18. janúar 2024

Umsagnir SFS um frumvörp matvælaráðherra

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa sent stjórnvöldum umsagnir sínar um drög að frumvörpum annars vegar til laga um sjávarútveg og sjávarútvegsstefnu og hins vegar til laga um lagareldi ásamt fylgiskjali í gegnum samráðsgátt stjórnvalda. 

SFS stóðu einnig að sameiginlegri umsögn stéttarfélaga og samtaka sjávarútvegsfyrirtækja um drög að frumvarpi til laga um sjávarútveg. Niðurstaðan er eftirfarandi: Undirritaðir aðilar telja mikilvægt að vandað sé til allra breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu. Að virtum athugasemdum, bæði sameiginlegum og sjálfstæðum, er ekki unnt að mæla með því að það skjal sem hér er til samráðs verði lagt fyrir Alþingi sem frumvarp til þinglegrar meðferðar. Að umsögninni standa Félag skipstjórnarmanna, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Sjómannasamband Íslands, Starfsgreinasamband Íslands og Samtök smærri útgerða.

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um lagareldi

Hér má sjá samantekt helstu athugasemda SFS við drög að frumvarpi matvælaráðherra um lög um lagareldi:

Það er mat SFS, að þörf sé á endurskoðun löggjafar um lagareldi og óhætt er að taka undir meginmarkmið frumvarpsins um að skapa ber lagareldi á Íslandi skilyrði til verðmætasköpunar innan ramma sjálfbærrar nýtingar. Það skal og tekið fram í upphafi að samtökin taka jafnframt undir mörg nýmæli frumvarpsins, t.a.m. áform sem lúta að því að auka sveigjanleika framleiðsluheimilda með innleiðingu laxahlutar. Jafnframt eru stigin jákvæð skref í átt að því að einfalda ferla til forvarna og viðbragða gegn lús og fagna má þeirri auknu áherslu sem lögð er á smitvarnir og dýravelferð.

Þá hafa samtökin löngum gagnrýnt að núgildandi lagaákvæði um fiskeldi séu einkum sett fram með þarfir sjókvíaeldis í huga og nái illa utan um sérstöðu landeldis, t.d. þegar kemur að leyfisveitingum, eftirliti og dýravelferð. Ber því að fagna því að í frumvarpinu skuli í fyrsta sinn sjá þess stað, að gæta eigi að sérstöðu landeldis í íslenskri löggjöf. Allt eru þetta dæmi um jákvæð og mikilvæg skref í átt að því að stuðla að ábyrgri uppbyggingu lagareldis.

Á hinn bóginn telja samtökin að sú heildstæða umgjörð sem að öðru leyti er boðuð í frumvarpinu sé ekki til fallin að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Að mati samtakanna skapar frumvarpið óvissu og raskar rekstrarstöðugleika fiskeldisfyrirtækja óhóflega, ásamt því að skaða samkeppnishæfni þeirra í alþjóðlegu tilliti. Má því ljóst vera að frumvarpið stríðir gegn því markmiði að skapa skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar lagareldis og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu. Áður en þetta frumvarp getur orðið að lögum er því nauðsynlegt að gerðar verði á því nokkuð umfangsmiklar og mikilvægar lagfæringar, bæði að því er varðar efnis- og formreglur. Þær lagfæringar, sem samtökin leggja til, eru það margvíslegar að tæpast er raunhæft að þær verði gerðar við þinglega meðferð frumvarpsins. Samtökin leggjast því gegn því að frumvarpið verði lagt til þinglegrar meðferðar í núverandi mynd en lýsa sig jafnframt reiðubúin til áframhaldandi samvinnu á grunni þessi.

Samnantekið lúta helstu ábendingar samtakanna að eftirfarandi atriðum:

I. Áhrif frumvarps óljós á þessu stigi

Að mati samtakanna eru áhrif frumvarpsins, verði það að lögum, óljós. Þetta endurspeglast m.a. í því að ráðherra er falið mikið vald við ákvarðanatöku og setningu stjórnvaldsfyrirmæla um atriði sem varða mikilsverða hagsmuni rekstrarleyfishafa. Drög að stjórnvaldsfyrirmælum liggja í meginatriðum ekki fyrir og því skortir verulega á fyrirsjáanleika fyrir rekstrarleyfishafa um hvernig regluverki fyrir atvinnugreinina verður í reynd háttað nái frumvarpið fram að ganga.

