24. janúar 2023

Sigurvegarar Vitans á leið til Boston

Vitinn, hugmyndasamkeppni sjávarútvegsins, var haldin fyrir nemendur Háskólans í Reykjavík dagana 19.-21. janúar. Keppnin er samstarfsverkefni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og HR með dyggum stuðningi Icelandair Cargo. Þetta er í sjöunda sinn sem keppnin er haldin en í ár unnu keppendur að lausnum og þróun fyrir Síldarvinnsluna.

Keppnin í ár var einstaklega hörð þar sem öll lið komu fram með góðar hugmyndir og ríkti mikil ánægja hjá dómnefnd með afrakstur nemenda sem komu úr flestum deildum HR. Vinningsliðið í ár er skipað þeim Jakobi Frey Sveinssyni, Hákoni Hákonarssyni, Sæþóri Orrasyni, Birgittu Rós Ásgrímsdóttur og Pedro Þór Roismann Guðmundssyni. Sneri verkefni þeirra að síldarvinnslu og síldarafurðum á Bandaríkjamarkaði. Sigurvegarar Vitans fara fyrir hönd HR á Sjávarútvegssýninguna í Boston nú í vor og heimsækja einnig Síldarvinnsluna á Neskaupsstað.

Keppendur-mynd
Keppnin í ár var einstaklega hörð en hér sést vinningsliðið í ár, MAR, taka við verðlaunum.  

Keppendur-mynd
Keppendur ásamt forsvarsfólki samstarfs fyrirtækja og Bryndísi Björk Ásgeirsdóttur, sviðsforseta samfélagssviðs.