Fóður

Fóðurnýting

Fóðurnýting í laxeldi er betri en í flestum öðrum greinum landbúnaðar. Fiskar og aðrar lagareldisafurðir hafa misheitt blóð sem þýðir að líkamshiti þeirra lagar sig að umhverfinu og orkuþörf er minni en hjá landdýrum sem hafa jafnheitt blóð. Annar mælikvarði á fóðurnýtingu er hlutfall ræktaðs lífmassa sem er nýtanlegur er til manneldis. Báðir þessir mælikvarðar eru hagkvæmir hjá Atlantshafslaxinum, hann þarf á bilinu 1,2-1,5 kg. af fóðri fyrir hvert framleitt kg. af laxi og hlutfall af þyngd hans sem nýtist til manneldis er um 73%.

Nýting á fóðri er lykilatriði þegar kemur að losun og notkun takmarkaðra auðlinda. (Skýrsla BCG, bls. 44)

Samanburður við aðra matvælaframleiðslu

Aukin eftirspurn eftir prótíni úr dýraríkinu, hefur leitt til þess að sá hluti landbúnaðarframleiðslu sem notaður er í dýrafóður hefur farið vaxandi en FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu Þjóðanna) áætlar að þriðjungur ræktarlands í dag sé notaður með einum eða öðrum hætti til fóðurframleiðslu. Árið 2020 nam heildarframleiðsla fóðurs 1,7 milljörðum tonna og er gert ráð fyrir að hún verði komin í tvo milljarða tonna árið 2030. Líklegt er að þessi vöxtur hafi áhrif á umhverfið og valdi aukningu á losun í landbúnaði, eyðingu skóga og álagi á jarðveg og vatnsauðlindir.

Betri nýting á fóðri til framleiðslu á dýraprótíni er því gríðarlega mikilvæg til að draga úr þessum áhrifum.

Eins og sjá má á myndinni hér að ofan, sem fengin er að láni úr skýrslu Boston Consulting Group (BCG) um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi, er fóðurnýting talin betri í lagareldi en í öðrum landbúnaði. Samanlagt gerir þetta fóðurnýtingu í laxeldi betri en í flestum öðrum greinum landbúnaðar. (Skýrsla BCG, bls. 45)

Hvernig er fiskurinn fóðraður?

Fiskeldisfyrirtæki starfrækja fóðurmiðstöðvar þar sem unnið er á vöktum við eftirlit og fóðrun fiskanna. Fóðurgjöf er almennt tölvustýrð eins og hefð er fyrir á stærri eldisstöðvum. Auk þess er viðhöfð rafræn vöktun í gegnum myndavélar ofan í hverri kví þar sem fylgst er með heilsu og fóðrun fisksins. Fóðurtap með þessari aðferð er áætlað aðeins um 2% sem jafnframt leiðir til umhverfisvænna eldis. Með þessu móti er einnig verið að lágmarka uppsöfnun á fóðurleifum undir eldiskvíum.

Samsetning fóðurs

Fóður fyrir lax í fiskeldi er svipað öðru fóðri sem notað er til ræktunar dýra. Uppistaðan í því er grænmeti og fiskimjöl sem unnið er úr fiski sem er almennt ekki eftirsóttur til manneldis. Það er þó jafnan blanda af mörgu til að tryggja að laxinn fái þá næringu sem hann þarf hverju sinni. Í heild má gróflega áætla að um 70-80% komi úr jurtaríkinu og 20-30% úr dýraríkinu. (Handbók Mowi 2023)

Í fóðri er ýmsar aukaafurðir sem falla til við matvælaframleiðslu sem eru ekki nýtanlegir til átu eða sölu, svo sem hausar og bein. Vítamínum og steinefnum er einnig bætt við, auk lýsis. Allt miðar þetta að því að gera laxinn sterkari, hollari og betri.

Fyrirtæki sem framleiða fóður hafa hlotið vottun um að hráefnis sé aflað með umhverfisvænum hætti og ekki sé gengið nærri auðlindum. Mikil áhersla er lögð á rekjanleika. Framleiðslan þarf að vera sjálfbær og ekki er í boði að nota t.a.m. hráefni þar sem skógar hafa þurft að víkja fyrir ræktun. Fyrirtækin sem sjá íslensku fiskeldi fyrir fóðri gera miklar kröfur til birgja sinna um að hráefnið sem unnið á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt.