II. Vikið frá vísindalegri nálgun og víðtækt vald fært til ráðherra

Samtökin gera í megindráttum athugasemd við það viðurhlutamikla framsal valdheimilda til ráðherra sem ráðgert er með frumvarpinu. Þrátt fyrir að Matvælastofnun eigi að vera það stjórnvald sem fer með framkvæmd laganna og ráðherra falin yfirstjórn málaflokksins er ljóst af lestri frumvarpsins, að það ber skýr merki pólitískrar stefnumótunar sem ekki hefur verið endanlega útfærð í frumvarpinu. Heilt yfir er í 138 lagagreinum frumvarpsins alls 118 sinnum vísað til heimildar ráðherra til setningar reglugerða. Allt eru þetta þýðingarmiklar ákvarðanir fyrir einstaka rekstrarleyfishafa og framþróun sjókvíaeldis sem atvinnugreinar, einkum ákvæði sem mæla fyrir um heimildir til skerðinga á eignar- og atvinnuréttindum rekstraraðila með reglugerð. Við slíkum hugmyndum ber að gjalda ríkan varhug.

III. Víðtæk og óhóflega íþyngjandi þvingunarúrræði og stjórnsýsluviðurlög

Samtökin gera alvarlega athugasemd við fjölda víðtækra og óhóflega íþyngjandi stjórnsýsluviðurlaga og þvingunarúrræða sem til stendur að innleiða með frumvarpinu. Samtökin telja fjölda, eðli og samspil þessara ákvæða ekki geta samræmst viðmiðum sem almennt gilda um íþyngjandi viðurlög sem eftirlitsstofnunum er heimilt að beita.

IV. Óhóflegt eftirlit og óhóflegar kröfur um skýrslugjöf

Að mati samtakanna eru kröfur frumvarpsins um eftirlit og tíða skýrslugerð bæði úr hófi og óásættanlegar með tilliti til kröfu um skýrleika laga. Ekki er um það deilt, að traust og öflugt eftirlit er mikilvægt til að auka trúverðugleika greinarinnar. Laga- og eftirlitsumhverfið má þó ekki vera svo íþyngjandi að það hamli starfsemi rekstraraðila og skapi óskilvirkt eftirlitsumhverfi. Áréttað er að hægt er að fara offari í opinberu eftirliti og heimildum eftirlitsaðila og á það ekki síður við um lagareldi en aðrar atvinnugreinar.

V. Friðun hafsvæða gagnvart fiskeldi

SFS leggjast ekki gegn lögfestingu friðunarsvæða á vísindalegum forsendum en telja af sömu ástæðu ótímabært að lögfesta friðun svæða sem skilgreind voru með auglýsingu nr. 460/2004 um friðunarsvæði. Ekkert þeirra svæða sem lagt er til að friða í frumvarpinu hefur verið rannsakað eða metið sérstaklega með tilliti til áhrifa fiskeldis. Jafnvel þó taka megi undir mikilvægi þess að tryggja ákveðna fjarlægð milli eldissvæða og laxveiðiáa skiptir einnig máli að gætt sé meðalhófs við afmörkun á umfangi friðunar þannig að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem að er stefnt.

Hvað varðar sérstaklega áform um friðun Eyjafjarðar og Öxarfjarðar gera samtökin aukinheldur athugasemd við að svæðin skuli ekki á neinu stigi hafa verið hluti af þeim friðunaráformum sem lögð voru fram til kynningar í stefnumótunarferli lagareldis. Ljóst má telja að sveitarfélög og íbúar við Eyjafjörð og Öxarfjörð eiga ríkra hagsmuna að gæta bæði af umhverfisvernd og uppbyggingu fiskeldis í nærumhverfi sínu og því er sérstaklega mikilvægt að ákvörðun um framtíðarnýtingu svæðanna verði ekki tekin í flýti, heldur að undangenginni ítarlegri vistfræðilegri skoðun og samráði.

Ekki verður heldur framhjá því litið að samkvæmt skýrslu Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis er ein af lykilforsendum bæði grunnsviðsmyndar og framsækinnar sviðsmyndar að firðir sem ekki hafa verið friðlýstir verði opnaðir fyrir framleiðslu. Með því að leggja til friðun Eyjafjarðar og Öxarfjarðar er ráðherra að stíga afgerandi skref í átt að því að byggja framtíð sjókvíaeldis á óbreyttri sviðsmynd skýrslunnar, þ.e. þeirri sem gerir ráð fyrir takmörkuðum tækifærum til sjálfbærs vaxtar og minni hvötum til nýrrar fjárfestingar. Áhrifin verða þau að samfélagið allt verður af verulegum verðmætum.

