Skattar og gjöld
Fyrirtæki sem ala fisk í sjó greiða fiskeldisgjald (auðlindagjald), umhverfissjóðsgjald og hafnargjöld ásamt tekjuskatti og öðrum sköttum sem lagðir eru á fyrirtæki á Íslandi. Kveðið er á um hina sérstöku auðlindagjaldtöku í lögum um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð og lögum um fiskeldi.
Skyldu til greiðslu gjalds vegna fiskeldis í sjó ber rekstrarleyfishafi fiskeldisstöðvar.
Mynd 4.24 í kafla 4.4.2 í skýrslu Boston Consulting Group um Stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi.
Fyrirtæki í fiskeldi eru stolt af því að leggja til samneyslunnar. Þegar um útflutningsatvinnuvegi er að ræða, er þó mikilvægt að huga að samkeppnishæfni þeirra og tryggja að rekstrarskilyrði stuðli að aukinni verðmætasköpun og auknum þjóðhagslegum ávinningi.
Ef horft er til annarra þjóða þar sem laxeldi er stundað, þ.m.t. Noregs og Færeyja, er ljóst að heildarskattar og gjöld af fiskeldi í sjó eru hæst á Íslandi. (Skýrsla BCG, bls. 111)
Fiskeldisgjald
Hið svokallaða fiskeldisgjald, stundum kallað framleiðslugjald eða auðlindagjald, er gjald sem fiskeldisfyrirtæki greiða fyrir nýtingu hafsvæða í fjörðum og til að standa straum af stjórnsýslukostnaði. Tveir þriðju gjaldsins renna til ríkisins og einn þriðji til Fiskeldissjóðs. (Skýrsla BCG, bls. 100)
Gjaldið byggir á heildarframleiðslu sem margfölduð er með gjaldhlutfalli. Gjaldið er breytilegt og fer eftir meðalheimsmarkaðsverði, þar sem hærra verð leiðir af sér hærra gjald og öfugt. (Skýrsla BCG, 101) Lögum samkvæmt er gjaldið reiknað af markaðsverði í evrum en til einföldunar hefur eftirfarandi upphæðum verið breytt í íslenskar krónur.
Fiskeldisgjaldið hefur verið innheimt síðan 1. janúar 2020 og hækkar í áföngum til ársins 2026. Árið 2022 nam fiskeldisgjaldið rúmum 441 milljónum króna. Var gjaldið þá 11,92 kr. á hvert kíló af laxi. Árið 2023 var gjaldið 18,33 kr. á hvert kg. en fyrir árið 2024 var hæsta mögulega gjaldhlutfall, og jafnframt það hlutfall sem iðulega er greitt, hækkað úr 3,5% í 4,3%. Árið 2024 verður álagning fyrir hvert kíló af framleiddum laxi því 37,8 krónur, eða rúmlega tvöfalt hærra en á síðasta ári. Ætla má að upphæð fiskeldisgjaldsins verði vel yfir milljarði króna árið 2024. Ef áætlanir ganga eftir og framleiðsla tvöfaldist á næstu árum mun gjaldið nema yfir þremur milljörðum króna ár hvert.
Fiskeldissjóður
Þriðjungur fiskeldisgjaldsins rennur í Fiskeldissjóð. Hlutverk Fiskeldissjóðs er að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað og þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum. Árið 2022 voru níu verkefni styrkt fyrir 185 milljónir króna. (Skýrsla BCG, bls. 101)
Árið 2023 voru tólf verkefni styrkt fyrir 247,69 milljónir. Þá hefur fiskeldissjóður auglýst eftir umsóknum fyrir styrki þessa árs en til úthlutunar á árinu 2024 eru kr. 437.200.000. Þetta kemur fram á vefsíðu stjórnarráðsins. Sem dæmi var úthlutað úr sjóðnum til uppbyggingar leikskóla á Patreksfirði, fráveituframkvæmdir í Fjarðabyggð, kaupum á slökkvibifreið á Bíldudal og margt fleira á liðnum árum.
Sjóðurinn er samkeppnissjóður þar sem stjórn fiskeldissjóðs velur úr umsóknum og úthlutar styrkjum til sveitarfélaga. (Skýrsla BCG, bls. 100) Þannig stuðlar gjaldtaka af fiskeldi í sjó beint að uppbyggingu þeirra sveitarfélaga þar sem atvinnugreinin er stunduð.
Umhverfissjóðsgjald
Íslenskum fyrirtækjum sem ala fisk í sjó er einnig gert að greiða árlegt gjald í umhverfissjóð sjókvíaeldis sem jafngildir 20 SDR (myntkarfa gefin út af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum) fyrir hvert tonn sem fyrirtæki er heimilt að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi. Gjaldið er lægra ef um er að ræða eldi á ófrjóum laxi, regnbogasilungi eða frjóum laxi í lokuðum kvíum. (Skýrsla BCG, bls. 102)
Gjaldið fyrir frjóan lax er í dag um 3.744 kr. á hvert tonn sem heimilt er að ala samkvæmt rekstarleyfi. Það jafngildir því að íslensk fyrirtæki greiði 37,4 milljónir króna árlega fyrir hvert 10.000 tonna leyfi. Það er greitt óháð því hve mikið er raunverulega alið af fisk, þ.e. gjaldið er innheimt óháð framleiðslumagni.
Umhverfissjóður sjókvíaeldis er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og á forræði matvælaráðherra. Meginmarkmið sjóðsins er að lágmarka umhverfisáhrif fiskeldis í sjó og er tekjum sjóðsins úthlutað til verkefna því tengdu. Tekjum sjóðsins er einnig úthlutað til Hafrannsóknastofnunar til að fjármagna burðarþolsmat fjarða, áhættumat erfðablöndunar, vöktun, orkuskipti og önnur verkefni sem miða að því að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis.
Hafnargjald og önnur gjöld
Íslensk fyrirtæki sem ala fisk í sjó greiða hafnargjald sem er ætlað til þróunar á hafnarinnviðum. Gjaldið er reiknað á grundvelli framleiðslu, margfaldað með gjaldhlutfalli sem er allt að 0,7% og með meðalheimsmarkaðsverði samkvæmt vísitölu fiskverðs.
Hafnargjald er breytilegt milli sveitarfélaga og greiðist beint til sveitarfélags þar sem laxi er landað til vinnslu. (Skýrsla BCG, bls. 102)
Önnur gjöld sem rétt er að nefna eru til dæmis: Gjöld fyrir starfsleyfi: allt að 1.705.000 kr. Gjöld fyrir umsókn um rekstrarleyfi: allt að 1.551.165 kr. Eftirlitsgjald MAST v. aðskotaefnamælinga: kr. 517.000 á hver 1.000 tonn. (Gjaldskrá MAST)
Tekjuskattur
Fiskeldi er ný og vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Í upphafi starfseminnar er fjárfestingaþörf gríðarleg og undirstaða þess að framleiðsla geti hafist. Það lá því alltaf fyrir að fyrirtæki í fiskeldi á Íslandi myndu ekki greiða tekjuskatt fyrstu árin á meðan uppbyggingu atvinnugreinarinnar á sér stað. En breyting varð þar á þegar Arnarlax greiddi 149 milljónir í tekjuskatt fyrir árið 2022.
Heildar skattspor Arnarlax var til að mynda um einn milljarður fyrir árið 2022 – fé sem rennur til ríkissjóðs í einu eða öðru formi. Betur má glöggva sig á sköttum og gjöldum í fiskeldi með því að skoða samfélagsskýrslu Arnarlax.