15. desember 2022

Veiðigjald umfram áætlun

Horfur eru á að veiðigjaldið muni skila nokkuð meira í ríkissjóð í ár en áætlað var í fjárlögum fyrir þetta ár. Þannig er veiðigjaldið nú þegar komið í tæpa 6,7 milljarða króna á fyrstu 10 mánuðum ársins, en í fjárlögum var áætlað að gjaldið yrði 7,1 milljarður á árinu í heild. Gróflega má áætla að það verði í kringum 8 milljarðar í árslok, en það er eðlilega háð aflabrögðum á síðustu tveimur mánuðum ársins.

Bætt upplýsingagjöf Fiskistofu

Upplýsingar um fjárhæð veiðigjaldsins á fyrstu 10 mánuðum ársins má sjá á heimasíðu Fiskistofu. Þar má finna upplýsingar um bæði afla og fjárhæð veiðigjaldsins niður á einstaka fisktegundir eftir mánuðum. Áður voru þessar mánaðarlegu upplýsingar eingöngu birtar niður á greiðendur. Að okkar mati er þessi viðbót hjá Fiskistofu afar jákvæð, enda meira upplýsandi um þróun veiðigjaldsins.

Mörgum kann að finnast flókið að átta sig á þessari gjaldtöku. Það er í sjálfu sér eðlilegt, sérstaklega í ljósi þess að þingheimur virðist stundum jafn týndur í umræðunni. Umræðan um veiðigjald er því oft á misskilningi byggð og snýst iðulega bara um eina tölu, það er heildarfjárhæð veiðigjaldsins. Sú tala segir fyrst og síðast til um hversu miklar tekjur ríkissjóður fær af veiðigjaldi frá einu ári til annars, en ekkert um aflabrögð, rekstrarskilyrði eða markaðsaðstæður. Eðli máls samkvæmt hafa þessir þættir hins vegar úrslitaáhrif á heildarfjárhæð gjaldsins.

Engin geimvísindi

Forsendur þeirrar skattheimtu sem felst í veiðigjaldinu eru ekki flóknar. Forsendurnar byggjast hins vegar á afkomu í fiskveiðum og hún getur verið afar sveiflukennd á milli ára, enda fjölmörgum óvissuþáttum háð, allt frá duttlungum náttúrunnar til pólitískrar áhættu í fjarlægum löndum.

Í kringum 20 fisktegundir bera veiðigjald ár hvert og er gjaldið reiknað sérstaklega fyrir hverja þeirra. Þar getur þróunin á milli ára verið æði misjöfn, meðal annars vegna markaðsaðstæðna sem geta verið afar mismunandi á milli tegunda. Í stuttu máli má segja að veiðigjald nemi um 33% af afkomu fiskveiða, sem reiknað er til krónu á kílógramm landaðs óslægðs afla. Nánari umfjöllun um framkvæmd veiðigjaldsútreikninga má til að mynda sjá í grein sem birt var í fréttablaði ríkisskattstjóra, Tíund, og nálgast má hér.

Mestu munar um þorskinn

Sé litið á tölur Fiskistofu um fyrstu 10 mánuði líðandi árs má sjá að mestu munar um veiðigjald af þorski, en það hefur vegið um og yfir helming af heildarfjárhæð veiðigjaldsins á undanförnum árum. Þorskafli var kominn í tæplega 194 þúsund tonn á fyrstu 10 mánuðunum, og þar sem veiðigjaldið er 17,74 krónur á kílóið á óslægðan þorsk í ár, er heildarveiðigjald af þorski ríflega 3,4 milljarðar króna á tímabilinu. Á sama tíma í fyrra var það komið í 3,6 milljarða króna, eða ríflega 5% hærra en nú. Samdráttinn á milli ára má alfarið rekja til minni afla, enda var þorskaflinn á fyrstu 10 mánuðum ársins í fyrra ríflega 218 þúsund tonn en veiðigjald á þorsk var lægra í fyrra, eða alls 16,63 krónur.

