11. júní 2025

J.H. Jessen og allt hitt

Sexæringurinn Stanley mun hafa verið fyrsti fiskibáturinn sem var vélvæddur á Íslandi. Hann var sjósettur árið 1902 í Hnífsdal. Sá sem setti vélina í bátinn mun hafa verið J.H. Jessen nokkur frá Esbjerg í Danmörku, þá ungur að árum. Hann lét ekki þar við sitja, heldur stofnaði vélaverkstæði á Ísafirði ári síðar. Segir í Ægi frá árinu 2004 að Jessen hafi stofnað hana í samvinnu við útgerðarmenn á staðnum og hann hafi í raun gerst lærifaðir fyrstu íslensku vélstjóranna.

Langtímafjárfestingar og fullvinnsla

Þessi litla frásögn um J.H. Jessen og vélaverkstæðið hefur örlitla skírskotun til samtímans, því hin ýmsu fyrirtæki hafa í gegnum tíðina orðið til vegna þjónustu við sjávarútveg. Önnur hafa þrifist vegna hans. Þessa má sjá stað víða um land og nokkur þessara fyrirtækja hafa náð umtalsverðum árangri á alþjóðlegum vettvangi og verið góður vitnisburður um íslenskt hand- og hugverk. Þannig hefur sjávarauðlindin í raun skapað miklu meiri verðmæti en ætla mætti við fyrstu sýn. Ein ástæða þess að sjávarútvegurinn er í færum til að kaupa nýjustu tækni og styðja við bakið á nýsköpun er það kerfi sem viðhaft hefur verið á Íslandi undanfarna áratugi. Varanleiki aflaheimilda og frjálst framsal hvetja til langtímafjárfestinga og samþætting veiða og vinnslu hvetur til frekari vinnslu afurða. Þetta er það sem gerir íslenskan sjávarútveg einstakan.

Erfið vegferð en árangursrík

Kvótakerfið varð þess valdandi að greinin sjálf hagræddi. Óarðbær fyrirtæki voru keypt af öðrum og þannig efldist sjávarútvegurinn. Margir töldu sig hafa misst spón úr sínum aski á þessari vegferð og skal ekki gert lítið úr því; þetta var á köflum sársaukafullt. Það er þó hafið yfir vafa að ástæða þess að sjávarútvegur á Íslandi getur greitt sérstakan skatt (veiðigjald) er að greinin hefur hagrætt og náð einstökum árangri á heimsvísu. Rétt er að hafa í huga að íslenskir sjómenn og fiskvinnslufólk er það launahæsta í heimi og engri þjóð tekst að gera eins mikil verðmæti úr afla og Íslendingum.

Málning tekur að flagna

Fyrirhuguð tvöföldun á veiðigjaldi mun setja þetta í uppnám. Fyrirtækin munu ekki geta fjárfest af sama krafti og af þeirri nauðsyn sem vissulega er til staðar svo þau geti staðist samkeppni á alþjóðlegum markaði, þar sem 98% af íslensku sjávarfangi eru seld. Fjölmörg sveitarfélög og fyrirtæki í sjávarútvegi, iðnaði, tækni og nýsköpun hafa á undanförnum vikum reynt að draga þessa staðreynd fram og varað stjórnvöld við henni. Svo virðist sem stjórnvöld hafi ekki gert sér fyllilega grein fyrir afleiðingunum og ekkert mat verið lagt fram í þeim efnum.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi Kerecis, benti einmitt á þetta í erindi sem hann flutti í Vestmannaeyjum í liðinni viku. Þar benti hann á að yfirvofandi ofurskattlagning á sjávarútveg þýddi minni fjárfestingar. Málning flagnaði af fiskvinnsluhúsum, ryð kæmi í skipaflotann, ný skip væru ekki keypt, engar nýjar vinnslulínur þróaðar, engin stórvæg innkaup yrðu hjá vélsmiðjum og engar áhættufjárfestingar leituðu í sprota eins og Kerecis var fyrir 15 árum síðan. Eðli máls samkvæmt hafa þeir áhyggjur sem tengjast þessari starfsemi allri, beint og óbeint.

Gjaldtaka fóstrar ekki verðmætasköpun

Það er óvíst hvort J.H. Jessen hefði lagt í það að setja upp vélaverkstæði á Ísafirði í byrjun 20. aldar, með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á samfélagið, ef fyrir hefði legið að stjórnvöld ætluðu sér að skattleggja fiskveiðina með þeim hætti sem nú stendur til. Sennilega ekki. Nú á tímum nýsköpunar verður mun erfiðara að fá sjávarútveginn til samstarfs eftir tvöföldun á veiðigjaldi. Það verður einfaldlega ekki borð fyrir báru. Málið snýst ekki bara um það hvað sjávarútvegurinn getur borgað, heldur miklu frekar hvað annað hangir á spýtunni. Það er nauðsynlegt að ræða það af sæmilegri yfirvegun. Viljum við ekki öll eygja von um fleiri brimbrjóta verðmætasköpunar eins og Kerecis?

Heiðrún Lind Marteinsdóttir
framkvæmdastjóri SFS

Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum 11. apríl 2025