Samfélagsleg áhrif fiskeldis

Samfélagsleg áhrif fiskel...

Áhrif fiskeldis á íslenskt samfélag eru margvísleg eins og sjá má m.a. í hinum ýmsu hagtölum Hagstofu Íslands. (Tölur fram til ársins 2023)

Fiskeldi hefur til að mynda fjölgað stoðum undir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins og hefur numið um og yfir 5% af verðmætum alls vöruútflutnings. Þessi þróun er afar jákvæð enda er öflugur og fjölbreyttur útflutningur grundvallarforsenda bættra lífskjara hér á landi.

Fiskeldi hefur nú þegar mikla efnahagslega þýðingu fyrir íbúa í hinum ýmsu byggðarlögum og áhrif þess fara ekki fram hjá þeim sem þar búa. Þar hefur atvinnulíf orðið öflugra og fjölbreyttara, fólki fjölgað og aukið líf færst á fasteignamarkaðinn svo fátt eitt sé nefnt. Það má rekja beint til aukinna umsvifa starfsemi fiskeldisfyrirtækjanna sjálfra og óbeint til þeirra afleiddu áhrifa sem starfsemin hefur á aðrar atvinnugreinar.

Störf

Aukin umsvif fiskeldisfyrirtækja sjást greinilega í tölum af vinnumarkaði. Þannig hafa aldrei fleiri starfað við fiskeldi hér á landi og að sama skapi hafa atvinnutekjur í greininni aldrei verið meiri. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur hefur fjöldi starfandi við fiskeldi tæplega fjórfaldast á tímabilinu 2010-2022 og atvinnutekjur, á verðlagi ársins 2022, ríflega sexfaldast

Á fyrstu 5 mánuðum ársins 2023 námu atvinnutekjur af fiskeldi tæplega 3,4 milljörðum króna samanborið við tæpa 2,6 milljarða á sama tímabili í fyrra. Það er um 32% aukning milli ára. Á sama tíma fjölgaði launafólki í fiskeldi um 14% á milli ára, eða úr 640 í 720 manns. Ef horft er á íbúafjölda og fjölda starfa á Vestfjörðum má einnig ætla að hverju stöðugildi í fiskeldi fylgi að jafnaði 1,8 íbúar. (Greining KPMG 2021)

Eru þar ótalin óbeinu störfin, enda áhrif fiskeldis víðtæk í efnahagslegu tilliti Niðurstaða greiningar KPMG fyrir Ísland er að við hvert starf í fiskeldi verði til 0,8-1,0 óbein störf. (Greining KPMG 2021) Fiskeldi er grunnatvinnuvegur og er fjöldinn allur af fyrirtækjum sem reiðir sig á starfsemi þess með beinum eða óbeinum hætti. Reynslan sýnir að fiskeldi heufr styrkt aðrar atvinnugreinar beint og óbeint, t.d. með aukinni nýtingu gistirýma, auknum umsvifum verktaka og flutningafyrirtækja og fjölbreyttari störfum. Fjölgun íbúa getur einnig leitt til öflugra félagslífs og að fleiri þátttakendur verði í íþróttastarfi. Þá getur fiskeldi fylgt styrking innviða og samgangna sem getur leitt til þess að önnur atvinnustarfsemi á svæðunum styrkist samhliða. (Skýrsla Byggðastofnunar) Þessi afleiddu og óbeinu áhrif greinarinnar hafa verið mikil víða um land, sér í lagi á Vestfjörðum og á Austurlandi.

Atvinnutekjur

Fiskeldi er ein af fáum atvinnugreinum sem er langtum umfangsmeiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, en um 80% af atvinnutekjum í greininni koma í hlut einstaklinga sem búa á landsbyggðinni, þar af um þriðjungur í hlut einstaklinga sem búa á Vestfjörðum.

Í fyrra voru atvinnutekjur íbúa á Vestfjörðum af fiskeldi um 2,1 milljarður króna samanborið við 120 milljónir á árinu 2010, á verðlagi ársins 2022. Það þýðir að þær hafi ríflega sautjánfaldast að raunvirði á tímabilinu. Á sama tíma hafa atvinnutekjur af ferðaþjónustu farið úr 600 milljónum í tæpa 1.700 milljónir, sem jafngildir tæplega þreföldun. Atvinnutekjur í fiskeldi hafa ekki bara vaxið hlutfallslega mest af öllum atvinnugreinum á Vestfjörðum, heldur einnig í krónum talið.

Jákvæð áhrif fiskeldis á íslenskt samfélag eru ekki öllum augljós enda er umfang greinarinnar afar mismundandi eftir einstaka landshlutum. Áhrifin eru til að mynda mun sýnilegri íbúum Vestfjarða en á höfuðborgarsvæðinu. Sé tekið mið af fyrstu 5 mánuðum ársins 2023 stóð fiskeldi eitt og sér undir 8,1% atvinnutekna íbúa á Vestfjörðum en einungis um 0,1% á höfuðborgarsvæðinu.

Sérþekking og námsframboð

Verið er að byggja upp sérþekkingu í fiskeldisfræðum á Íslandi með fjölbreyttu námsframboði.

Nám í fiskeldi hefur verið kennt við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum, annars vegar eins árs diplómunám í fiskeldisfræði en hins vegar rannsóknatengt meistaranám í sjávar- og vatnalíffræði. Nýlega bárust fréttir af því að metaðsókn væri í fiskeldisnám við Háskólann á Hólum. (Frétt RÚV)

Einnig er námsbraut í fiskeldi á framhaldsskólastigi í boði við Verkmenntaskóla Austurlands og árið 2024 er fyrirhugað að kennsla hefjist við Menntaskólann á Ísafirði.

Þá hefur Fisktækniskólinn boðið upp á framhaldsnám í faggreinum fiskeldis.

Sú þekking og reynsla sem hefur þegar byggst upp á Íslandi í fiskeldi, á grundvelli reynslu og þekkingar Norðmanna með innkomu þeirra í greinina, mun því bara aukast næstu árin.