Veiðar á ýsu hafa skilað næstmestu (um 740 milljónum króna) á fyrstu 10 mánuðum ársins og þar á eftir koma veiðar á uppsjávartegundunum síld (690 milljónir króna) og makríl (680 milljónir króna). Sjá má sundurliðun á veiðigjaldi eftir mánuðum og tegundahópum á myndinni hér fyrir neðan, en þorskur og ýsa eru sérstaklega aðgreind. Samanlagt nemur veiðigjald allra tegundanna 7,1 milljarði króna á fyrstu 10 mánuðum ársins. Frá þeirri fjárhæð dragast 440 milljónir króna, sem er vegna 40% afsláttar af fyrstu 7,2 milljónum króna sem greiddar eru í veiðigjald. Þar með hefur veiðigjald skilað um 6,7 milljörðum króna í ríkissjóð á tímabilinu.

Betri afkoma …

Í síðustu viku birti Svandís Svavarsdóttir, matvælaráherra, auglýsingu í Stjórnartíðindum um veiðigjald fyrir árið 2023. Gjaldið er auglýst sem krónur á kílógramm landaðs óslægðs afla. Gjaldið fyrir árið 2023 er byggt á afkomu fiskveiða árið 2021, sem heilt yfir var fremur gott ár í sjávarútvegi. Þar sem afkoman var almennt betri í fiskveiðum á árinu 2021 en 2020, sem veiðigjald ársins í ár er byggt á, leiðir það til þess að veiðigjald er hærra á næsta ári á langflestum tegundum. Sjá má samanburð á veiðigjaldi á þessum tveimur árum í töflunni hér fyrir neðan.

Eins og sjá má í töflunni er þróunin nokkuð mismunandi á milli tegunda. Þar má sjá að á næsta ári þarf að greiða 19,17 krónur á hvert kílógramm óslægðs þorsks samanborið við 17,74 krónur í ár. Þetta er næsthæsta fjárhæð veiðigjalds á þorski frá upphafi. Jafnframt sést að greiða þarf 5,54 krónur fyrir hvert kíló af loðnu, sem er hæsta fjárhæð frá upphafi á loðnu. Það kemur heim og saman við hversu vel heppnuð loðnuvertíðin var í fyrra. Ekkert gjald var af loðnuveiðum í ár, enda var loðnubrestur á árinu 2020 sem reiknistofn veiðigjaldsins var byggt á.

… meira í ríkissjóð

Hver heildarfjárhæð veiðigjaldsins verður á næsta ári ræðst svo á endanum á afla sérhverra tegunda á árinu. Sú breyta virðist oft gleymast í umræðunni um veiðigjald, en hún ræður vitaskuld miklu um tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi. Nokkur samdráttur var á heildaraflamarki helstu tegunda á yfirstandandi fiskveiðiári frá því síðasta, þar með talið þorsks. Aflamark þorsks hefur verið að dragast saman á undanförnum árum og er nú til að mynda um fjórðungi minna en það var á fiskveiðiárinu 2019/2020, eða sem nemur tæpum 64 þúsund tonnum. Miðað við 19,17 króna veiðigjald á þorski gerir það samdrátt upp á 1,2 milljarð króna. Það munar um minna!

Miðað við nýlega áætlun matvælaráðuneytisins mun veiðigjald á næsta ári nema um 9,5 milljörðum króna. Það er nokkuð hærri fjárhæð en gjaldið mun skila í ár, sem má að stærstum hluta rekja til betri afkomu í fiskveiðum. Heildaraflamark á þorski er ríflega 6% minna á yfirstandandi fiskveiðiári en á því síðasta, en vegna ofangreindrar þróunar á veiðigjaldi þorsks, þá munu þorskveiðar eflaust skila svipaðri fjárhæð í ríkissjóð á næsta ári og í ár. Tekjur af ýsuveiðum munu á hinn bóginn eflaust aukast töluvert, sem hvort tveggja má rekja til veiðigjaldsins og aukins  aflamarks. Líklega mun þó mestu muna um veiðigjald af loðnu, sem fer úr núll krónum í 5,54 krónur á kílóið. Hversu há veiðigjöld af loðnuveiðum verða ræðst svo endanlega af stærð loðnukvótans. Það mun koma í ljós í byrjun næsta árs. Af ofangreindu ætti þó að vera ljóst, að það er til lítils að horfa á heildarfjárhæð veiðigjaldsins og álykta nokkuð um hvort að gjaldið hafi verið hækkað eða lækkað. Það þarf stundum að líta betur undir húddið, ef svo má kalla.