28. mars 2023

Loðnan: 1.800 milljónir í veiðigjöld

Það má heita með ólíkindum hversu vel íslenskum uppsjávarfyrirtækjum hefur tekist með loðnuveiðar á undanförnum vikum. Eins og flestum er kunnugt urðu miklar vendingar í loðnuráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í febrúar. Í byrjun mánaðarins jók stofnunin loðnuráðgjöf sína um rúm 57 þúsund tonn og svo aftur undir lok mánaðarins um önnur 184 þúsund tonn. Fyrir þessa aukningu var hlutur íslenskra skipa 132 þúsund tonn en eftir hana var hann kominn í rúm 312 þúsund tonn. Þar við bættist sérstök úthlutun upp á rúm 17 þúsund tonn og var leyfilegur hámarksafli íslenskra skipa þar með kominn í rúm 329 þúsund tonn. Þessi aukning leiddi því til þess að öll uppsjávarfyrirtækin urðu að endurskipuleggja starfsemi sína í einu vetfangi, enda afar knappur tími til stefnu þar sem verðmætasti hluti loðnuvertíðarinnar var handan við hornið.

Samkvæmt tölum frá Fiskistofu hafa íslensku uppsjávarskipin náð að landa um 318 þúsund tonnum það sem af er loðnuvertíðinni. Það er ríflega 96% af loðnukvótanum. Þó er líklegt að eitthvað bætist við tölur Fiskistofu á næstu dögum og jafnvel að loðnukvótinn sé nú þegar í höfn. Þannig eru landanir ekki birtar fyrr en vigtun er lokið, sem getur tekið nokkra daga að skila sér á vef Fiskistofu. Hvað sem því líður er ekki hægt að segja annað en að þessi árangur sé hreint út sagt ótrúlegur!

Veiðigjald siglir fram úr áætlun

Ofangreindur árangur er svo sannanlega ekki sjálfgefinn. Hann má rekja til þrautseigju og áræðni stjórnenda og starfsmanna fyrirtækjanna, sem hafa unnið myrkranna á milli undanfarnar vikur. Áætlað er að loðnuvertíðin muni skila í kringum 40 milljörðum króna í útflutningstekjur. Jafnframt er ljóst að þetta mun hafa veruleg áhrif á atvinnutekjur starfsmanna, þjónustufyrirtækja og þar með á tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga. Ekki má heldur gleyma hinu augljósa, það er áhrif sem þetta hefur á tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi. Nú má reikna með að veiðigjald verði 1 milljarði króna umfram það sem þau voru áætluð í fjárlögum, að öðru óbreyttu.  

Í fjárlögum var reiknað með að tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi yrðu 8,6 milljarðar króna í ár. Útreikningur þess var meðal annars byggður á þeirri forsendu að loðnukvótinn á yfirstandandi fiskveiðiári yrði um 132 þúsund tonn, eins og hann var áður en ráðgjöfin var aukin. Greiða þarf um 5,54 krónur fyrir hvert kíló af loðnu, sem er hæsta fjárhæð í veiðigjald frá upphafi á loðnu. Jafngildir þessi 132 þúsund tonna kvóti því 730 milljónum krónum í veiðigjald af loðnuveiðum. Eins og áður segir er loðnuaflinn nú þegar kominn í tæp 318 þúsund tonn og líklegt er að hann verði nær þessum 329 þúsund tonnum þegar allt hefur skilað sér. Það þýðir jafnframt að loðnuveiðar munu á endanum skila um 1.800 milljónum króna í veiðigjald. Það þýðir jafnframt að tekjur ríkissjóðs verði nær 9,7 milljörðum krónum af veiðigjaldi í ár, að öðru óbreyttu. Það munar um minna!