3. nóvember 2023

Yfirlýsing vegna ágangs laxalúsar á Vestfjörðum

Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) þykir miður sú staða sem upp er komin í sjókvíaeldi Arnarlax og Arctic Fish á Vestfjörðum vegna óvenju mikils ágangs laxalúsar. Sjónarmið fyrirtækjanna um dýravelferð leiddu til ákvörðunar um að farga fiskum í tilteknum kvíum. Lúsugir fiskar sem borið hafa skaða af ágengu sníkjudýri í of langan tíma eru ekki frýnilegir á að líta og eru ekki seldir á neytendamarkað.

Laxalús er hluti af lífríki sjávar og er algengt sníkjudýr á laxfiskum, bæði í villtum laxi og eldislaxi. Bæði Arnarlax og Arctic Fish viðhafa virkt eftirlit með lús í sínum kvíum og dýralæknar á þeirra vegum meta ávallt stöðuna í samráði við Matvælastofnun. Þegar upp koma aðstæður sem kalla á meðhöndlun gegn lús er mikilvægt að unnt sé að grípa hratt og örugglega inn í atburðarrásina. Það er sameiginlegt verkefni fiskeldisfyrirtækja og yfirvalda að huga að bestu forvörnum til að koma í veg fyrir ágang lúsar og tryggja að til staðar séu skilvirk úrræði til viðbragða ef þörf krefur. Í yfirstandandi stefnumótun stjórnvalda um sjókvíaeldi munu SFS leggja enn ríkari áherslu á að velferð eldisdýra verði sett í forgrunn þegar kemur að meðhöndlun gegn laxalús, svo sambærilegar aðstæður komi ekki aftur upp.

Að lokum er mikilvægt að halda til haga að eldislax, sem seldur er til manneldis á kröfuharða markaði erlendis, er undirstaða afkomu fyrirtækjanna og skapar mikil útflutningsverðmæti fyrir þjóðarbúið. Eðli máls samkvæmt kappkosta eldisfyrirtæki því við að tryggja heilbrigði eldislaxins.