Vernd villtra laxastofna

Vernd villtra laxastofna

Grundvallarforsenda fiskeldis í sjó á Íslandi er að villtir laxastofnar skaðist ekki vegna erfðablöndunar. Í samræmi við strangar reglur er laxeldi í sjókvíum á Íslandi því bannað á svæðum nærri skilgreindum laxveiðiám. Lax- og silungseldi í sjókvíum er því fyrst og fremst mögulegt á Vestfjörðum og Austfjörðum, þar sem fáar laxveiðiár er að finna og langt í verðmætustu veiðiár landsins. Þá er unnið svokallað áhættumat erfðablöndunar af óháðum sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar. Matið felur í sér tillögu um eldismagn sem öruggt er talið að ala megi í sjó á tilteknu hafsvæði, án þess að valda villtum laxastofnum skaða. Ísland er eina landið í heiminum sem framkvæmir slíkt mat og byggir magn eldis í sjó á þeim niðurstöðum.

Gerðar eru miklar kröfur til þeirra sem sækjast eftir leyfi til fiskeldis á Íslandi. Öll lönd taka tillit til umhverfisþátta sem stýra leyfilegum hámarkslífmassa eða fjölda seiða á svæði. Á þeim grundvelli er nýjum leyfum og auknum lífmassa eða seiðum settar skorður. Framleiðslutakmarkanir gilda þannig á öllum mörkuðum sem miða að því að takmarka áhrif á umhverfið og stuðla að velferð fiska. Hvergi í heiminum er gengið lengra við leyfisveitingar til laxeldis í því að gæta að vernd villtra nytjastofna en hér á landi. (Skýrsla BCG, bls. 87)

Áhættumat erfðablöndunar

Eitt af yfirlýstum markmiðum laga um fiskeldi er að stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Áhættumat erfðablöndunar er eitt margra úrræða sem beitt er til þess að stuðla að vernd villtra laxastofna hér á landi.

Með áhættumati erfðablöndunar er leitast við að leggja mat á það magn frjórra laxa sem leyfilegt er að ala á tilteknu hafsvæði án þess að það hafi skaðleg áhrif á villta laxastofna. Áhættumat erfðablöndunar er tvíþætt, annars vegar líkan sem reiknar áætlaðan meðaltalsfjölda strokulaxa sem ganga í hverja laxveiðiá og hins vegar vöktun í veiðiám og öðrum ám til að spá fyrir um fjölda eldislaxa í göngum ár frá ári.

Á grundvelli þessara upplýsinga gerir Hafrannsóknastofnun tillögu til ráðherra um það magn frjórra laxa sem öruggt þykir að ala í sjó á tilteknu hafsvæði. Áhættumatið skal byggt á þáttum eins og áætlun um fjölda strokufiska og endurkomuhlutfalli þeirra, áhrifum hafstrauma og dreifingu fiska, fjarlægð áa frá sjókvíaeldissvæðum, stofnstærð laxa í ám og öðru sem þýðingu kann að hafa. Í áhættumatinu skal jafnframt tekið tillit til mótvægisaðgerða sem draga úr mögulegri erfðablöndun, m.a. ljósastýringar og stærð seiða og netapoka. Hafrannsóknarstofnun skal leita eftir tillögum eldisfyrirtækjanna að slíkum aðgerðum. (Lög um fiskeldi, 6. gr. a.)

Áhættumatið ber svo að uppfæra með reglulegu millibili, eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti, sem getur leitt af sér minnkun, óbreytt magn eða aukningu eldis eftir því sem niðurstöður gefa tilefni til.

