6. febrúar 2024

Kjarasamningar við Sjómannasamband Íslands undirritaðir

Sjómannasamband Íslands (SSÍ) og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa undirritað kjarasamning. Megininntak samningsins lýtur að betri kjörum og réttindum til framtíðar, auk hnitmiðaðra aðgerða til að auka traust við skipti á verðmætum úr sjó. Greiðslur í lífeyrissjóð og kauptrygging hækka í samræmi við samninga á almennum vinnumarkaði, auk þess sem áhersla er lögð á aukið gagnsæi og upplýsingagjöf vegna fiskverðsmála.

Félagsmenn SSÍ felldu kjarasamning við SFS í febrúar 2023, en frá þeim tíma hafa viðræður staðið yfir um gerð nýs samnings. Breytingar frá þeim samningi sem felldur var eru helstar þær, að verulega hefur verið aukið við svigrúm til uppsagnar kjarasamnings aðila, skerpt hefur verið á réttarstöðu í tengslum við slysa- og veikindarétt þeirra sem ráðnir eru með tímabundinni ráðningu og horfið hefur verið frá skipan gerðardóms við úrlausn mögulegra breytinga á skiptaprósentu ef ný tækni eða nýjar veiði- og verkunaraðferðir eru fyrirsjáanlegar. Desemberuppbót, sem ekki hefur tíðkast í hlutaskiptakerfi, verður tekin upp frá árinu 2028 og sjómenn fá greidda eingreiðslu 1. mars nk. að fjárhæð 400.000 kr., miðað við 160 lögskráningardaga á sl. ári.

„Sá kjarasamningur sem nú er undirritaður felur sannanlega í sér töluvert meiri kostnað fyrir sjávarútvegsfyrirtæki en áður var ráð fyrir gert. Samningurinn er því ekki án áskorana og vafalaust munu félagsmenn SFS hafa á honum ólíkar skoðanir. Á heildina litið vona ég þó að aðilar beggja megin borðsins sjái samning þennan sem jákvætt skref í þeirri vegferð að tryggja sameiginlega hagsmuni sjómanna og fyrirtækjanna. Festa og fyrirsjáanleiki í kjaramálum eru til þess fallin að skapa skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar. Meira verður þar með til skiptanna fyrir öll sem starfa á grundvelli þessa kjarasamnings.“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.