15. febrúar 2022

Að vera eða vera ekki á strandveiðum, þarna er efinn

Sá viðburður er orðinn árlegur að sjómenn á strandveiðum krefjist þess að fá auknar heimildir til að veiða þorsk. Ýmsum rökum er teflt fram og rómuð eru meint jákvæð áhrif strandveiða. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi gjalda varhug við þessari kröfu. Afstaða samtakanna byggist á traustum rökum og með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Niðurskurður í þorski – allir á sama báti

Það hefur aldrei verið á vísan að róa í sjávarútvegi á Íslandi. Þorskurinn, sem er okkar lang verðmætasta tegund, hefur aðeins verið að gefa eftir á liðnum árum. Frá árinu 2007 hafði honum vaxið mjög fiskur um hrygg. Ráðlögð veiði var komin í rúm 272 þúsund tonn fiskveiðiárið 2019/20 samanborið við 130 þúsund tonn fiskveiðiárið 2007/08. Aflamark þorsks stendur nú í um 223 þúsund tonnum fyrir fiskveiðiárið 2021/22. Aflamark hefur því dregist saman um 20% á tveimur árum, sem jafngildir ríflega tveggja mánaða veiði. Þrátt fyrir að þorskstofninn sé stór, sem gerir veiðar almennt hagkvæmari, þá eru miklar sveiflur í ráðlögðum afla óheppilegar. Líklegt má telja, að nokkuð hægist um í veiðum á þorski þegar líður á næsta sumar og hráefni í fiskvinnslum verði þar með takmarkað. Miðað við mat Hafrannsóknastofnunar er fyrst unnt að vænta þess að aukning verði í ráðlögðum afla árið 2023 eða 2024. Það verður því að gæta varúðar ef ekki á illa að fara.

Á umliðnum árum hefur afli strandveiðibáta aukist mikið. Hann var um 4.000 tonn fiskveiðiárið 2008/09, þegar strandveiðum var komið á, eða um 1,8% af heildarþorskafla. Aflinn var kominn í 12.000 tonn fiskveiðiárið 2019/20, eða 3,9% af heildarþorskafla þess árs. Samkvæmt gildandi reglugerð verður 8.500 tonnum úthlutað til strandveiða fiskveiðiárið 2021/22. Það eru 3,8% af heildaraflamarki þorsks. Ólíkt því sem haldið er fram af hálfu þeirra sem telja hér illa farið með strandveiðisjómenn, þá er hlutfallið óbreytt frá því sem verið hefur á undanförnum árum og hefur þá verulega verið bætt í frá því sem upphaflega var ráðstafað í þessar veiðar. Þegar heimilað er að veiða minna, samkvæmt ráðleggingu Hafrannsóknastofnunar, er það augljóslega sanngirnismál að samdrátturinn gangi jafnt yfir alla. Strandveiði getur þar ekki verið undanþegin. Allir sem sækja fisk úr sjó þurfa að stíga ölduna, strandveiðibátar sem aðrir.

Það eru einfaldlega krefjandi tímar í þorskveiðum og vinnslu um þessar mundir. Þegar líður á fiskveiðiárið má gera ráð fyrir að skipum verði lagt í auknum mæli og fiskvinnslum lokað um lengri eða skemmri tíma. Þetta er áskorun, enda eru sjávarútvegsfyrirtæki burðarstólpi verðmætasköpunar um allt land og fólk getur þar treyst á vel launuð störf árið um kring. Af þessum sökum sérstaklega, verður ekki við það unað að enn sé tekinn þorskur af skipum í aflamarkskerfinu og færður strandveiðibátum. Sú röksemdafærsla, að treysta megi atvinnusköpun og auka líf í höfnum með auknum strandveiðum yfir hásumarið, er að engu hafandi. Þeir sem stunda strandveiðar hafa þá iðju því ekki sem aðalatvinnu. Þorskunum í sjónum fjölgar ekki með millifærslum - að þorskur sé tekinn af einum og gefinn öðrum. Hann yrði alltaf tekinn af fyrirtækjum sem í dag skapa miklar tekjur og störf um allt land – fyrirtækjum sem þegar hafa orðið fyrir verulegum búsifjum vegna mikils samdráttar í aflamarki á stuttum tíma, fólki sem treystir á störf og tekjur allt árið um kring. Það væri engin sanngirni eða skynsemi í slíkri ráðstöfun.