Nefnd þriggja óháðra vísindamanna með menntun og reynslu á sviði tölfræði, fiskifræði, stofnerfðafræði og vistfræði var skipuð í ársbyrjun 2020 til að rýna aðferðarfræði Hafrannsóknastofnunar við gerð áhættumats og burðarþolsmats. Meginniðurstaða nefndarinnar varðandi áhættumatslíkanið er að það sé „nýstárlegt og nytsamlegt til þess að leggja mat á áætlaðan fjölda laxa sem kunni að sleppa út í náttúruna“ og  breyturnar sem valdar voru í áhættumatslíkanið séu „að mestu vel skjalfestar, þeim er rétt beitt og þær stikaðar með gildum úr fræðiritum og/eða viðeigandi heimildum.” (Skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, bls. 3) Nefndin lagði þó til mögulegar umbætur á líkaninu, m.a. fínstillingu nokkura breyta.

Eins og sést á töflunni hér að neðan er burðarþolsmat tiltekinna fjarða oft mun hærra en áhættumatið heimilar. Staðan í dag er því sú að áhættumat erfðablöndunar stýrir því í raun hve mikinn fisk má ala á tilteknu hafsvæði. Vernd villtra laxastofna er því í forgrunni þegar kemur að leyfisveitingum í fiskeldi í sjó.  

Nánar er fjallað um áhættumat erfðablöndunar í lögum um fiskeldi nr. 71/2008 í 3. gr. og einnig nánar í 6. gr. a.

Nálgast má gildandi áhættumat erfðablöndunar, útgefið af Hafrannsókarstofnun árið 2020 hér.

Áhættumatslíkan

Áhættumatslíkanið reiknar út áætlaðan fjölda göngufiska úr fiskeldi í sjó upp í veiðiár samkvæmt gefnum forsendum. Matið reiknar út ágengni, þ.e. hlutfall eldisfiska, í einstökum ám út frá þekktum upplýsingum um stofnstærð í hverri á. Rauntölur frá Noregi hafa sýnt að eldisfiskur hefur margfalt minni æxlunarhæfni heldur en villtur fiskur og því má reikna með því að erfðablöndunin verði margfalt minni en hlutfall eldislaxa í laxveiðiám gefur til kynna. Að mati færustu vísindamanna á þessu sviði þarf hlutfall eldisfiska í laxveiðiám að vera að minnsta kosti 4% á hverju ári áratugum eða árhundruðum saman til þess að erfðablöndun nái að skerða hæfni stofns árinnar. (Rannsókn 2018, Modeling fitness changes in wild Atlantic salmon populations faced by spawning intrusion of domesticated escapees)  Í áhættumati frá 2020 var áætluð ágengni um og innan við 1% í 89 af þeim 92 veiðiám sem eru í matinu og þar af var engin ágengni áætluð í 43 ám. (Grein eftir Ragnar Jóhannesson, rannsóknarstjóra fiskeldis hjá Hafró)

Nýlega kom út rannsókn á vegum ferskvatnssviðs Hafrannsóknarstofnunar þar sem kveðið er á um mikilvægi frekari rannsókna vegna mögulegrar erfðablöndunar. Í skýrslunni er greint frá erfðarannsóknum á sýnum af laxi úr 89 ám hringinn í kringum landið sem leiddu í ljós að erfðablöndun var greinanleg í yfirleitt minna en 50 km fjarlægð frá eldissvæðum. (Skýrsla um erfðablöndun villts íslensks lax og eldislax af norskum uppruna 2023)

Kröfur og staðlar

Lögum samkvæmt verður eldisbúnaður og framkvæmd þegar fiskur er alinn í sjó að standast ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó. (Lög um fiskeldi, 1. mgr. 1. gr.) Því er það forsenda fyrir útgáfu rekstrarleyfa til fiskeldis í sjó að allur búnaður uppfylli kröfur norska fiskeldisstaðalsins NS 9415:2009, sem þykja ströngustu staðlar sem fyrirfinnast um fiskeldismannvirki í sjó. (Reglugerð um fiskeldi, 2. gr.) 

Í Noregi fækkaði slysastroki hratt með innleiðingu NS 9415:2009 staðalsins og bættu eftirliti og eru í dag hlutfallslega mun sjaldgæfari en áður. Áfram er þó unnið að uppfærslu staðalsins sem var síðast endurútgefinn árið 2021 (NS 9415:2021). Unnið er að innleiðingu nýjustu útgáfu staðalsins hér á landi.