VI. Breytingar á gjaldtöku vegna sjókvíaeldis

Samtökin telja að gjald vegna sjókvíaeldis, eins og það kemur fram í frumvarpinu, taki ekki fyllilega til greina rekstrarlega stöðu sjókvíaeldis á Íslandi. Skynsamleg umgjörð getur til lengri tíma tryggt samkeppnishæfni en þar með talin er skynsamleg gjaldtaka. Samtökin gera athugasemdir við uppsetningu gjaldtöku í fyrirhuguðu formi, en hún mun að óbreyttu skaða samkeppnishæfni í alþjóðlegu tilliti. Vísast þar í afdráttarlausar og vel rökstuddar niðurstöður úr greiningu norska ráðgjafafyrirtækisins Menon Economics, sem samtökin létu vinna eftir að frumvarpsdrögin voru birt í samráðsgátt, og eru meðfylgjandi umsögn þessari. Ófyrirsjáanleiki felst þá einnig í þeirri staðreynd að gjaldtakan miðar aðeins við alþjóðlegt verð á laxi, en tekur ekkert tillit til framleiðslukostnaðar og afkomu.

Hvað varðar áformaðar breytingar á skattalegri meðferð gjaldsins benda samtökin á að engin lagaleg rök standa í vegi fyrir því að fiskeldisgjaldið geti áfram talist til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar í tekjuskattstofni. Að þessu virtu telja SFS að aðskilnaður fiskeldisgjalds frá öðrum rekstrarkostnaði, eins og frumvarpsdrögin ráðgera, sé fyrst og fremst af pólitískum toga og miði að því einu að afla frekari skatttekna, óháð rekstrarskilyrðum og samkeppnishæfni greinarinnar. Slík skattheimta kann ekki góðri lukku að stýra.

VII. Áform um niðurfellingu rekstrarleyfa

Meginregla frumvarpsins, sem fram kemur í 12. gr., er að á hinum nýju smitvarnasvæðum, sem ráðherra afmarkar, skuli aðeins veita einum rekstrarleyfishafa leyfi til sjókvíaeldis. Hafi rekstraraðilar ekki náð samkomulagi um nýtingu svæðisins hinn 1. júlí 2028 verða leyfi þeirra felld niður af Matvælastofnun, sbr. ákvæði til bráðabirgða I.

Þrátt fyrir að samtökin taki undir að rétt sé að eftirláta rekstraraðilum það verkefni að komast að samkomulagi sín á milli um tilhögun smitvarnarsvæða telja samtökin ótækt að ætla slíkum viðræðum að fara fram undir ógn um niðurfellingu rekstrarleyfa. Mikilsverð stjórnarskrárvarinn réttindi lögaðila verða ekki fótum troðin bótalaust.

Nánar er fjallað um framangreindar athugasemdir í eftirfarandi köflum umsagnarinnar, en auk þess ítreka samtökin í öllum megindráttum þær ábendingar og athugasemdir sem viðraðar voru í fyrri umsögn samtakanna um málið þegar stefnumótun um uppbyggingu og umgjörð lagareldis var birt til samráðs í samráðsgátt stjórnvalda. Í fylgiskjali I er svo vikið að einstökum frumvarpsgreinum eftir því sem tilefni þykir til frekari athugasemda.

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um sjávarútveg og sjávarútvegsstefnu

Hér má sjá samantekt helstu athugasemda SFS um drög að frumvarpi matvælaráðherra um lög í sjávarútvegi og sjávarútvegsstefnu:

Rétt er að varpa í upphafi ljósi á hina stærri mynd frumvarpsins og þá gagnrýni sem samtökin hafa á hana. Lýtur hún að fimm meginþáttum; (i) málsmeðferð og skorti á samráði, (ii) verulega óljósum ákvæðum um og áherslum á umhverfisvernd, (iii) mikilli sóun verðmæta í nýtingu hins opinbera á 5,3% aflaheimilda (pottar), (iv) verulegum breytingum á gjaldtöku með auknu ógagnsæi og flækjustigi, og (v) viðurlögum úr hófi og án tilefnis. Í kjölfarið verður farið yfir athugasemdir samtakanna varðandi einstaka kafla frumvarpsdraganna og að endingu athugasemdir samtakanna við drög að sjávarútvegsstefnu.