Hágæðaafurðir á hæst borgandi markaði

Fiskur er ekki einsleit vara – og jafnvel þorskur er ekki einsleit vara. Í öllu samstarfi stjórnvalda og sjávarútvegs hefur áhersla verið lögð á að kerfið og umhverfið stuðli sem best að því að tryggja gæði og ferskleika. Það hefur tekist og því til staðfestingar má benda á, að á undanförnum árum hefur meðalverð fyrir hvert útflutt kíló af þorski að jafnaði verið um 30% hærra frá Íslandi en Noregi. Ástæðan er sú að Íslendingar flytja einkum úr landi þorskafurðir sem eru að langstærstum hluta unnar heima fyrir á meðan Norðmenn fara aðrar leiðir. Vinnsla á fiski hér á landi hefur þróast í að vera stöðugt flóknari og meiri áhersla lögð á ferskar afurðir sem seldar eru á hærra verði. Norðmenn hafa aftur á móti dregið úr framleiðslu á unnum afurðum. Þeir selja þorskinn í auknum mæli sem hráefni til vinnslu í öðrum löndum, heilan, ferskan eða frystan. Vinnsla í landi í Noregi hefur einna helst verið á saltfiski eða skreið, en afar lítið hefur farið fyrir flakavinnslu. Meiri vinnsla á fiskinum leiðir til meiri atvinnu og verðmætasköpunar heima fyrir – og að lokum í hærra verði fyrir hvert kíló af íslenskum þorski en norskum. Hér á landi er reynt að halda í virðisaukann en Norðmenn flytja hann að hluta til úr landi.

Það má ekki missa sjónar af þessari mikilvægu verðmætasköpun. Íslenskur þorskur er takmörkuð hágæðaafurð, sem seld er á mörkuðum sem hæst verð borga. Ef sú staða á að halda, má ekki að nokkru leyti slaka á kröfum til gæða. Strandveiðar eru því miður útgildi í þeirri áherslu. Allt frá því að strandveiðar voru heimilaðar árið 2009 hefur það verið ærið verkefni að reyna að bæta gæði þess fisks sem strandveiðibátar koma með að landi. Þar hefur þokast of hægt. Árið 2011 unnu Matís, Matvælastofnun og Fiskistofa úttekt, að beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, á gæðum strandveiðiafla. Orðrétt segir þar:

„Niðurstöður úttektarinnar sýna að strandveiðifiskur er misjafn að gæðum. Strandveiðibátar stunda veiðar yfir heitasta árstímann þegar fiskur er í slæmu ástandi af náttúrulegum ástæðum, þeir halda sig gjarnan nærri landi þar sem fiskur er smár, meira er um orm og liturinn á roðinu er dekkri (þaraþyrsklingur); þeir landa jafnan óslægðum afla og stærðardreifing er mikil. Aðgengi að ís er takmarkað í sumum höfnum, slægingarþjónusta er almennt ekki lengur fyrir hendi og flutningur á óslægðum afla milli landshluta á þessum árstíma getur farið illa með hráefnið ef aflameðferð hefur ekki verið fullnægjandi. Það er því ýmsum vandkvæðum bundið fyrir strandveiðiflotann að tryggja gæði aflans.“

Vera kann að eitthvað hafi áunnist á þeim áratug sem liðinn er, en fjarri því nógu mikið. Enn er unnið að því í nefndum og stofnunum að bæta gæði afla strandveiðibáta. Þetta er enn ein ástæða þess að gjalda verður varhug við því að auka strandveiðiafla. Það mun til lengri tíma hafa áhrif á stöðu íslenskra sjávarafurða á hátt borgandi mörkuðum erlendis. Þessa heildarmynd verður að hafa í huga.

Árangri má ekki kasta fyrir róða

Íslensk stjórnvöld, í samstarfi við íslenskan sjávarútveg, hafa á liðnum áratugum gripið til margháttaðra aðgerða til að gera íslenskan sjávarútveg sjálfbæran og arðbæran þannig að óvíða í heiminum er sjávarútvegur rekinn á eins hagkvæman hátt. Héðan eiga að fara sjávarafurðir í miklum gæðum. Þessi eftirsóknarverða staða varð ekki til fyrir tilviljun, heldur krafðist hún mikillar vinnu og rannsókna. Íslenskur sjávarútvegur hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu og fótfesta íslenskra sjávarafurða á alþjóðlegum markaði er að miklu leyti bundin þessu fyrirkomulagi. Ef sífellt er verið að hola kerfið að innan með illa ígrunduðum breytingum mun það, til lengri tíma, hafa slæm áhrif. Krafan um að auka strandveiðar fellur þar undir.

Höfundur

Heiðrún Lind Marteinsdóttir

Framkvæmdastjóri