Ferli fiskeldis

Ferli fiskeldis

Mynd í kafla 3.4.4 úr skýrslu Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi, bls. 60.

Hrognaræktun

Fyrsta stig fiskeldis er hrognaræktun. Hrognin eru kynbætt og ræktuð í stýrðu umhverfi. Flest fyrirtæki kaupa hrogn frá sérhæfðum fyrirtækjum en leiðandi á þeim markaði er Benchmark Genetics, áður Stofnfiskur. Á Íslandi er innflutningur á hrognum ekki leyfilegur og því kaupa fiskeldisfyrirtæki á Íslandi hrogn frá Benchmark Genetics. (Skýrsla BCG, bls. 60)

Fóður

Fiskurinn er fóðraður í seiðastöðvum og í áframeldi í sjó. Fóður er aðallega framleitt úr hráefnum úr jurtaríkinu (soja og hveiti) og sjávarafurðum (fiskiolíu og fiskimjöli). (Skýrsla BCG, bls. 60)

Þegar fiskurinn er kominn í sjókví (áframeldi) fer fóðrunin fram í gegnum fljótandi fóðurpramma sem er við hvert eldissvæði og er fóðrun stýrt frá nærliggjandi sveitarfélögum

Seiðastöðvar

Í kjölfar klaks og startfóðrunar eru seiðin alin í seiðaeldisstöðvum. Eldi seiða tekur almennt um 12 mánuði áður en þau eru tilbúin fyrir áframeldi í stærri kvíum. Stærstu fyrirtæki á Íslandi og á öðrum samkeppnismörkuðum hafa flest samþætt seiðastöðvar inn í rekstur sinn og framleiða eigin seiði í ferskvatnsstarfsstöðvum. (Skýrsla BCG, bls. 61)

Þjónustuskip

Sérhæfð þjónustuskip fyrir fiskeldi flytja meðal annars fóður frá landi og eru nýtt til að fylgast með framleiðslusvæðum. Þau flytja líka sérfræðinga til og frá framleiðslusvæðunum t.d. dýralækna, kafara og rafvirkja. Brunnbátar flytja seiði til kvía og lax til vinnslu frá kvíunum.

Áframeldi

Úr seiðastöðvum eru seiði flutt til áframeldis í sjó eða kerjum á landi. Þar vaxa seiðin áfram í kvíunum þar til þau ná þeirri stærð að fiskarnir eru teknir á land og í vinnslu.

Eldið er vaktað nánast allan sólarhringinn með myndavélum og nemum sem tengdir eru stjórnstöð og brugðist er við öllum frávikum eins fljótt og hægt er.

Pökkun og vinnsla

Þegar fiskur hefur náð þeirri stærð að fara á land í vinnslu er hann fluttur á brunnbátum í land. Fisknum er eftir atvikum pakkað eftir slátrun með eða án hauss, slægðum eða óslægðum en algengast er að honum sé pakkað slægðum og með haus (HOG). Í sumum tilfellum er fiskurinn unninn áfram, t.d. flökun, reyking, bútun eða kryddun.

Frumvinnsla fer fram nálægt eldissvæðunum en áframvinnsla er ekki háð landfræðilegum takmörkunum, sérstaklega ef fiskurinn er frystur. Verðmæti aukast jafnan við áframvinnslu og hægt er að nota afskurð til verðmætasköpunar. (Skýrsla BCG, bls. 61) Laxinn er ofurkældur, Sub-Chilled, með íslenskri tækni og geymsluþol hans því talsvert meira en ella.