Meðferð málsins

Í fyrstu telja samtökin rétt að víkja stuttlega að og gera athugasemd við þá málsmeðferð sem viðhöfð var í aðdraganda fram kominna frumvarpsdraga. Aðallega vísast þar til sameiginlegrar bókunar Félags skipstjórnarmanna, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka smærri útgerða, Sjómanna¬sambands Íslands, Starfsgreinasambands Íslands og VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna, dags. 20. september sl., þar sem vinna í tengslum við stefnumótun matvælaráðherra var gagnrýnd harðlega (sjá fylgiskjal I). Sagði þar m.a. orðrétt:

„Íslenskur sjávarútvegur er burðarstólpi í íslensku efnahagslífi. Af þeim sökum var mikilvægt að stefnumótun, sem miðaði að því að treysta mikilvægt framlag atvinnugreinarinnar til lífskjara og ná aukinni sátt, tækist vel. Tekin var ákvörðun um að halda hagaðilum, með mikla þekkingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu, veiðum, vinnslu og annarri starfsemi innan virðiskeðju sjávarútvegs, að mestu utan við þessa vinnu. Það verður að teljast misráðið og niðurstaðan ber þess merki.”

Áður höfðu Landssamband smábátaeigenda, Samtök fiskvinnslu og útflytjenda og Strandveiðifélag Íslands gagnrýnt vinnuna með efnislega sambærilegum hætti og sagt sig úr svokallaðri samráðsnefnd sem ráðherra hafði skipað í tengslum við verkefnið.

Þá verður enn fremur að átelja sérstaklega, einstakt samráðsleysi í kjölfar þess að lokatillögur komu fram í skýrslunni Sjálfbær sjávarútvegur og þar til frumvarpsdrög þau sem hér eru til umfjöllunar voru birt. Í ljósi þess að um nýja heildarlöggjöf er að ræða, hefði mátt ætla að enn ríkari ábyrgð hvíli á ráðherra að vanda til verka og eiga ígrundað samtal við þá aðila sem heyra undir gildissvið laganna og best til þekkja um framkvæmd þeirri í einstökum þáttum. Á engum tímapunkti var óskað eftir fundi eða upplýsingum um einstök atriði eða álitamál. Því miður ber frumvarpið skýr merki þessa og auðsýnt er að smíði þess hafi verið í höndum aðila sem skortir þekkingu á fiskveiðum og áralangri framkvæmd þeirra á grundvelli þeirrar löggjafar sem gilt hefur.

Umhverfisréttur

Góður árangur íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins er staðfestur í skýrslunni Sjálfbær sjávarútvegur og hefur árangurinn raunar verið staðfestur í flestum skýrslum sem unnar hafa verið á umliðnum árum. Má þar nefna þá skýrslu sem á undan kom árið 2021, Staða og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi, og unnin var að beiðni matvælaráðuneytis. Þessi árangur er fyrst og síðast mældur í skynsömum veiðum byggðum á vísindalegum grunni, arðsömum rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og miklum þjóðhagslegum ávinningi. Grunnurinn að þessum árangri byggist á þeirri löggjöf sem um sjávarútveg gilda. Árangur varð ekki til á einni nóttu, heldur er um að ræða þróun og betrumbætur á löggjöfinni í gegnum áranna rás. Þannig hefur lagalegum álitamálum fækkað, framkvæmd verið fest í sessi og réttaróvissa lágmörkuð. Þó engin löggjöf sjái fyrir alla hegðun náttúru eða manna, þá hefur löggjöfin þjónað vel.

Af þessum sökum skýtur skökku við að í frumvarpsdrögunum skuli veruleg breyting vera gerð á ákvæðum er lúta að fiskveiðistjórnun og tilhögun veiða, allt undir hatti mikilvægis meginreglna umhverfisréttar. Mikilvægi virðingar fyrir umhverfi og náttúru er líklega fáum atvinnugreinum jafn hugleikið og þeim sem nýta auðlindir sjávar. Enginn ágreiningur er um að starfsemi sjávarútvegs, líkt og starfsemi annarra fyrirtækja, lýtur almennum lögum er tengjast umhverfismálum. Það þjónar engum tilgangi að bæta sömu meginreglum inn í sérlög um sjávarútveg. Viðbæturnar virðast ekki eiga að hafa efnislega þýðingu, en geta hins vegar kallað fram áður óþekkta réttaróvissu. Samtökin telja því rétt að færa hlutaðeigandi ákvæði í frumvarpsdrögum til samræmis við gildandi lög.

