Laxalús

Hvað er laxalús?

Laxalús er algengt sníkjudýr á laxfiskum, bæði í villtum stofnum og eldisfiski. Lúsin á uppruna sinn í villtum laxfiskum og magn þeirra nærri eldissvæði getur því haft áhrif á smittíðni hjá eldislaxi. (Skýrsla Ríkisendurskoðunar, bls. 64)

Laxalús lét lítið fyrir sér fara fyrstu áratugi fiskeldis í sjó hér við land. Í takt við aukið umfang laxeldis fór að bera meira á bæði á laxa- og fiskilús.

Samfara óvenju hlýjum sjó allan veturinn 2016-2017 mátti greina fjölgun laxalúsar á vissum svæðum á Vestfjörðum og það var einmitt í júní 2017 sem fyrsta meðhöndlun gegn laxalús átti sér stað í Arnarfirði. Á Austfjörðum hefur engin breyting átt sér stað og enn sem komið er hefur ekki orðið vart við laxalús á eldisfiski. Síðustu ár hefur sjávarhiti aftur nálgast fyrra horf og laxalúsin gefið eftir að sama skapi, en á vissum svæðum fyrir vestan þarf að vera á varðbergi. (Ársskýrsla dýralæknis fisksjúkdóma 2022, bls. 18)

Það er sameiginlegt verkefni fiskeldisfyrirtækja og yfirvalda að huga að bestu forvörnum til að koma í veg fyrir ágang lúsar og tryggja að til staðar séu skilvirk úrræði til viðbragða ef þörf krefur.

Talning og viðbrögð

Fiskeldisfyrirtækin framkvæma vikulega talningu á laxalús og hafa þannig fulla yfirsýn yfir stöðu mála. Eina undantekningin er þegar sjávarhiti fer undir fjórar gráður því að þroski og aukning laxalúsanna hættir vegna kuldans og það samræmist illa sjónarmiðum um dýravelferð eldisfisksins að framkvæma talningu við það hitastig.

Dæmi um mótvægisaðgerðir er að hafa hreinsifisk, eins og hrognkelsi, í kvíum sem étur lúsina. (Grein e. Ólaf S. Ástþórsson og Hafstein G. Guðfinnsson) Notkun lyfja gegn laxalús er óheimil nema með sérstöku leyfi og undir eftirliti Matvælastofnunar. Íslensk löggjöf gerir ráð fyrir því að Fisksjúkdómanefnd sé Matvælastofnun til ráðgjafar við framkvæmd laganna, um varnir gegn fisksjúkdómum. Það er því Fisksjúkdómanefnd sem tekur hverja beiðni um lyfjagjöf vegna laxalúsar til meðferðar og veitir samþykki eða ekki. Laxalús er fljót að fjölga sér ef ekkert er að gert og því brýnt að viðhafa skjót viðbrögð ef grípa á inn í á grundvelli dýravelferðar fiskanna. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa lagt ríka áherslu á að málsmeðferð beiðna um lyfjameðhöndlun á vegum matvælaráðuneytis verði endurskoðuð til að tryggja skjótari viðbrögð stjórnsýslunnar.

Það sama gildir um öll lyf sem notuð eru til meðhöndlunar gegn laxalús að þau hafa farið í gegnum framleiðslu- og leyfisveitingaferli hjá Evrópsku lyfjastofnuninni. Í því felst m.a. að lyfjaframleiðandinn þarf að sýna fram á öryggi lyfsins fyrir umhverfi og vistkerfi. Lyfjagjöf er alla jafna síðasta viðbragð fyrirtækjanna ef önnur ráð duga ekki og velferð fiskanna er í hættu. Slíka meðhöndlun þarf að vanda vel en mikil lyfjagjöf getur leitt til þess að lúsin verið ónæm fyrir lyfjunum.

Flest lyf sem notuð eru gegn laxa- og fiskilús hafa neikvæða virkni á lífeðlisfræðilega þætti sem eru sameiginlegir lúsum og öðrum krabbadýrum. Mismunandi er hversu sterk sú virkni er en ýmis öryggisatriði eru höfð til hliðsjónar við notkun lyfjanna til að draga úr þeim áhrifum. Sem dæmi má nefna að styrkur baðlyfja (s.s. Alpha Max) sem gefin eru í sérstök meðhöndlunarböð er mestur þegar lyfin komast í snertingu við lúsasmitaðan fisk. Virkni lyfjanna minnkar svo hratt með tímanum (á mínútum og klukkustundum) þegar þau brotna niður auk þess sem þynning efnanna þegar baðmeðhöndlun er lokið og lausnin fer í sjóinn er svo mikil að skaðleg áhrif á lífverur í vistkerfinu eru takmörkuð. Samspil lyfja og vistkerfa hefur í gegnum tíðina verið mikið rannsakað, ekki síst í Noregi. Ábyrg notkun lyfja út frá umhverfis- og heilbrigðissjónarmiðum er mikilvægt verkefni yfirvalda sem heimila notkun lyfja og þeirra dýralækna sem ávísa lyfjum.