Losun lífræns úrgangs og fóðurleifa

Lífræn úrgangsefni frá laxi í sjókvíum berast í sjó með sama hætti og af villtum fiskum. Úrgangsefnin eru lífrænn fiskiúrgangur, þvag og uppleyst efni frá tálknum (útsundrun). Í úrgangi eru næringarefni; kolefni, nitur og fosfór. Gert ráð fyrir að um 700 tonn næringarefna á föstu formi berist frá 10.000 tonna eldi að meðaltali ár hvert. (Kynning Verkís á mati umhverifsáhrifa) Efnin leysast að mestu upp í sjó en geta fallið til botns undir og í nágrenni eldiskvía.

Áætlað er að rúm 12.000 tonn af fóðri þurfi að meðaltali til 10.000 tonna eldis ár hvert. Við fóðurgjöf og val á fóðri er gætt að því að hámarka fóðurupptöku með tölvustýringu sem lágmarkar samhliða myndum úrgangs, t.d. með fóðrunarkerfi sem tekur tillit til vaxtarlíkana og raunvöktunar á fóðurtöku.

Næringarefnainnihald fóðurs er breytilegt eftir stærð og ytri aðstæðum, því þarfir laxins breytast eftir því sem hann stækkar og umhverfi hans breytist. Fyrirtækin nota framleiðslustýringarkerfi og halda þannig nákvæmt bókhald um vöxt, fóðurnotkun og fóðurnýtingu. Reglulega er framkvæmd stærðarmæling á fiski í sérhverri kví og þannig reynt að tryggja hámarks fóðurnýtingu og samhliða lágmarka botnfall fóðurs.

Til að hindra uppsöfnun fastra lífrænna leifa er gætt að því við val á eldissvæðum að staðsetja kvíar þar sem eru ákjósanlegir straumar, gott dýpi og góð vatnsútskipti. Helstu mótvægisaðgerðir til að varna uppsöfnun lífrænna efna á sjávarbotni felast í vöktun með sýnatökum, kynslóðaskiptu eldi og reglubundinni hvíld eldissvæða, góðri fóðurstýringu og tilfærslu kvía innan skilgreindra eldissvæða.

Komi fram áhrif til aukningar á uppleystum næringarefnum hafa rannsóknir sýnt að slík áhrif eru staðbundin og afturkræf við hvíld eldssvæða eða verði eldinu hætt.

Samkvæmt rannsókn Náttúrustofu Vestfjarða í Tálknafirði, sem stóð yfir í 23 mánuði á árunum 2010-2012, gætir áhrifa á botndýrasamfélög á afmörkuðu svæði en í um 100 m fjarlægð frá eldiskvíum gætir lítilla áhrifa eða engra. Eftir ár í hvíldartíma sýndi rannsóknin að botndýrasamfélögin voru orðin svipuð og þau voru fyrir fóðrun en þó gæti enn einhverra áhrifa þar sem kvíarnar voru.

Möguleiki á fóðurverksmiðju á Íslandi

Íslenskt fiskeldi er enn á vaxtastigi og Ísland býr að náttúrulegum aðstæðum sem geta skapað því viðvarandi samkeppnisforskot. Til að greiða fyrir sjálfbærum vexti þarf að styrkja virðiskeðjur til að auka framboðsöryggi og innlenda verðmætasköpun.

Í grunnsviðsmynd skýrslu Boston Consulting Group frá 2023 segir að íslenskt fiskeldi muni árið 2032 þurfa um 320 kT af fóðri og um 60 milljónir laxaseiða. Ef miðað yrði við stærð fóðurverksmiðja í Noregi gæti ein fóðurverksmiðja annað því á Íslandi og um átta seiðaeldisstöðvar. Gera megi ráð fyrir því að einkaaðilar geti sinnt hvoru tveggja, að því gefnu að leyfi séu veitt. (Skýrsla BCG, bls. 28)

Þegar fiskeldisfyrirtæki ná ákveðinni stærð kemur jafnan til skoðunar að fjárfesta í eigin fóðurverksmiðju til að lækka kostnað, tryggja aðföng og stýra framleiðslu þannig að hún taki tillit til sérstakra aðstæðna og hámarki næringu fyrir fiskinn.

Fóðurframleiðsla á Íslandi í dag er takmörkuð sem hefur áhrif á fóðurkostnað vegna flutningsþarfa. Áhugi fjárfesta hefur þó vaxið með auknu umfangi fiskeldis á Íslandi og tilkynntu t.d. Síldarvinnslan og BioMar Group áform um að reisa fóðurverksmiðju á Íslandi. (Skýrsla BCG, bls. 60) Afskurður frá fiskeldi og annarri sjávarútvegsstarfsemi Síldarvinnslunnar yrði notaður til framleiðslu á fiskimjöli og lýsi sem bætt er í fóður.

Innlend fóðurframleiðsla skapar störf, eykur landsframleiðslu og hefur jákvæð áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda í samanburði við innflutt fóður. (Skýrsla BCG, bls. 264)