24. september 2021

Veiðigjaldið var hækkað, ekki lækkað

Margt er fullyrt um veiðigjaldið í aðdraganda kosninga. Því miður er margt af því hreinlega rangt.

Margt er fullyrt um veiðigjaldið í aðdraganda kosninga. Því miður er margt af því hreinlega rangt. Kristrún Frostadóttir, frambjóðandi Samfylkingarinnar fullyrðir í dag í Fréttablaðinu að breytingar sem gerðar voru á lögum um veiðigjald á yfirstandandi þingi hafi rýrt veiðigjaldsstofninn umtalsvert. Vísar hún þar til sérmeðferðar í formi afskrifta og áætlaðra vaxtagjalda. Þetta er rangt. Á meðfylgjandi mynd má sjá veiðigjald eins og það hefði verið samkvæmt eldri lögum og veiðigjald eins og það var í raun. Gjaldið hefði verið umtalsvert lægra á þessu tímabili samkvæmt eldri lögum. Ætlunin var að minnka sveiflur, enda hefðu nýrri og eldri lög skilað sömu niðurstöðu aftur í tímann.

Heimild: Hagstofa Íslands, Fiskistofa og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Í frumvarpi því sem varð að nýjum lögum um veiðigjald sagði enn fremur:  Til skemmri tíma kann reiknistofn veiðigjaldsins að dragast saman vegna aukinnar fyrningar, og með því fastur kostnaður í heild, þar sem lagt er til með frumvarpinu að vaxtagjöld jafngildi fyrningunni hverju sinni. Á móti vegur að með endurnýjun fiskiskipastólsins dragast sumir kostnaðarliðir við veiðiúthald nokkuð saman, einkum olíukostnaður og hugsanlega launakostnaður. Það mun til lengri tíma litið geta styrkt reiknistofn veiðigjaldsins og aukið með því tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi.

Það er því hafið yfir allan vafa að veiðigjaldið var hækkað, en ekki lækkað. Reiknistofninn dróst ekki saman, þrátt fyrir allt. Stofninn hefði verið minni samkvæmt eldri lögum. Tölurnar tala sínu máli.