Ásætur og mótvægisaðgerðir

Ásætur og mótvægisaðgerði...

Ásætur á kvíum eru þekkt vandamál í fiskeldi í sjó. Ásætur eru að mestu gróður sem sest á netin og annan búnað en einnig aðrar lífverur á borð við holdýr, marglyttur og önnur dýr sem ná þar fótfestu og valda auknu álagi á búnaðinn. Á sumarmánuðum aukast ásætur til muna og geta orðið það miklar að möskvar netanna vaxa. Við þetta eykst heildarþyngd kvíanna sem eykur álag á allan búnað og kvíin tekur á sig meiri sjó en ella. Þá skerðist einnig súefnisflæði inn í kvínna til eldisfiskanna því ferskur sjór kemst síður inn.

Til að bregðast við þessu er einkum gripið til tvenns konar aðgerða:

a.      Þvottur

Mörg fiskeldisfyrirtæki bregðast við með reglulegum nótaþvætti til að losa ásætur. Yfir björtustu og heitustu mánuði ársins gæti þurft að þvo vikulega. Háþrýstiþvottur getur valdið álagi á netin sem slitna því fyrr en ella og það getur aukið hættu á stroki fiska.

Við þvottinn er notað vélmenni sem keyrt er upp og niður eftir nótinni og losar ásætur af honum með lágþrýstingi. Við þvottinn þarf að gæta sérstaklega að bæði velferð laxfiska og hrognkelsa. Streinduvaldandi áhrif þvottarins fyrir eldisfiskana felst í mikilli hreyfingu á sjónum og grugg skapast þegar ásæturnar losna eftir þvottinn. Gruggið getur farið í tálkn eldisfiskanna en góð tálkn eru lykilatriði í velferð og lifun eldisfiska ásamt því að gruggið truflar líka sjón þeirra sem er mikilvægt til að sjá æti. (Skýrsla Eflu 2022, bls. 5) Ef ekki er vel að gætt getur þvotturinn haft í för með sér skaða og jafnvel afföll á eldisfiskum. (Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála)

b.      Ásætuvarnir

Ásæturvarnir geta komið í staðinn fyrir þvott á netum til að varna ásætum og þannig dregið úr álagi á net og bætt dýravelferð. (Skýrsla Eflu 2022) Net með ásætuvörnum þarf aðeins að þvo á 8-12 mánaða fresti á lágum þrýstingi. Net án ásætuvarna þarf að þvo með háþrýstingi á 6 vikna fresti og yfir heitustu mánuði ársins, jafnvel vikulega.

Skilvirkasta ásætuvörnin hingað til eru svokallaðar koparáæsturvarnir. Koparásætuvarnir innihalda virka efnið koparoxíð sem varnar því að ásætur setjist á næturnar. Dæmi um slíka ásætuvörn er efnið Netwax e5 Greenline, en það efni hefur verið þróað sérstaklega fyrir umhverfisvænt eldi og leyft í lífrænt vottaða framleiðslu í yfir 90 löndum. Varan nýtir koparoxíð í kornum sem eykur nýtni koparsins og prófanir framleiðanda á leka sýna að hann er innan alþjóðlegra marka ásamt því að engar leifar hafa fundist af efninu í vöðvum eldisfiska né lifur þeirra. (Skýrsla Eflu 2022, bls. 2)

Mikilvægt er að upplýsingar um grunnástand styrk kopars í botnseti liggi fyrir í starfsleyfi sem og vöktunaráætlun. Ef í ljós kemur að kopar sem safnast upp í botnseti fer yfir viðmiðunarmörk sem lýst er í vöktunaráætlun og rekja má til notkunar á koparnótum ber rekstraraðili að grípa til mótvægisaðgerða sem er ýmist að lengja hvíldartíma, færa kvíastæði innan eldissvæðis, fækka útsettum seiðum til að draga úr lífmassa eða hætta notkun á eldissvæði. Ákvörðun um viðeigandi ráðstafanir ber að taka í samvinnu við Umhverfisstofnun.

Nætur með ásætuvörnum eru þrifnar í landi þegar eldisnotkun lýkur hverju sinni og síðan litaðar aftur með koparásætum fyrir næstu notkun. Næturnar fara í litun og þvott hjá t.d. Hampiðjunni og Egersund Islands sem eru þjónustaðilar við fiskeldi hér á landi. Allt vatn sem fellur til fer í gegnum vatnshreinsikerfi þar sem grófur úrgangur er síaðu frá og síðan í ferli þar sem málmar og önnur efni eru felldir út. Vatnið er svo dauðhreinsað. (Skýrsla Eflu 2022, bls. 13) Að mati Umhverfisstofnunar munu áhrif kopars ekki verða umtalsverð ef nætur er þvegnar í þvottastöð á landi og gera má ráð fyrir að mest af koparnum falli til þar.

Eftirfarandi eru myndir sem sýna áhrif af notkun ásætuvarna, en lengst til hægri er ómeðhöndlað net:

Umhverfisáhrif

Áhrif af notkun koparoxíðs sem ásætuvarnar kann fyrst og fremst að felast í hugsanlegri uppsöfnun kopars í botnseti sem geti haft skaðleg áhrif á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum. Koparinn í Netwas E5 Greenline safnast ekki upp í fæðukeðjunni en getur safnast fyrir staðbundið í vefum lífvera í sjó. Losunarhraði kopars í ásætuvörnum er mismunandi eftir gerð ásætuvarna og er hæst í byrjun notkunar. Efnið er borið á næturnar í landi og látið þorna áður en þær eru settar í sjó.

Vöktun kopars í botnseti við eldiskvíar Arnarlax í Arnarfirði sýnir að styrkur kopars er almennt undir viðmiðunarmörkum. En þar sem kopar hefur mælst hár eins og við Haganes komu ekki fram skýrar vísbendingar um að magn koparsins hafi haft áhrif á botndýralíf. Ástand botndýrasamfélags á nærsvæði kvíanna var metið „mjög gott“ þrátt fyrir aukinn styrk kopars í botnseti undir kvíum við Haganes. (Ársskýrsla 2020) Þess má jafnframt geta að á Íslandi er náttúrulegt hlutfall kopars í hafi tiltölulega hátt miðað við önnur Norðurlönd, einkum á þeim svæðum þar sem áhrifa eldvirkni og uppblásturs gætir mest. (Veðurstofa Íslands)

Nýlega komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að notkun ásætuvarna á sjókvíar í Arnarfirði skuli háð mati á umhverfisáhrifum. (Ákvörðun Skipulagsstofnunar) Var sú ákvörðun m.a. studd þeim rökum að óvissa væri um áhrif á kalkþörunga í Trostansfirði. Kalkþörunga er ekki að finna undir eldissvæðinu sjálfu en straumar eru flóknir í Innfjörðum Arnarfjarðar og því taldi stofnunin rétt að leggja nánar mat á möguleg áhrif kopars á uppleystu formi í Trostansfirði á búsvæði kalkþörunga.

Næstu skref

Fiskeldisfyrirtækin leita stöðugt nýrra og betri leiða til að gæta að umhverfinu þegar kemur að fiskeldi og það á líka við um leit að annarri lausn en koparásætum á net kvíanna. Nýlega hafa vonir verið bundnar við aðra tegund neta eða og umhverfisvænni ásætuvarnir.