1. október 2020

Jákvæð áhrif fiskeldis á nærumhverfi

Umsvif í fiskeldi hafa aukist verulega á undanförnum árum og er greinin ein af fáum útflutningsgreinum sem eru í vexti um þessar mundir.

Umsvif í fiskeldi hafa aukist verulega á undanförnum árum og er greinin ein af fáum útflutningsgreinum sem eru í vexti um þessar mundir. Hefur vægi greinarinnar í útflutningstekjum þjóðarbúsins aukist nær stöðugt síðasta áratuginn. Miðað við útflutningsverðmæti sjávarafurða voru eldisafurðir komnar í tæp 10% en miðað við verðmæti vöruútflutnings alls var verðmæti þeirra rúm 4%. Miðað við áætlanir fiskeldisfyrirtækja eru horfur á enn frekari aukningu í framleiðslu á eldisfiski á næstu árum. Er því óhætt að segja að hér sé að verða til öflugur grunnatvinnuvegur, þótt fiskeldi eigi sér vissulega lengri sögu en svo.

En hvað er átt við þegar talað er um grunnatvinnuveg og er óhætt að skilgreina fiskeldið sem svo? Grunnatvinnuvegur er atvinnuvegur sem hefur meiri efnahagslega þýðingu á tilteknu svæði en umfang hans, eitt og sér, gefur til kynna. Aðrir atvinnuvegir eru háðir starfsemi hans, en hann ekki háður starfsemi þeirra, að minnsta kosti ekki í eins miklum mæli. Þessi skilgreining á vel við um fiskeldi og eru áhrif greinarinnar mikil á ákveðnum stöðum á landinu, eins og á Vestfjörðum og Austurlandi. Þar hefur atvinnulíf orðið fjölbreyttara, fólki fjölgað og aukið líf færst í fasteignamarkaðinn svo fátt eitt sé nefnt. Þetta má rekja beint til aukinna umsvifa starfseminnar sjálfrar og óbeint til afleiddra áhrifa sem eldið hefur á aðrar atvinnugreinar. Þessi áhrif eru augljós í Vesturbyggð eins og fram kom í nýlegu erindi sem Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, hélt á Sjávarútvegsdeginum 2020; Áhrif fiskeldis á nærumhverfið.

Erlend fjárfesting hjálpar til
Fiskeldi hefur vissulega ekki átt upp á pallborðið hjá öllum Íslendingum. Hefur gagnrýnin meðal annars snúist um að því fylgi aðeins örfá láglaunastörf erlends vinnuafls og að fyrirtækin séu í eigu útlendinga. Einnig hefur því verið haldið fram að vegna eignarhaldsins skilji hún ekkert eftir sig hér á landi. Miðað við það sem að framan greinir er nokkuð augljóst að svo er ekki, og öðru nær. Starfseminni fylgja bæði bein og óbein störf sem eru fjölbreytt og hafa haft veruleg áhrif á byggðakjarna á Austurlandi og Vestfjörðum, byggjakjarna sem hafa átt undir högg að sækja. Fyrirtækin eru íslensk, þó að sum þeirra séu í meirihlutaeigu erlendra aðila og nú þegar eru tvö af sjóeldisfyrirtækjunum hér við land á hlutabréfamarkaði. Benda má á að erlend fjárfesting getur átt þátt í að dreifa fjárhagslegri áhættu af innlendri atvinnuuppbygginu sem er vissulega af hinu góða. Að íslensku fiskeldi hafa jafnframt komið fagaðilar, sem ekki hafa einungis sett fjármagn í uppbyggingu heldur einnig miðað af reynslu sinni og þekkingu til uppbyggingar greinarinnar. Fiskeldi er enn í uppbyggingarfasa og hvernig tekst til mun skipta miklu máli fyrir þau byggðarlög sem á það treysta. Vitaskuld hefur greinin einnig jákvæð áhrif á útflutningstekjur og treystir þar með gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Ber því að taka því fagnandi að fjárfestar, hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir, sjái tækifæri í því að fjárfesta í fiskeldi hér á landi.