Fyrirtæki í fiskeldi hafa ennfremur lagt til frekari mótvægisaðgerðir svo sem notkun gildrubúnaðs við viðkvæmar ár, vöktun og fjarlæging eldislaxa í skilgreindum ám ef að slysastrok verður. Allt eru þetta aðgerðir sem tíðkast og hafa verið við lýði í Noregi með góðum árangri síðustu ár. (Samantekt Fiskidirektoratet)

Samspil rekstrarleyfa og áhættumats erfðablöndunar

Rekstrarleyfi skulu samrýmast staðfestu áhættumati erfðablöndunar og skal Matvælastofnun breyta gildandi rekstrarleyfum ef við á og þá með hæfilegum fresti til aðlögunar, eins og fram kemur í lögum um fiskeldi. Ef áhættumatið er bundið skilyrðum um mótvægisaðgerðir skal Matvælastofnun hafa eftirlit með að rekstrarleyfishafar fullnægi þeim skilyrðum. Sama gildir um starfsleyfi Umhverfisstofnunar.

Eftirlit

Hér á landi er stunduð umtalsverð erfðavöktun þar sem tekin eru þúsundir sýna og þau greind til að greina hlutfall eldisfiska í klakstofni. Þetta á bæði við um stærri ár en einnig minni þar sem áhöld eru um hvort sjálfbærir laxastofnar þrífist.

Valdar ár eru einnig vaktaðar með svokölluðum árvökum. Árvaki er myndgreiningakerfi sem tekur myndir af öllum fiskum sem ganga í viðkomandi á við staðlaða og stöðuga birtu.

Með daglegri vöktun má sjá fisktegund, stærð og í hvaða átt fiskurinn gengur. Einnig má glögglega sjá ástand fisksins, t.d. hvort hann sé með laxalús. Þá má einnig greina á myndunum hvort fiskurinn er úr eldiskvíum. Þegar hafa tólf árvakar verið settir upp í ám um landið en til stendur að bæta við árvakabúnaði í yfir fjórtán ár. Hægt er að skoða myndir af fiskum í rauntíma á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar og fylgjast starfsmenn með göngu fiska eftir því sem þurfa þykir. Einnig getur allur almenningur fylgst með göngu laxa og komið með ábendingar til stofnunarinnar.

Fjallað er um strok eldisfiska í 45. gr. og í viðauka IV reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi, sbr. 13. gr. laga um fiskeldi. Samkvæmt þeim ákvæðum skulu fyrstu viðbrögð rekstrarleyfishafa við stroki vera að leita orsaka og koma í veg fyrir frekara strok. Tilkynna þarf Fiskistofu, Matvælastofnun, sveitarfélögum og næstu veiðfélögum um strokið og hefja veiðar á strokfiski eins fljótt og mögulegt er. Rekstrarleyfishafa er skylt að búa yfir nauðsynlegum búnaði til veiða og ber viðkomandi að gera allt sem í hans valdi stendur til að slíkur fiskur sé veiddur á svæði innan 200 m. frá eldisstöð. Skylda til veiða takmarkast við þrjá sólarhringa. Jafnframt er gerð krafa um skriflega skýrslu til Fiskistofu um strokið. (Skýrsla Ríkisendurskoðunar 2023)

Aðgerðir til að mæta stroki eldislaxa

Draga má saman nokkrar niðurstöður rannsókna og vöktunar á áhrifum strokulaxa á villta laxastofna:

