2. október 2023

Sínum augum lítur hver á silfrið

Um nokkurt skeið hefur matvælaráðherra farið fyrir vinnu undir heitinu Auðlindin okkar. Markmiðið var það helst að skapa aukna sátt um sjávarútveg. Ráðherra hefur orðið tíðrætt um ágæti þessarar vinnu. Og þá einkum að ferlið hafi einkennst af miklu samráði og gagnsæi; verið faglegt.

Þótt sínum augum líti hver á silfrið, er augljóst að flestir hagaðilar í sjávarútvegi eru ráðherra ósammála. Öll stéttarfélög sjómanna og landvinnslufólks, auk hagsmunasamtaka í útgerð hafa fært gagnrýni sína á ferlið til sameiginlegrar bókunar: Starfsgreinasamband Íslands, Félag skipstjórnarmanna, Sjómannasamband Íslands, VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök smærri útgerða. Þá sögðu Landssamband smábátasjómanna, Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda og Strandveiðifélag Íslands sig frá samráði á fyrri stigum vegna óánægju með ferlið. Þrátt fyrir að allir þessir aðilar séu ólíkir og hafi ýmiss konar hagsmuni, þá eiga þeir það sameiginlegt að lífsviðurværi félagsmanna þeirra byggist á sjávarútvegi. Við mótun stefnu um framtíð atvinnugreinarinnar er ótækt að ráðherra hafi kosið að ljá þeim ekki rödd eða raunverulegt sæti við borðið.

Þá verður að beina sjónum að því hversu lítinn tíma ráðherra gefur sér í málum sem varða verulega hagsmuni fyrir einstaklinga, fyrirtæki, ríkissjóð og þjóðarhag. Í dæmaskyni má nefna verulegar breytingar á ráðstöfun aflaheimilda í byggðatengdum verkefnum annars vegar og gjaldtöku hins vegar. Breytingar á þessum tveimur þáttum og útfærsla þeirra lágu ekki fyrir í bráðabirgðatillögum og voru aldrei ræddar á vettvangi samráðsnefndar. Þær litu dagsins ljós í lokatillögum. Engin umræða hefur átt sér stað um þessar tillögur, engar greiningar liggja fyrir um kosti og galla og ekkert mat hefur farið fram á mögulegum áhrifum verði tillögurnar leiddar í lög. Með þessari framgöngu lítur ráðherra léttvægt á mjög flókin mál – og virðist ákveðin í að kollvarpa þeim í einu vetfangi. Og forvitnilegt væri að sjá greiningu ráðherra á hvaða áhrif tillögur hennar hafa á samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs á alþjóðlegum vettvangi þar sem 98% af íslensku sjávarfangi eru seld.

Það er göfugt markmið að vinna að aukinni samstöðu um framtíð sjávarútvegs. Til þess þurfti hins vegar samtal breiðs hóps hagaðila svo kortleggja mætti stöðu, tækifæri og áskoranir á uppbyggilegan máta. Og það þurfti að gefa sér tíma. Ef vel hefði til tekist hefði vinnan vafalaust dýpkað skilning á sameiginlegum hagsmunum sem uppbygging verðmæta felur í sér fyrir samfélagið í heild. Þetta mistókst ráðherra.

Stefna fyrir íslenskan sjávarútveg getur aldrei orðið stefna fárra. Og sátt um sjávarútveg er ekki í augsýn ef hagur heildarinnar er settur skör neðar en skammtímahagsmunir stjórnmálamanna eða -flokka.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS

*Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. september