Þá benda SFS jafnframt á að gildandi lög á sviði fiskveiðistjórnunar hér á landi eru í fullu samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Raunar er íslenska kerfið til einstakrar fyrirmyndar á heimsvísu. Staðhæfingar í fyrirliggjandi frumvarpsdrögum þess efnis að alþjóðlegar skuldbindingar leiði af sér knýjandi þörf til breytinga á íslenskum lögum er lúta að fiskveiðum eru því einfaldlega rangar. Um það er nánar fjallað síðar í umsögn þessari.

Pottar

Ýmis konar byggðaráðstafanir hafa verið til staðar í lögum um stjórn fiskveiða allt frá árinu 1990. Með lögum nr. 70/2011 voru gerðar þær breytingar að frádráttur til þessara byggðaráðstafana skyldi vera allt að 5,3%. Segja má að allt frá upphafi hafi verið áhöld um hvert meginmarkmið þessara ráðstafana væri og lítil vissa er um hvort þær hafi í raun og sanni stuðlað að aukinni byggðafestu.

Í ljósi þess að um veruleg verðmæti er að ræða má hafa af því áhyggjur hversu illa hafi almennt tekist til. Á fiskveiðiárinu 2022/2023 námu þessi verðmæti um 10,6 milljörðum króna, sé litið til hlutfalls af heildaraflaverðmæti. Ábyrgð stjórnvalda við ráðstöfun þessara fjármuna er því mikil. Í því samhengi verður að hafa í huga að hlutaðeigandi aflaheimildir eru teknar úr aflamarkskerfinu og af þeim sem hafa fiskveiðar og fiskvinnslu að aðalstarfi. Óumdeilt er að þjóðhagslega hagkvæmast er að nýta aflaheimildir í aflamarkskerfinu og öflug sjávarútvegsfyrirtæki innan þess, bæði stór og smá um allt land, tryggja hina eiginlegu byggðafestu. Þar verða því hin samfélagslegu verðmæti hámörkuð.

Þrátt fyrir góðan vilja stjórnvalda til þess að úthluta 5,3% aflaheimilda þá er árangurinn í besta falli óljós. Þetta má glögglega lesa í nýlegum skýrslum sem unnar hafa verið fyrir stjórnvöld, líkt og Endurskoðun á meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda (2020) og Staða og horfur í sjávarútvegi og fiskeldi (2021).

Í fram komnum frumvarpsdrögum á enn að gera breytingar á ráðstöfun 5,3% aflaheimilda. Því miður má telja allar líkur á því að árangurinn af nýjum tillögum verði lítill sem enginn. Ráðherra hefur þar aðallega tvær aðgerðir til skoðunar; annars vegar innviðaleið og hins vegar byggðafestuleið. Með svokallaðri innviðaleið stendur til að taka aflaheimildir af öllum og afhenda þeim fáum aðilum sem hafa til þess fjárhagslegt bolmagn til að bjóða hæst verð. Ekki er með góðu móti hægt að sjá nokkur rök sem styðja að slík miðstýring sé til þess fallin að tryggja byggðafestu eða treysta þær sjávarbyggðir sem hingað til hafa notið góðs af almennum byggðakvóta, skel- og rækjubótum eða línuívilnun. Í þessari leið felst aukinheldur enn ein skattlagning á sjávarútveg, sem telja má óskilvirkari og ósanngjarnari en flestar aðrar leiðir til skattlagningar. Byggðafestuleið, hin aðgerðin sem ráðherra hefur til skoðunar, er síðan ekki ný af nálinni, en hún felst í því að ráðstafa aflaheimildum til sveitarfélaga eða einstaklinga. Tillögum í þessa veru hefur áður verið hafnað. Í litlum samfélögum verða hagsmunaárekstrar óhjákvæmilegir, deilur óumflýjanlegar og fyrirsjáanleikinn takmarkaður. Auðsýnt er að byggðafesta verður ekki treyst með slíkum áhrifum.

Til viðbótar við fyrrgreint má hafa miklar efasemdir um að þær tvær leiðir sem ráðherra hefur til skoðunar, til miðstýringar á úthlutun verðmætra aflaheimilda gegn gjaldi, standist ákvæði stjórnarskrár um jafnræði, atvinnufrelsi og skilyrði skattlagningar.

Gjaldtaka

Ekki verður um það deilt, að það eru útflutningsatvinnuvegirnir sem drífa hér áfram hagvöxt og góð lífskjör. Varanlegur útflutningsvöxtur er með öðrum orðum grundvöllur hagsældar. Það er því betur heima setið en af stað farið, ef gjaldtaka hins opinbera dregur úr þrótti útflutningsfyrirtækja til þess að skapa meiri verðmæti í dag en í gær.

