allt önnur umræða en tal um skort á gagnsæi.

Fyrirtæki í sjávarútvegi starfa í samræmi við þau lög sem gilda hverju sinni. Telji ráðherra að einstök ákvæði, líkt og um tengda aðila, nái ekki markmiðum sínum, þá er það á valdi Alþingis að breyta þeim. Skýrslur eftirlitsstofnana, líkt og Samkeppniseftirlitsins, eða ítrekuð greinaskrif um meint ógagnsæi breyta augljóslega engu um skilgreiningu laga á því hverjir skuli teljast tengdir aðilar.

Hagfelldur samanburður á gagnsæi

Það skal fullyrt að engin atvinnugrein á Íslandi sætir meira eftirliti og gagnsæi en sjávarútvegur, og eru þá upplýsingar um eignarhald í sjávarútvegi meðtaldar. Það má líka fullyrða, þótt engin vísindaleg athugun hafi verið á því gerð, að íslenskur sjávarútvegur er sá gagnsæjasti í heimi. Skýrar vísbendingar þessa má glögglega sjá ef skoðaðar eru upplýsingar á heimasíðum eftirlitsstjórnvalda í sjávarútvegi í Noregi, Færeyjum og á Grænlandi, til samanburðar við upplýsingar á vefsíðum eftirlitsaðila hér á landi. Það er því í ljósi umræðunnar ríkt tilefni til að svipta hulunni af því gagnsæi sem íslenskur sjávarútvegur sætir og stikla hér á stóru í þeim efnum.

Opinberar upplýsingar hjá Fiskistofu

Fyrir utan það sem hér að framan er rakið um hlutverk Fiskistofu, þá fer sú stofnun með ríkt eftirlitshlutverk í sjávarútvegi um margt fleira en eignarhald í sjávarútvegi. Raunar er það svo að fiskiskip og útgerðir geta sig nánast hvergi hreyft án þess að Fiskistofa hafi af því veður. Afar strangar reglur gilda til að mynda um tilkynningar til Fiskistofu um landanir og afla, sem allt er aðgengilegt í rauntíma á gagnasíðum Fiskistofu. Þar má meðal annars sjá allar upplýsingar um hlutdeildir, úthlutanir, veiðileyfi eftir tegundum, aflamark, viðskipti með aflamark, landanir og aflastöður, tegundatilfærslur, flutning á milli ára, umframveiði o.s.frv., allt saman sundurgreint eftir árum, útgerðum, skipum, löndunarhöfnum, tegundum o.fl.

Raunar eru þessi gögn það ítarleg og gagnsæ að til eru dæmi um að samningsstaða íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hafi verið skert gagnvart erlendum kaupendum sem nýta sér þessar upplýsingar óspart. Þá er það staðreynd að áhugamenn um tölfræðigögn leika sér með þessar upplýsingar og birta á vefsvæðum ítarefni um vinnslu íslenskra sjávarafurða, nýtingarhlutföll o.fl. Það eru án efa gögn sem erlendir kaupendur íslenskra sjávarafurða geta hagnýtt sér. Einnig er vert að nefna að stjórnvaldsákvarðanir Fiskistofu eru birtar á heimasíðu stofnunarinnar í því augnamiði að stuðla að gagnsæi, auka fyrirsjáanleika og veita tilhlýðilegt aðhald. Til viðbótar má síðan nefna allt það eftirlit og gagnsæi sem leiðir af eftirliti, leyfisveitingum og stjórnvaldsákvörðunum í starfsemi Samgöngustofu, Verðlagsstofu skiptaverðs og Landhelgisgæslu Íslands, og óþarft er að tíunda hér frekar.

Opinberar upplýsingar hjá Hagstofu

Hagstofan birtir einnig ótal upplýsingar um sjávarútveg. Þar er birt mánaðarlega tölfræði um magn, verðmæti og ráðstöfun afla byggt á gögnum frá Fiskistofu. Hagstofa uppfærir einnig reglulega tölur yfir útflutning sjávarafurða sem byggja á tollskýrslum. Tölfræði um afkomu sjávarútvegs er uppfærð árlega og byggir á rekstrarframtölum fyrirtækja ásamt beinni gagnasöfnun frá stærstu sjávarútvegs­fyrirtækjum landsins. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa átt gott samstarf við Hagstofu um að bæta enn frekar áreiðanleika upplýsinga, með átaki í að fjölga þeim fyrirtækjum sem skila gögnum til stofnunarinnar. Það hefur gengið vel.

