9. desember 2025

Og svo var reiknað …

Fiskistofa birti á föstudag útreikning á meðalverði á helstu fisktegundum sem hækkun veiðigjalds beinist einkum að; þorskur, ýsa, síld, kolmunni og makríll. Ráðherra birti sama dag auglýsingu um upphæð veiðigjalds næsta árs sem miðast við krónur á hvert kíló. Skilningur ráðamanna er sá að með stórhækkuðu veiðigjaldi sé verið að „leiðrétta“ verð og því er brýnt að kanna hvort sú meinta leiðrétting hafi átt sér stað. Áður en hægt er að meta hækkunina að fullu samkvæmt nýju lögunum verður þó Skatturinn að opinbera hvert veiðigjaldið hefði orðið samkvæmt eldri lögum. Slík upplýsingagjöf er forsenda gagnsæis og ábyrgrar stjórnsýslu.

Skammgóður vermir

Í auglýsingu ráðherra um veiðigjald var hvergi getið að þar gætti áhrifa bráðabirgðaákvæðis sem kveður á um að veiðigjald á þorsk, ýsu, síld, kolmunna og makríl skuli miðast við 85% af reiknaðri fjárhæð gjaldsins á næsta ári. Hlutfallið fer upp í 95% á árinu 2027 og 100% eftir það. Þetta var gert að tillögu Skattsins við lokameðferð málsins á Alþingi í sumar.

Á næsta ári verður veiðigjald á hvert kíló af óslægðum þorski 50,79 krónur og á ýsu 22,92 krónur. Án þessa bráðabirgðaákvæðis hefði veiðigjaldið hins vegar orðið 59,75 krónur á kíló fyrir þorsk og 26,96 krónur fyrir ýsu. Sama gildir um síld, kolmunna og makríl. Miðað við 85% af fjárhæð veiðigjalds verður gjaldið 4,37 krónur á síld, 2,31 króna á kolmunna og 26,17 krónur á makríl. Ef miðað væri við 100% væri veiðigjaldið 5,14 krónur á síld, 2,72 krónur á kolmunna og 30,79 krónur á makríl.

Forsendur sem leiða til kerfisbundins ofmats

Samkvæmt Fiskistofu var meðalverð á hvert kíló af þorski 448 krónur og á ýsu 239 krónur á árinu 2024. Þessi verð leggur Skatturinn til grundvallar í útreikningum sínum á veiðigjaldi fyrir árið 2026. 

Fiskistofa styðst í útreikningum sínum á meðalverði eingöngu við samsetningu slægðs og óslægðs afla á markaði en ekki samsetningu afla í heild. Meðalverð verður hins vegar aldrei rétt reiknað með því að nota aðeins hluta þess afla sem landað er. Þessu má líkja við að draga ályktanir um meðallaun landsins út frá meðallaunum í Garðabæ; slíkt úrtak er ekki lýsandi fyrir heildina og getur því ekki skilað réttri niðurstöðu.

Um 80% af þorski er landað óslægðum á markaði en innan við þriðjungur sé litið til þorskaflans í heild. Samsetningin er því gjörólík. Hið sama á við um ýsu, þótt munurinn þar sé minni. Þetta skiptir verulegu máli, því verð á óslægðum fiski er almennt töluvert hærra en á slægðum. Ástæðan er meðal annars sú að fiskur sem landað er óslægðum er yfirleitt nýrri sem leiðir til hærra verðs. Jafnframt er að jafnaði hærra hlutfalli af stærri fiski landað óslægðum, kílóverð hans er að jafnaði hærra en af minni fiski.

Óslægður afli fær mun meira vægi í útreikningum Fiskistofu en hann ætti að gera með réttu, því ekki er miðað við aflann í heild. Aðferðafræði Fiskistofu leiðir því til þess að verð á þorski og ýsu verður kerfisbundið ofmetið. Hér fyrir neðan má sjá áhrifin á meðalverð á þorski:

Samsetning á markaði: 82% 460 kr. + 18% 389 kr. = 448 kr.
Samsetning m.v. heild: 32% 460 kr. + 68% 389 kr. = 412 kr.

Hér munar heilum 36 krónum og það leiðir augljóslega til hærra veiðigjalds eins og sést á töflunni hér að neðan.

Gjaldtaka fyrir þorsk og ýsu verður, eins og áður segir, 85% á næsta ári. Áhrifin af því að miða við rangar forsendur um samsetningu aflans eru þau, að gjaldið verður 10 krónum hærra en það ætti að vera á hvert kíló af þorski og tæplega fjórar krónur fyrir kílóið af ýsu. Hér er rétt að staldra við og spyrja hvað það er sem réttlætir aukaálag upp á 20-25% sem verður einungis til vegna rangra útreikninga á meðalverði? Að þessu þarf löggjafinn að huga.

Ótækt að miða við norsk verð

Fiskistofa hefur einnig gefið út verð á kíló af uppsjávarfiski sem veiðigjald skal miðast við. Það er 92,91 króna á síld, 46,07 krónur fyrir kolmunna og 180,08 á makríl. Fiskistofu er gert, samkvæmt lögum, að miða við verð á þessum tegundum í Noregi. Stjórnvöld hér á landi segja það vera „heimsmarkaðsverð“. Það er rangt, því það er ekkert til sem heitir „heimsmarkaðsverð“, hvorki á þessum tegundum né neinum öðrum fiski, en fram hjá því kjósa stjórnvöld að líta.

Ótækt er að miða skattlagningu á Íslandi við verðlagningu í öðru landi, sem býr við allt annað kerfi og fyrirkomulag. Þar er verðmyndunin mótuð af einokunarstöðu Norges Sildesalgslag, sölusamtaka í eigu norskra útgerða sem fara með alla fyrstu sölu. Slíkt fyrirkomulag skapar augljósa hvata til að halda verðum hærri en raunhæft væri á frjálsum markaði. Þá er til dæmis makríll sem veiddur er í norskri lögsögu af allt öðrum gæðum en sá íslenski. Um það er ekki deilt. Norskar vinnslur myndu aldrei kaupa íslenskan makríl á því verði sem er til grundvallar við útreikning veiðigjaldsins, það er óumdeilt.

Hér ber því allt að sama brunni, hvort sem um er að ræða veiðigjalda á botnfisk eða uppsjávarfisk. Þótt mikið liggi við að ná krónum í ríkiskassann er mikilvægt að Alþingi vandi í hvívetna til allrar lagasetningar og bregðist við þegar breytingar reynast í ósamræmi við upphafleg markmið.