Fyrir liggur að ríkið tekur til sín ríflega þriðjung af afkomu fiskveiða í auðlindagjald. Fiskveiðar eru bæði áhættusamar og fjárfrekar. Það þarf mikla fjármuni til þess að tryggja tekjuvöxt, samfélaginu öllu til hagsbóta. Sé litið til mikilla og nauðsynlegra fjárfestinga á umliðnum árum hefur góð afkoma verið nýtt skynsamlega. Nú virðist matvælaráðherra hins vegar telja rétt að hefta verulega áframhaldandi mikilvægt framlag sjávarútvegs til hagvaxtar og góðra lífskjara.

Ekki aðeins leggur ráðherra til breytingu á reiknireglu veiðigjalds af uppsjávarveiðum, heldur er lögð til veruleg hækkun tekjuskatts á sjávarútvegsfyrirtæki og uppboð aflaheimilda til eins árs í senn með svokallaðri innviðaleið. Auðlindagjald á því að sækja úr þremur ólíkum áttum. Tillaga þessa efnis var aldrei rædd í stefnumótunarvinnu matvælaráðuneytis, ekkert mat hefur verið lagt á það hver raunveruleg skattheimta verður ef þessi breyting nær fram að ganga og gjaldtaka af nýtingu sjávarauðlindar verður að líkindum, horft fram veginn, ógagnsærri og ósanngjarnari en nokkru sinni fyrr.

Í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar, var það sérstakt áherslumál að efla matvælaframleiðslu, þar með talið framleiðslu sjávarafurða, og skapa samkeppnishæft rekstrarumhverfi. Þá átti jafnframt að huga að aðgerðum til frekari árangurs Íslands á þessu sviði. Undir þetta má taka, enda er stóra verkefnið að tryggja hagsæld hér á landi. Hvergi var í stjórnarsáttmála vikið að verulegri hækkun eða eðlisbreytingu á gjaldtöku í sjávarútvegi. Af þeim sökum sérstaklega skýtur það skökku við að einföldu veiðigjaldi hafi í einu vetfangi verið umturnað í þríhöfða þurs með blöndu veiðigjalds, tekjuskatts og uppboða.

Eftirlit og viðurlög

Til að tryggja að reglum aflamarkskerfisins sé fylgt eftir og öðrum tæknilegum verndarráðstöfunum hefur verið byggt upp tvenns konar kerfi, annars vegar eftirlitskerfi og hins vegar viðurlagakerfi. Í flestum tilvikum hefur Fiskistofa gegnt lykilhlutverki í þessum kerfum, oft í samstarfi við Landhelgisgæslu, hafnaryfirvöld eða lögreglu o.s.frv. Samtökin telja að byggja eigi á því sem vel er gert, mótað hefur verið og þróað undanfarinn aldarfjórðung. Nauðsynlegt er efla náið samtal og samstarf allra hagaðila, auk þess að efla traust og trúverðugleika með markvissri vöktun og eftirfylgni. Þá þarf að beita viðurlögum í anda meðalhófs þegar brotið er gegn lögum.

Grundvallaratriði er að skapa og efla gagnkvæmt traust og samstarf atvinnugreinar og eftirlits sem eiga sameiginlega hagsmuni af því að fiskveiðistjórnunin, og þar með eftirlitskerfið, virki. Þeir sem fara gegn lögum gera það ekki síst á kostnað annarra aðila sem starfa í atvinnugreininni. Í núverandi viðurlagakerfi eru valdheimildir Fiskistofu fyrst og fremst leyfissviptingar og áminningar. Þessar valdheimildir hafa sterk fælingar- og varnaðaráhrif. Nú ætla stjórnvöld að ganga enn lengra og lögfesta íþyngjandi reglur um stjórnvaldssektir. Munu sektir geta numið allt að 10% af heildarveltu síðasta rekstrarárs hjá leyfisskyldum aðila. Engar haldbærar skýringar hafa komið fram í athugasemdum frumvarpsdraganna sem réttlæta það að lögfest verði svo íþyngjandi viðurlaga¬ákvæði. Eðli máls samkvæmt eiga stjórnvalds¬sektir að vera áhrifaríkar, í réttu hlutfalli við brot og fælandi. Þannig verður löggjafinn að leggja heildstætt mat á efni viðurlaga og gæta meðalhófs við innleiðingu þeirra. Ekki er að sjá að gætt hafi verið að slíkum grundvallaratriðum í frumvarpsdrögunum.