Samkvæmt fundargerðum fisksjúkdómanefndar frá árinu 2017 hefur helst verið fjallað um umsóknir um leyfi til að gefa eldisfiski í sjókvíum lúsalyf en nefndin hefur alls tekið til umfjöllunar 27 umsóknir þar að lútandi. Í 22 tilvikum mælti nefndin með því að Matvælastofnun samþykkti meðhöndlun með lúsalyfi vegna laxalúsar og/eða fiskilúsar. (Skýrsla ríkisendurskoðunar, bls. 114)

Staða lúsamála var almennt hagstæð á árinu 2022. Það var ekki fyrr en líða fór á haustið að fjöldi fiskilúsar þróaðist með því móti að ákveðið var að spyrna við fótum á vissum svæðum áður en vetur gengi í garð. Fylgst var vel með árangri meðhöndlunar og reyndist hann góður á öllum svæðum. (Um sjávarlús og laxalús, Hafrannsóknastofnun)

Alvarleg tilvik ágengni laxalúsar komu upp árið 2023 á Vestfjörðum. Á grundvelli sjónarmiða um dýravelferð varð það niðurstaða tveggja fyrirtækja sem í hlut áttu að farga sýktum fiski. SFS gáfu út yfirlýsingu í kjölfar þessa. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi töldu mikilvægt að greint yrði hvað fór úrskeiðis og hvernig best mætti tryggja að sambærilegar aðstæður kæmu ekki upp aftur. Þá voru kynntar breytingar í samráðsgátt stjórnvalda sem miða að því að bæta yfirsýn og auka skilvirkni bæði fyrirtækja og stjórnvalda þegar kemur að viðbrögðum gegn lús.

Ný tækni

Fiskeldisfyrirtækin leita sífellt leiða til að bæta verklag og dýravelferð í fiskeldi og ný tækni riður sér hratt til rúms í þeim efnum. Sum fyrirtækjanna hafa þegar hafið notkun á tækinu „Optoscale“ sem fylgist með þróun lífsskilyrða eldisfisksins, t.d. sárum, kynþroska og afmyndunum ásamt því að halda utan um þroska fisksins. Tækið veitir einnig fullt yfirlit yfir fjölda laxalúsa án þess að þurfi að handtelja lúsina á hverjum fisk. 

Mikil þróun á sér stað í baráttunni gegn laxalús, enda er laxalús áskorun hjá öllum þjóðum sem stunda laxeldi. Frumáhersla er lögð á umhverfisvænar aðferðir til þess að halda lúsinni í skefjum. Meðal nýrra lausna sem hafa komið fram að undanförnu er tæki sem kallast „Stingray“, en það er lausn sem fjarlægir lúsina af fisknum með ljósleysi. Tækið telur einnig laxalús og fylgist með heilsu og þroska fisksins. (The Stingray System)

Innra eftirlit og forvarnir

Matvælastofnun gefur árlega út ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma, með ítarlegri greiningu á stöðu fiskeldis á Íslandi m.t.t. heilbrigðis- og dýravelferðar í fiskeldi.

Af skýrslum undanfarinna ára má ráða að ástand heilbrigðismála í íslensku fiskeldi er og hefur verið mjög gott. Ávallt er lögð mikil áhersla á forvarnir í víðu samhengi og allt gert til þess að lágmarka notkun lyfja í fiskeldi. Árangur hefur verið afar góður og árið 2021 var tíunda árið í röð þar sem engin sýklalyf voru notuð í fiskeldi í sjó. Slíkt er einsdæmi í fiskeldi á heimsvísu.

Í skýrslu dýralæknis fiskisjúkdóma hjá Matvælastofnun frá árinu 2022 segir: „Öll stærri eldisfyrirtæki huga afar vel að forvörnum og innra eftirliti og hafa m.a. gert samninga við sjálfstætt starfandi dýralæknaþjónustur til að styðja við og efla almennt heilbrigðis- og velferðareftirlit.“

Í lögum um fiskeldi nr. 71/2008 í 13. gr. a. er fjallað um innra eftirlit rekstrarleyfishafa. Þar er gerð krafa um að fiskeldisfyrirtæki vakti viðkomu sníkjudýra í eldinu. Niðurstöður þeirrar vöktunar skulu sendar Matvælastofnun sem metur hvort og þá hvaða aðgerða er þörf vegna sníkjudýra. Matvælastofnun skal leita umsagnar Hafrannsóknarstofnunar áður ákvörðun um aðgerðir er tekin. Stærri fyrirtækin skuli einnig starfrækja gæðakerfi og starfa eftir samþykktri viðbragðsáætlun um viðkomu sníkjudýra. Viðbragðsáætlunin skal fela í sér fyrirbyggjandi eða annars konar aðgerðir sem stuðla að heilbrigði og velferð lagardýra ásamt því að hindra útbreiðslu og útrýma smitsjúkdómum í lagardýrum og minnka smitálag á umhverfi.

Notkun náttúrulegra varna- eða hreinsifiska til aflúsunar hefur aukist á seinustu árum og hafa hrognkelsi reynst afar vel í því samhengi. Eitt hrognkelsi getur étið um 250 lýs á einum degi. Þá eru einnig settar upp lúsagildrur sem hindra það að lýs komist inn í kvíarnar.