7. desember 2023

Sjávarútvegurinn og íslenska krónan

Íslenska krónan er einn stærsti áhrifaþátturinn í rekstri íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Sjávarafurðir eru veiddar og unnar á Íslandi en um 98% sjávarafurðanna eru svo seldar úr landi á erlenda markaði, þar sem greitt er fyrir vöruna í erlendri mynt. Tekjurnar eru því í erlendri mynt á meðan kostnaður fyrirtækjanna er að stórum hluta í íslenskum krónum. Þetta skapar gengisáhættu, þar sem sveiflur í gengi íslensku krónunnar hafa bein áhrif á rekstrarafkomu fyrirtækjanna. Ef gengi íslensku krónunnar styrkist gagnvart erlendri mynt þýðir það verri afkomu – og áhrifin eru öfug ef gengi krónunnar veikist.

Það skiptir því miklu máli fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi að fjármagna sig í erlendri mynt. Það er leið til þess að draga úr gengisáhættu og gera afkomu fyrirtækjanna ögn stöðugri. Einhvers konar hömlur á slíka áhættustýringu væru jafnframt þjóðhagslega óskynsamlegar, því þær myndu auka áhættu í rekstri útflutningsgreina í heild sinni.

Sveiflur á gengi íslensku krónunnar hafa ekki bara áhrif á afkomu fyrirtækjanna heldur einnig á aflahlut sjómanna. Launakerfi sjómanna byggist á hlutaskiptum aflaverðmætis á milli sjómanna og útgerða, sem þýðir að sjómenn fá hlut í þeim verðmætum sem veiðast. Hlutur þeirra tekur þannig breytingum í samræmi við verðbreytingar á mörkuðum.

Á endanum er mikilvægt að huga að því að sterk afkoma íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja þýðir aukna fjárfestingu í greininni, aukna fjárfestingu í nýsköpun og nýrri tækni, umhverfisvænni nálgun á veiðar og vinnslu, ásamt stærri hluta til íslensku þjóðarinnar á grundvelli skatta og veiðigjalds sem eru hlutfall af afkomu fyrirtækjanna. Ekki má gleyma þeim grundvallarþætti að öflugur útflutningur er grundvöllur sjálfbærs hagvaxtar og lífskjarabóta hér á landi.

Á Íslandi í dag eru yfir 200 félög sem hafi fengið heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendri mynt, samkvæmt upplýsingum frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Í þeim hópi gætir ýmissa grasa, enda útflutningsatvinnugreinar fjölmargar á Íslandi. Sem dæmi má nefna álframleiðslu, hugbúnaðargerð, flutning rafmagns, lyfjaframleiðslu, framleiðslu á ilmvötnum og gosdrykkjum, veiðar, vinnsla og fiskeldi. Öll þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að starfrækslugjaldmiðill þeirra er erlendur.

Íslenskur sjávarútvegur er af augljósum ástæðum háður nálægð við sjávarauðlindina og því verður ekki breytt þrátt fyrir að gengi íslensku krónunnar kunni að þróast á verri veg fyrir atvinnugreinina. Sjávarútvegur þarf því að treysta á styrka efnahags- og peningamálastjórn hvað stöðu krónunnar varðar, rétt eins og önnur fyrirtæki og heimili landsins.

Lífskjör á Íslandi eru góð í öllum alþjóðlegum samanburði. Kröftugur útflutningur hefur þar lagt mikilvægt lóð á vogarskálar. Aukin útflutningsverðmæti og verðmætasköpun útflutningsatvinnuvega eru því nauðsynleg samfélaginu öllu ef tryggja á áframhaldandi hagsæld. Hvort útflutningsfyrirtæki geri upp í íslenskri eða erlendri mynt hefur ekkert með þetta framlag þeirra að gera. Uppgjör í erlendri mynt hefur fyrst og síðast þau jákvæðu áhrif að draga úr áhættu og stuðlar þannig að þjóðhagslega hagkvæmri niðurstöðu.