 • Fjarlægð eldissvæða frá laxveiðiám er lykilbreyta í ásækni eldislaxa í laxveiðiár
 • Meðaltals strok úr íslensku fiskeldi reiknast sem 0,66 strokufiskar á hvert tonn framleitt síðastliðin sex ár. Í Noregi er áætlað að 0,8 fiskar strjúki á hvert tonn framleitt.
 • Eldislax hefur takmarkaða hæfni til að lifa og fjölga sér í villtri náttúru og ratar síður í ár samanborið við villta laxa. Áætlað er að hrygning takist einungis í 1-3% tilfella hjá eldishængum miðað við villta hænga svo dæmi sé nefnt.
 • Langflestir strokulaxar eiga erfitt með að afla sér fæðu í villtri náttúru. Flestir þeirra sem strjúka úr kvíunum ná aldrei að synda upp í nærliggjandi ár.
 • Villtir laxastofnar geta hreinsað út tímabundna erfðablöndun með náttúruvali. Erfðamengi villta laxastofnsins er því ekki í hættu þó eldislaxar strjúki og gangi upp í ár nema það sé mikið og stöðugt strok um margra áratuga skeið.

Það er staðreynd að eldi frjórra laxfiska án allra takmarkana og mótvægisaðgerða getur teflt arfgerð villtra laxastofna í hættu vegna erfðablöndunar. Af þessum sökum hefur verið gripið til fjölda takmarkana og mótvægisaðgerða til þess að vernda villta laxastofninn. Þessum aðgerðum má að meginstefnu til skipta í fernt:

 • Svæðisbundnar lokanir
  Til verndar villtum laxastofnum er eldi laxfiska af eldisstofni í sjókvíum óheimilt á svæðum nærri helstu laxveiðiám, en auk þess eru ýmiss svæði sem henta síður til fiskeldis í sjó. Þessar lokanir valda því að fiskeldi í sjó er í dag einvörðungu stundað á Austfjöðrum og Vestfjörðum.
 • Áhættumat erfðablöndunar
  Með áhættumati erfðablöndunar er leitast við að leggja mat á það magn frjórra laxa sem leyfilegt er að ala á tilteknu hafsvæði án þess að það hafi skaðleg áhrif á villta laxastofna. Áhættumat erfðablöndunar er tvíþætt, annars vegar líkan sem reiknar áætlaðan meðaltalsfjölda strokulaxa sem ganga í skilgreindar laxveiðiár og hins vegar vöktun í veiðiám og öðrum ám til að spá fyrir um fjölda eldislaxa í göngum ár frá ári.
 • Strangir staðlar fiskeldisbúnaðar
  Lögum samkvæmt verður eldisbúnaður og framkvæmd í fiskeldi í sjó að standast ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Því er það forsenda fyrir útgáfu rekstrarleyfa til fiskeldis í sjó að allur búnaður uppfylli kröfur norska fiskeldisstaðalsins Norwegian Standard NS 9415:2009, sem þykja í dag ströngustu staðlar sem fyrirfinnast um fiskeldismannvirki í sjó
 • Mótvægisaðgerðir
  Sem dæmi um frekari aðgerðir til að koma í veg fyrir áhrif af stroki eldisfiska má nefna ljósastýringu, minni möskvastærð í nótum, útsetningu stærri seiða, uppsetningu árvaka o.s.frv. Að auki er ástæða til að nefna úrræði á borð við slembisýnatöku úr afla eða stofni veiðiáa eða með svokallaðri rekköfun, en báðar þessar aðferðir eru notaðar í Noregi. Þá eru miklar vonir bundnar við flokkunarbúnað í ár sem geta flokkað eldislaxa og aðra óæskilega fiska, s.s. hnúðlaxa, frá villtum laxfiskum.

Til viðbótar við eiginlegar mótvægisaðgerðir og eftirlit með fiskeldi í sjó er ekki síður mikilvægt tryggja gott ástand náttúrlegs klakstofns villtra laxastofna í ám með hóflegu veiðiálagi. Of mikið veiðiálag skilur eftir tóm óðöl sem eldishængar geta nýtt sér. (Rannsókn 2003, Fitness reduction and potential extinction of wild populations of Atlantic salmon, Salmo salar, as a result of interactions with escaped farm salmon.) Rannsóknir sýna einnig að eldisfiskar eiga erfiðar uppdráttar eftir því sem þéttleiki og samkeppni frá villtum fiski er meiri. (Rannsókn 2012, Performance of farmed, hybrid, and wild Atlantic salmon (Salmo salar) families in a natural river environment)