8. mars 2023

Lax eða pizza?

Ég held að ég sé í sömu stöðu og margir sem vinna mikið, að stundum getur verið gott að losna við eldamennsku og panta bara pizzu. Svona annað slagið. Það er einfalt, fljótlegt og öruggt. Oft vel ég Dominos því þar veit ég að hverju ég geng. Af hverju í ósköpunum ætli ég sé að segja ykkur frá þessu? Jú, vegna þess að aftur og aftur höfum við fengið að heyra að heil atvinnugrein, sem stendur undir mikilli verðmætasköpun, sé með færri starfsmenn en pizzafyrirtæki í Reykjavík. Hér er verið að tala um sjókvíaeldið. Þeir sem hafa vakið máls á þessu eru talsmenn tveggja hagsmunafélaga veiðiréttarhafa sem kalla sig náttúruverndarsamtök. 

Þessu er því miður reglulega slengt fram um sjókvíaeldið til að reyna að sýna fram á hversu ómerkileg grein þetta er og nánast baggi á þjóðinni. Ég er ekki viss um að það hafi tekist. En svona til að taka af allan vafa, er líklega best að nota merkilegt fyrirbæri sem kallað er ársreikningar. Ársreikningar vegna ársins 2021 liggja fyrir og fljótlega getum við líka gert það fyrir 2022. Þá verður niðurstaðan örugglega sú sama. Ef teknir eru ársreikningar fjögurra stærstu fyrirtækja landsins ísjókvíaeldi kemur í ljós að þar eru 310 stöðugildi þar sem starfsmenn fá að meðaltali 887 þúsund krónur í laun á mánuði. Samkvæmt ársreikningi Dominos eru þar 262 starfsmenn með 627 þúsund krónur í laun á mánuði. Þetta segir reyndar ekki alla söguna því heildarlaunagreiðslur þessara fjögurra fyrirtækja í sjókvíaeldi árið 2021 voru 3.297 milljónir króna, borið saman við 1.972 milljónir króna hjá Dominos. Niðurstaðan er sem sagt sú að störf hjá þessum fjórum fyrirtækjum í sjókvíaeldi eru 18% fleiri en hjá Dominos, mánaðarlaun 41% hærri og heildarlaun 67% hærri. Getum við núna hætt að tala um þetta? 

Sjókvíaeldinu hefur einnig fylgt mikið af afleiddum störfum. Þessi atvinnugrein þarf mikla þjónustu og kaupir mikla vinnu í nærumhverfi sínu. Það er ekki reiknað inn í þessar tölur, þótt færa mætti rök fyrir því að slíkir reikningar ættu vel heima í þessum samanburði. Þannig heyrðum við líka fréttir í síðustu viku um fjölda bílstjóra sem hefðu fengið vinnu við að flytja aflann og stór fyrirtæki sem hefðu tekið það að sér að sjá um pökkun. Allt eru þetta störf sem teljast ekki með í þeim tölum sem koma fram hér að ofan. 

En þetta er bara byrjunin. Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, kynnti í síðustu viku skýrslu Boston Consulting Group um lagareldi, en undir það hugtak fellur allt eldi í sjó og vatni. Þetta er áhugaverð skýrsla, unnin af þekktu alþjóðlegu fyrirtæki. En það fór ekki mikið fyrir henni í umræðunni. Grunnspá skýrslunnar er sú, að eftir níu ár muni lagareldi á Íslandi standa undir 6 prósentum af vergri landsframleiðslu Íslendinga. Árið 2032 er gert ráð fyrir því að bein störf við lagareldi verði 7 þúsund og samtals muni 12 þúsund einstaklingar starfa við lagareldi eða hafa atvinnu sem greinin skapar. Það skiptir ekki síður máli hvar störfin verða til. Sjókvíaeldið hefur fært störf í byggðir sem þurftu nauðsynlega á þeim að halda. Þannig höfum við til dæmis séð fréttir af því að á Bíldudal er verið að byggja fyrsta fjölbýlishúsið í tæpa hálfa öld. Þar hefur íbúum fjölgað og bærinn hefur aftur fengið tækifæri til að vaxa. 

Og í þessu öllu felast góðar fréttir fyrir alla. Dominos rekur 22 staði. Flesta þeirra á höfuðborgarsvæðinu en líka Reykjanesbæ, Selfossi, Akranesi og Akureyri. Ef sjókvíaeldi fær frið til að halda áfram að vaxa og dafna og starfsmönnum heldur áfram að fjölga er aldrei að vita nema Dominos opni á fleiri stöðum. Til dæmis á Bíldudal og Eskifirði. 

Heiðrún Lind Marteinsdóttir
Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi 
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8.mars 2023