28. ágúst 2023
Velferð byggist á verðmætasköpun
Miðað við orðræðu stjórnmálanna mætti ætla að hagsæld hafi orðið til vegna skatta – og þeir virðast einfaldlega aldrei nógu miklir. Varla er til sá stjórnmálamaður sem telur nóg um. Það á að hækka skatta á bankana, ferðaþjónustuna, fiskeldið og sjávarútveg. Svo á að hækka tekjuskatt allra fyrirtækja um eitt prósentustig um næstu áramót. Og ekki má gleyma aukinni gjaldtöku í nafni loftslagsmála.
Ísland er nú þegar háskattaland í öllum alþjóðlegum samanburði. Við mælumst í 4. sæti á lista yfir hæstu skatta á meðal OECD ríkja.
Það eru vonandi fleiri en ég sem velta því fyrir sér hvort ekki sé nóg komið – og það sem meira er um vert, hvort hækkun skatta nái því markmiði sem að er stefnt, til lengri tíma. Nú má ekki skilja það svo að ég telji að fyrirtæki eigi ekki að leggja ríkulega til samneyslu og öflugs velferðarkerfis. Það eiga þau svo sannarlega að gera.
Góð lífskjör og stöndugt velferðarkerfi eru afsprengi öflugrar verðmætasköpunar. Ef okkur tekst að gera meiri verðmæti í dag en í gær, leggjum við grunn að samfélagi sem við öll getum verið stolt af. En til þess að tryggja aukna verðmætasköpun þarf jarðvegurinn að vera góður – rekstrarskilyrði fyrirtækja þurfa að treysta samkeppnishæfni atvinnulífs. Og samkvæmt IMD er samkeppnishæfni Íslands ábótavant. Með því að íþyngja atvinnulífi úr hófi með sköttum og gjöldum, er unnið gegn aukinni verðmætasköpun og til lengri tíma rennur minna til samfélagsins.
Það virðist því miður lítið framboð af skynsamlegri umræðu um þessi mál og öfgalausri nálgun á grundvallarforsendur velferðarsamfélags – að meiri verðmæti geti komið til skiptanna úr minni skattlagningu. Það skyldi þó ekki vera að áhugaleysi stjórnmálanna um lægri skatta sem forsendu betri velferðar og bættra lífskjara skýri þverrandi fylgi einhverra flokka.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 25. ágúst 2023