Framtíðarmöguleikar fiskeldis í sjó

Framtíðarmöguleikar fiske...

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) fengu ráðgjafafyrirtækið McKinsey til að vinna ítarlega greiningu á tækifærum til uppbyggingar fiskeldis við Íslandsstrendur.

Við greiningarvinnuna lagði McKinsey mat á fræðilegt hámark laxeldis í sjó við Íslandsstrendur með því að draga saman þá landfræðilegu eiginleika sem einkenna góð sjókvíasvæði við Noregsstrendur og leita samsvarandi svæða við Íslandsstrendur. Greiningin byggði á yfir 40 umhverfislegum eiginleikum og notast var við gögn frá yfir 1.200 sjókvíastæðum í Noregi.

Samkvæmt greiningu McKinsey eru Norðmenn að nýta um 9% af fræðilega mögulegum framleiðslustæðum sínum. Ef sama hlutfall væri notað hér á landi gæfu 9% af 4,4 milljónum tonna alls um 400 þúsund tonn í heildarframleiðslu fiskeldis í sjó, miðað við óbreytta tækni og afköst sjókvía. Af þessu er ljóst að hafsvæðið í kringum Ísland felur í sér mikil tækifæri til að byggja enn frekar undir góð lífskjör komandi kynslóða. Verkefnið hlýtur því að felast í því að varða leiðina í átt að þessu marki þannig að uppbygging eigi sér stað í sátt við umhverfi og samfélag.

Ekki er óraunhæft að horfa til þess að á næstu 15-20 árum megi byggja upp stönduga og ábyrga atvinnugrein í fiskeldi, með um 550 þúsund tonna framleiðslu á landi og í sjó. Gangi slíkar áætlanir eftir gæti það þýtt útflutningsverðmæti að andvirði í kringum 450 milljarða kr. Í því samhengi má hafa í huga að á liðnu ári nam samanlagt útflutningsverðmæti sjávar- og eldisafurða tæplega 400 milljörðum kr. Þessi mögulega aukning á laxeldi ein og sér þýðir því ríflega tvöföldun á þeim verðmætum.

Sjá frekar um greiningu McKinsey hér.