Opinberar upplýsingar skráðra fyrirtækja í kauphöll

Í umræðu um gagnsæi er einnig vert að líta til skráninga sjávarútvegsfyrirtækja á hlutabréfamarkað. Nú þegar eru tvö stór sjávarútvegsfyrirtæki á markaði, Brim hf. og Síldarvinnslan hf., og er stefnt að skráningu Ísfélags hf. á næstu misserum. Með skráningu í kauphöll, hvort sem er á aðalmarkað eða hliðarmarkaðinn First North, undirgangast fyrirtæki umtalsverðar gagnsæiskröfur, bæði við skráningu og ekki síður viðvarandi upplýsingagjöf á markaði, allt í samræmi við strangar reglur þar að lútandi.

Birting upplýsinga að frumkvæði atvinnugreinarinnar

Þá höfum við hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi lagt lóð á vogarskálar aukins gagnsæis í sjávarútvegi með útgáfu Radarsins, mælaborðs í sjávarútvegi. Þar má finna mikið magn upplýsinga, sem byggja á opinberum gögnum og upplýsingum, m.a. frá Hagstofunni og Seðlabanka Íslands, auk fréttasafns þar sem birtar eru og greindar nýjustu tölur í sjávarútvegi hverju sinni.

Í lok árs 2020 komu fyrirtæki innan vébanda Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sér aukinheldur saman um stefnu í samfélagsábyrgð. Þau fyrirtæki sem hafa undirritað stefnuna birta eftirleiðis ófjárhagslegar upplýsingar um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti, þar sem stuðst er við alþjóðlega viðurkennd viðmið. Ábyrg og góð umgengni um náttúruna er skilyrði fyrir því að fiskistofnar við Ísland verði áfram nýttir með sjálfbærum hætti. Umhverfismál skipa af þeim sökum stóran sess í stefnunni. Þar eru einnig birtar upplýsingar um skattspor, hvar skattar eru greiddir og viðskipti við tengda aðila. Þar má líka finna upplýsingar um eignarhald fyrirtækja og stjórnendur. Þess má geta að stór hluti félagsmanna hefur þegar skrifað undir stefnuna og starfa í samræmi við hana.

Þá verður ekki framhjá því komist að nefna Sjávarútvegsdaginn, sem var haldinn í tíunda sinn í byrjun mánaðar, og er árlegur viðburður í samstarfi SFS, SA og Deloitte. Mér er ekki kunnugt um að aðrar atvinnugreinar en sjávarútvegur, boði til sérstaks fundar árlega til þess að upplýsa um afkomu, rekstur og fjárhagslega stöðu í hlutaðeigandi greinum frá einu ári til annars.

Er markmiðið kannski að ala á vantrausti?

Gagnsæi er að sönnu mikilvægt. Gagnsæi er forsenda trausts. En það skal viðurkennt, að það er afar óljóst af lestri fjölda greina sem matvælaráðherra hefur ritað um gagnsæi og traust í sjávarútvegi, hvað það er nákvæmlega sem á skortir af opinberum upplýsingum um sjávarútveg. Engin atvinnugrein, hvort heldur hér á landi eða á hinum alþjóðlega vettvangi sjávarútvegs, hefur jafn mikið magn upplýsinga aðgengilegt hverjum þeim sem vill afla sér frekari þekkingar.  

Kapp er best með forsjá, eins og sagt er. Það hefði ráðherra gjarnan mátt hugleiða áður en hún staðhæfði í nýjustu grein sinni að atvinnugreinin stæði vörð um leynd. Ekkert er fjær lagi, en kappið um að ala á vantrausti í garð atvinnulífs virðist hafa byrgt ráðherra sýn. Vel kann að vera, að á hinu pólitíska sviði sé svona málflutningur hefðbundinn. Hann skilar hins vegar engu í þeim raunveruleika sem snýst um að skapa verðmæti og störf fyrir þjóðarhag. Og hann skilar sannanlega engri sátt.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. október 2023